922. þáttur GEIR Magnússon skrifar mér athyglisvert bréf alla leið vestan frá Pennsylvaníu í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ég þakka honum virktavel fyrir bréfið, og birtist það hér með einu innskoti og smávegis styttingu: "Kæri Gísli.
ÍSLENSKT MÁLUmsjónarmaður Gísli Jónsson
922. þáttur
GEIR Magnússon skrifar mér athyglisvert bréf alla leið vestan frá Pennsylvaníu í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ég þakka honum virktavel fyrir bréfið, og birtist það hér með einu innskoti og smávegis styttingu:
"Kæri Gísli.
Í afdölum í Kentucky eru sagðir búa afkomendur landnema frá fyrstu árum landnáms hér, sem sökum einangrunar tala enska tungu eins og hún hljómaði á dögum Elísabetar drottningar hinnar fyrstu.
Mér finnst stundum, þegar ég les Morgunblaðið, að ég hljóti að vera uppdagað nátttröll eins og þeir afdalamenn. Mér finnst ég sjá sífellt meira af breyttu máli í blaðinu, bæði það, sem skrifað er af blaðamönnum, og það, sem haft er orðrétt eftir viðmælendum. Sumt virðist vera erlend áhrif, annað breytt málskyn. Tel ég engan vafa á því að sjónvarpið eigi ríkan þátt í þessari breytingu, það dregur bæði úr lestri og samræðum.
Hér eru nokkur dæmi máli mínu til stuðnings. Þýddar fréttir úr norrænum málum eru fullar af lausum greini, svo sem "hin fagra sænska leikkona", "hinn ríki danski poppari", og svo framvegis. Kryddsíldarþýðingar vaða líka uppi, baggy pants þýtt sem pokabuxur, eins og ég sá nýlega í grein um klæðnað skólabarna.
[Umsjónarmaður: Hér mun vera átt við þær víðu og jússulegu síðbuxur sem um hríð hafa verið í tísku.]
Hitt finnst mér sýnu verra, þegar ensk orðatiltæki, stundum illa þýdd, eru notuð í stað gamals og góðs máls. Í nýlegu viðtali sagði viðmælandi að hádegisverður væri aldrei ókeypis. Þetta er þýðing á there is no free lunch, sem þýðir einfaldlega að æ sjái gjöf til gjalda eða að ekkert fáist án endurgjalds. Í fyrirsögn um frétt um lélegar horfur á loðnuveiðum var spurt "hvort blása mætti af" loðnuvertíð í ár. To blow off er lélegt götustrákamál og þýðir sitthvað, svo sem að vanrækja skuldbindingar eða þykjast ekki sjá eða heyra einhvern eða eitthvað. Tel ég að betra hefði verið að nota orðasambandið að afskrifa. Í grein um heimsókn skemmtiferðaskips til Ísafjarðar stóð undir mynd af fólki á bryggju, að flestir farþegar og margir úr skipshöfninni hefðu "gengið í land". Ég skildi þetta sem svo, að fólkið og áhöfnin hefðu tekið pokann sinn og var ekki hissa á því, skipstjórinn hefur tvisvar "strandað skipinu". Við lestur greinarinnar kom hinsvegar í ljós að blaðamaðurinn ætlaði að segja fólkið hefði skroppið í land. Mér hefur alltaf fundist að ganga í land af skipi þýddi að taka pokann sinn, að fara alfarinn í land. Hugsanlegt er þó að blaðamaðurinn hafi viljað taka það fram sérstaklega að viðkomandi hefðu gengið, en hvorki flogið né synt í land. Með grein um þaravinnslu er mynd af manni að hífa þarapoka um borð í flutningaskip og segir þar að "vatnið streymi úr þaranum". Þarna ætti að segja að sjórinn streymi, orðið vatn var aldrei notað um salt vatn þegar ég var ungur, það var annaðhvort sjór eða pækill. Engum hefði þá dottið í hug að segja að vatn hefði komist í lest á skipi í slæmu veðri né að vatnsrok hefði truflað umferð á Skúlagötu. Þessi villa kemur líklega úr ensku, sem hefur ekkert orð um sjó í merkingunni salt vatn úr hafinu.
Svona má lengi telja. [Hér er sleppt nokkrum hörðum orðum um sjónvarp.] Að lokum, þá er það auðvitað hugsanlegt að mig misminni, að málfar hafi ekki verið betra í minni æsku. Kaninn hefur gott máltæki um slíkt misminni, því eldri sem maðurinn verður, þeim mun hraðar hljóp hann sem strákur. Hef þetta ekki lengra að sinni.
Þinn einlægur."
Mikill óskaplegur stórsnillingur var Einar Ben. Lesi menn til dæmis fyrsta kaflann af þýðingu hans á Pétri Gaut. Það liggur við að mig langi til að lesa þetta á frummálinu. Ég er viss um að Einar hefur verið betri en Ibsen.
Mér hefur um sinn veist sá unaður og munaður að hlýða á Gísla Halldórsson lesa söguna um Góða dátann Svejk í heimsstyrjöldinni. Þessi lestur er svo fágæt list, að mig skortir hæfileika til þess að lýsa honum sem vert væri. Ég held jafnvel að lesari gæti blásið lífsanda í texta sem væri stórum verri en þýðing Karls Ísfelds. En hún er kapítuli út af fyrir sig. Því miður brestur mig tíma og kunnáttu til samanburðar við önnur tungumál, en verk Karls er ótrúlegt afrek í sjálfu sér. Orðauðgin er til dæmis með ólíkindum, eða snilld hans í vísnaþýðingum. Hvar annarstaðar væri hægt að finna orð eins og tékkneska harðjaxlinum eru lögð í munn, þegar hann segir að hverfið hafi bókstaflega "ljómað í slagsmálum". Ríkisútvarpið á miklar þakkir fyrir að hafa tilreitt okkur þetta hnossgæti.
Karl Níelsson Ísfeld fæddist á Sandi í Aðaldal 1906, sonur Áslaugar, systur Guðmundar Friðjónssonar. Hann varð stúdent frá M.A. (í "prófessorabekknum") 1932 og var síðan blaðamaður og rithöfundur. Hann þýddi ókjör af frægum verkum heimsbókmenntanna og samdi sjálfur vel og mikið. Karl Ísfeld varð ekki gamall, dó 1960.
Hlymrekur handan kvað:
Magnúsi Vald. meyjarkossi
var miðlað í kaldleygjarhossi,
og þetta er dapurlegt kvæði,
því þau drukknuðu bæði
þar djúpt undir Aldeigjarfossi.