Upphaf kristindóms á Vesturlöndum
Peter Brown: The Rise of Western Christendom. Triumph and Diversity AD 200-1000. Blackwell 1997.
Miðaldir eru saga 1000 ára í Evr ópu 4761492 eru hin hefðbundnu ártöl til afmörkunar. Hér á landi teygjast miðaldir langt fram eftir 19. öld, að sumu leyti fram undir síðustu aldamót hvað snertir framleiðslugetu og efnahag. Kristnar miðaldir hér á landi eru miðaðar við árið 1000.
Forsenda sögulegs skilnings á þessu tímabili í sögunni er skilningur á mótunarafli þeirra tíma á hugi manna, sem var kristindómurinn. Án þess skilnings verður miðaldasaga ekki skilin. Til þess að nálgast viðhorf og andrúmsloft tímanna þarf mikla þekkingu á sögu kristninnar og skilning þeirra manna sem þá lifðu á kenningum kirkjunnar. Með upplýsingarstefnunni í Evrópu á 18. öld og afhelguninni sem þá hófst tóku sagnfræðingar sem aðhylltust kenningar þeirra tíma upp þá skoðun að miðaldir hefðu verið tímabil hindurvitna og formyrkvunar og þegar frá leið voru miðaldir afgreiddar sem andlega marklaust eða mjög marklítið tímabil í menningarsögu Evrópu. Vísindahyggja, darwinismi, marxismi ásamt Freud og Nietsche móta skoðanir og viðhorf í síauknum mæli. Innan kirkjunnar, prótestanta, var skynsemisguðfræði tekin upp sem framlenging trúarbragðanna þar sem áherslan var lögð á kristna siðfræði og þessu fylgdu nýjar Biblíuskýringar markaðar skynsemishyggju.
Kaþólska kirkjan hélt fast í hefðbundna kenningu og á síðari hluta 19. aldar mótuðu páfarnir ákveðna afstöðu til afhelgunarinnar, skynsemisstefnunnar og sósíalisma. Þrátt fyrir afhelgun töldust þeir sem játuðu kaþólska trú stærsti trúflokkurinn. En mótunaraflið í menningargeirum vestrænna ríkja voru kenningar af toga skynsemisstefnunnar.
Sagnfræðingar skrifuðu sögu miðalda út frá grundvallarviðhorfum einhvers snjallasta og ritfærasta sagnfræðings Englendinga á 18. öld, Edwards Gibbons.
Þáttaskil í þessum hefðbundna skilingi og mati allrar miðaldasögu verða ekki afgerandi fyrr en um eða eftir miðja þessa öld, eins og höfundur þessarar bókar, "The Rise of Western Christianity", Peter Brown, skrifar í formála. Í ritinu segir hann sögu vestrænnar kristni frá síðustu öldum Rómaveldis og mótunaröldum kristninnar á Vesturlöndum fram um árið 1000. Þessi saga er saga mismunandi forma kristindómsins í ríkjum Vestur-Evrópu á mótunarstigi.
Seint á áttunda og á níunda áratugnum komu út rit Georges Buby og Jacques Le Goffs um menningu, fjölskyldutengsl og stigveldi miðalda, þar sem heimildir frá miðöldum voru kannaðar og skildar þeim skilningi sem virðist beinast að því, að ná inn í hugarheim kynslóða þeirra tíma. Le Goff skrifar: "Í ríki stigveldisins er ástæða til að spyrja um stöðu "mannsins" innan þess. Hvað þurfti til þess að teljast maður? Hann varð að vera kristinn. Og sú kristni og kristið mat á manninum var altakandi, allt frá 11. öld og fram á 15. öld var "maðurinn" barn Guðs og þar með helgaður Guði, og sem slíkur dýrmætasta sköpun Guðs. Meðvitundin var altekin og algjörlega mótuð samkvæmt kenningum kristinnar guðfræði og hinn algjöri raunveruleiki tveggja heima manneskjunnar var jarðlegum mönnum jafn sjálfsagður og dagurinn á morgun er mönnum nútímans. Hin eilífa tilvera var algjör raunveruleiki. Mannheimur var heimur Guðs, hér á jörðu og handan dauðans. Það hafa fundist fá merki um afneitun og afneitara á kristnum kenningum, eða þá sem afneituðu tilveru Guðs. Afneitarinn var ekki talinn til manna, hann var útlægur og illgresi í urtagarði kristins samfélags."
Trúin og jafnframt vissan um heimana tvo var efunarlaus og allt sem menn gerðu var miðað við þá báða.
Vissan um himnaríki var sú sama og vissan um sólaruppkomuna á morgun.
Ef skynja á "mentalité", viðhorf, hugsunarhátt, innræti og smekk miðaldamannsins er fyrsta skilyrðið algjör vissa um heimsmynd guðfræðinnar. Hinn mikli fjöldi presta og skriftafeðra og tengsl þeirra við sóknarbörnin var styrkasta stoð kirkju og samfélags til mótunar í eina heild.
Kristnun heiðinna þjóða í Norður-Evrópu er mjög vel útlistuð af Aron Gurevich: Medieval popular culture . . ., 1988.
Skilningur í þessa veru hefur löngum og einkum á síðari hluta þessarar aldar vafist mjög fyrir íslenskum sagnaskrifurum, einmitt þegar umbylting hefst svo um munar meðal merkari miðaldafræðinga á meginlandinu.
Sem dæmi um þennan einstaklega þrönga íslenska skilning á miðöldum er setning eins og þessi "Auk nauðsynja var flutt inn kirkjuskraut og gripir fyrir trúaðar sálir"; Björn Þorsteinsson í einni bók sinni af nokkrum um miðaldir. Einnig er sú að því er virðist viðurkennda "staðreynd" að íslenskir höfðingjar hafi gefið kirkjunni hluta af jarðeignum sínum að því er virðist aðeins til þess að komast undan því að gjalda tíund. Tilgangur gjafanna var stuðningur við hinn nýja sið og fullvissa um að með því tryggðu þeir sér, ásamt hlýðni við skyldukvaðir kristninnar, eilíft líf. En það var þeirrar tíðar höfðingjum fullkominn raunveruleiki.
Það er einkennilegt að marktækasta og skýrasta staðfesting á kenningum evrópskra miðaldasagnfræðinga um "mentalité" miðaldamannsins, og þar með íslenska miðaldameðvitund, virðist engin áhrif hafa haft á rannsóknir íslenskra sagnfræðinga.
Til þess að opna þessar nýju víddir og skilning varð listmálari og byggingarsöguhöfundur, Hörður Ágústsson, með rannsóknum sínum á þeim brotum og grunnum íslenskra kirkna í Skálholti og þeim augljósu ályktunum sem hann dregur af þeim nákvæmu og einstöku rannsóknum.
Rannsóknir hans votta og ályktanir sem hann dregur af þeim, að hér hafa verið reistar kirkjur og bæir, sem jöfnuðust fyllilega á við samskonar byggingar í Noregi á sama tíma. Það þjóðfélag og sú kirkja sem var grundvöllur svo mikilla bygginga hlaut að vera talsvert ólík hugmyndum þeirra sagnaskrifara sem skrifa íslenska miðaldasögu sem sögu "stéttabaráttu" fátæktar og kúgunar og er fyrirmunað að skynja þann heim sem auðsær er í rannsóknum Harðar Ágústssonar.
Textarannsóknir og umfjöllun um höfunda sagnfræðirita 13. aldar með skilning á viðhorfum og persónuleika höfunda sömu rita, eru þýðingarmikill þáttur til þess að komast inn í hugarheim þeirrar tíðar manna.
Það gengur ekki lengur að byggja á "stéttabaráttunni" sem útskýringu atburðarásar íslenskra miðalda.
Peter Brown skiptir bók sinni í þrjá höfuðþætti: Heimsveldið og framhaldið 200500. Mismunandi arfleifð og viðhorf innan kristninnar frá 500750. Lok fornaldar 7501000. Í síðasta þættinum er fjallað um kristnun Norðurlanda og þar með Íslands.
Höfundurinn leggur áherslu á sögu þjóðanna og kristnihald þeirra, mismunandi áherslur og þann mismun vestur- og austurkirknanna sem snemma fer að brydda á. Saga kirkjunnar og kristninnar er meginsaga sögu Vesturlanda, mótunar og siðmenningarafl og á ármiðöldum er lagður grundvöllurinn að menningarþróun Evrópu og þó sérstaklega er kristnun Íslands upphafið að mesta blómaskeiði íslenskra bókmennta.
Peter Brown er prófessor við Princeton- háskóla og hefur skrifað rit um hugmyndaheim miðalda og miðaldasögu. Hann er meðal þeirra sagnfræðinga sem eiga mestan þátt í endurmati miðaldasögunnar.
Siglaugur Brynleifsson.