GUÐNÝ Guðbjörnsdóttir, þingmaður Kvennalistans, tekur undir hugmyndina um veiðileyfagjaldið sem lágmarks aðferð til að gera núverandi kerfi réttlátara, jafnvel þótt breytingin þýddi það að útlendingar gætu leigt hluta auðlindarinnar frá ári til árs.
Guðný Guðbjörnsdóttir um veiðileyfagjald

Kemur til greina að leigja

útlendingum auðlindina

GUÐNÝ Guðbjörnsdóttir, þingmaður Kvennalistans, tekur undir hugmyndina um veiðileyfagjaldið sem lágmarks aðferð til að gera núverandi kerfi réttlátara, jafnvel þótt breytingin þýddi það að útlendingar gætu leigt hluta auðlindarinnar frá ári til árs.

"Það skiptir meginmáli að arðurinn renni til þjóðarinnar sem á auðlindina og gæti jafnvel verið skárra að leigja einum og einum útlendingi einhvern hluta auðlindarinnar heldur en að láta fáa sægreifa fá hana fría á silfurfati," segir hún í samtali við Morgunblaðið.

Guðný segir að Íslendingar hafi alla tíð litið á það sem sjálfstæðismál að hafa vald yfir fiskimiðum sínum og segist hún að sjálfsögðu fallast á það. "En ef það væri ákveðið að leigja út afla frá ári til árs, kæmi það allt eins til greina að leigja þá útlendingum ef afrakstur auðlindarinnar skilaði sér þannig betur til þjóðarinnar," segir hún og bætir því við að það væri auðvitað hægt að leigja út afla með skilyrðum, til dæmis þeim að aflanum yrði að landa hér á landi.

Þá leggur Guðný áherslu á að hættan við núverandi kvótakerfi sem og veiðileyfagjald sé sú að ákveðin byggðarlög geti misst viðurværi sitt. Þessu mætti hins vegar breyta, til dæmis með því að takmarka framsal eða koma á byggðakvóta. Væru þær leiðir á hinn bóginn ekki farnar væri hægt að nýta arðinn af veiðileyfagaldinu til þess að byggja upp atvinnustarfsemi á þeim svæðum sem misstu kvótann.