Það er hreint ekki auðvelt að ímynda sér að fíkn annarra manna geti dugað manni sem fíkn, þ.e. án þess að hann gerist hlutbundnari, jarðneskari í fíkn sinni. En slíkir eru meðvirkir; þetta huldufólk fíknarinnar. Í þessari grein verður grennslast fyrir um þetta mannlífsafbrigði, meðvirknina, einkum þá sem sprottin er af drykkjumennsku.
FARVEGIR ÞEIRRA SEM ERU ÖÐRUVÍSI 7

MEÐVIRKNI

EFTIR ÞORSTEIN ANTONSSON

Sá meðvirki er flókin manngerð; hann kann að bera flest helstu einkenni fíkils sjálfur, almennt áhugaleysi á öllu nema öfgum í einni eða annarri mynd, samband við eina manneskju er látið standa öllum öðrum samböndum fyrir þrifum.

Það er hreint ekki auðvelt að ímynda sér að fíkn annarra manna geti dugað manni sem fíkn, þ.e. án þess að hann gerist hlutbundnari, jarðneskari í fíkn sinni. En slíkir eru meðvirkir; þetta huldufólk fíknarinnar.

Í þessari grein verður grennslast fyrir um þetta mannlífsafbrigði, meðvirknina, einkum þá sem sprottin er af drykkjumennsku. Sama ástand getur orðið til fyrir samband við fíkil af hvaða tagi sem er.

Einkennin eru þau sömu; sá meðvirki lifir í tveimur heimum, hversdagsleikans sem blasir við augum, en jafnframt öðrum sem hann hefur til hliðsjónar um athæfi sitt allt, sem hann einn þekkir, og sem gegnir alræðishlutverki í lífi hans. Frekari kynni leiða í ljós sérstætt sálarlíf þar sem rétt niðurstaða er síður en svo talin hin æskilegasta, þar sem eigin velferð ræður ekki stefnunni heldur er lakari kostur í því tilliti hiklaust valinn þegar að úrslitum dregur, skýringa- og athugasemdalaust. Ríkulegum mannkostum kann að vera sólundað í það sem frá sjónarmiði annarra er illskiljanleg vitleysa. Hvergi finnst þó óreglan né er hægt að benda á geðveilu til skýringar svo undarlegu háttalagi.

Skýringin er þessi: Í nútíð eða fortíð þess meðvirka er fíkill, ekki endilega á áfengi, hann getur jafnvel verið aurasál af verstu gerð; fíkill sem verkar eins og segull á allt athæfi þess meðvirka. Og honum er ekki nema að takmörkuðu leyti ljóst ósjálfstæði sitt, orsök þess og afleiðingar.

Eitt helsta einkenni þess meðvirka er að hann kemur aldrei til dyranna eins og hann er klæddur ­ og sennilega ekki frammi fyrir sjálfum sér heldur ­ enda er hann sífellt að reyna að hagræða lífi sínu til samræmis við mótsagnakenndar þarfir sínar. Hann reynir annars vegar að halda í horfi, hins vegar að réttlæta undanbrögð sín og fíkilsins. Annars vegar er heimur drykkjumanns, utanveltu við veröld venjulegs fólks, draumkenndur heimur sem þeim meðvirka er tamt að taka tillit til. Hins vegar hlýtur hann að taka því meira tillit til veruleikans sem óáreiðanleiki fíkilsins er meiri. Og þessi tvískinnungur kemst upp í vana eins og allt sem maður ástundar lengi.

Allir á heimilinu verða með tíð og tíma samgrónir drykkjumynstri. Meðvirknin getur jafnvel orðið slík að sá meðvirki getur ekki hugsað sér annað hlutskipti, þótt hann eigi kost á öðru, en bæta drykkjumanni upp ágalla hans, vera betri helmingur hans. Drykkjumaðurinn nýtur órökstuddra forréttinda, hann kemur því inn hjá sjálfum sér og öðrum að hann þurfi ekki að hafa vit fyrir sér sjálfur, réttlætir ábyrgðarleysið á einn eða annan hátt, og óreiðan, geðþóttinn, siðleysið setur svip á far hans allt. Öðrum heimamönnum hættir að sama skapi til að missa sjónar á raunverulegum skyldum sínum. Ábyrgðarkenndin vex uns sá meðvirki týnir öllu samhengi við skyldur að almannaáliti og þær taka í staðinn á sig afskræmda mynd. Auk þess lærist þeim sömu fjölskyldumeðlimum að hið stóra svið skikkanlegra samskipta fólks heyri ekki til fjölskyldumálum heldur hæfi þeim pukrið eitt; þeim lærist að fjölskyldumál tengist samfélaginu helst fyrir nauð og samhjálp, laun og skatta, og félagsráðgjöf en sé ekki sú örugga höfn mannlegra tilfinninga og sjálfsuppgötvunar sem heilbrigt fjölskyldulíf þó í rauninni er.

Alkinn reynir að kyrrsetja augnablikið yfir glasi og flösku. Stundarfró þess meðvirka verður aftur á móti þaðan af minni sem hann verður háðari drykkjumannsferli annarrar manneskju, ­ uns upplifun hans víkur alveg fyrir blekkingum og hann byrgir sig inni með sálartal sitt. Úr því trúir hann ekki á annað en veruleika síns innri manns ef honum þá tekst að halda í þá trú.

Stöðnun

Til að þola ófyrirsjáanleg uppátæki fylliraftsins og jafnframt hylma yfir með honum hefur þeim meðvirka lærst að draga dul á allt sem hann sjálfan varðar, ­ koma aldrei til dyranna eins og hann er klæddur. Ofan í brenglað sannleiksskyn hættir honum því til að einangrast í einkalífi sínu, svo rækilega að hann verður illa fær um að eiga tilfinningasamband við aðra manneskju, jafnt maka sem aðra. Óþreyjunni sem leiðir af svo ófullnægjandi sambandi veitir hann útrás í marklitlum samskiptum við tilfallandi fólk; skrafvini sem þá gegna því hlutverki helst að hlusta en sá meðvirki hleypir aldrei nær sér en svo að hann er viss um að hann stofnar ekki sambandi sínu við fíkilinn í hættu. Er þá yfirborðskenndur, tæpir á málum, lýkur ekki setningum, veður elginn með allri áherslu á tilfinningar sínar en enga á innihald. En jafnframt þessu öllu ber hann merki um óhagganlega dul. Í því sambandi gildir allt eða ekkert; annaðhvort er unað við kúgun sem heilbrigðari manneskja myndi tafarlaust hafna ­ eða öskrið eitt tjáir mótmælin.

Fyrir alla heimilisaðila getur afleiðing meðvirkni orðið dauðkreppt, angistarfull íhaldsemi á allar meðalgildisreglur, barnsleg þörf fyrir endurtekningar. Undir kraumar heift, óorðuð, nafnlaus, og getur nægt til sjálfsmorðs ef engin útrás fæst. Svo þarf auðvitað alls ekki að fara; sambúðin getur meira að segja haldist í einhverskonar jafnvægi og án þess að nokkurn tíma komi til uppgjörs. Jafnvægið telst þá nægilegt til að sá meðvirki kjósi það heldur en lokauppgjör og endanlegt hrun félagslegs tilverugrundvallar hans. Vonbrigði verða sjálfsagt mál. Drykkja í óhófi gerir menn endurtekningasama og ófrumlega, og því ber allt að einum og sama brunni; heimilisvenjur þess drykkfellda verða honum hvatning til ennfrekari drykkju.

Sá meðvirki gleðst með sambýlingnum ef tilefni er til þess, en án þess að slaka á sjálfstjórninni; alltaf sem svo að gleðistundin sé óraunveruleiki samanborin við hið alvanalega ófremdarástand á heimilinu. Skapandi tilþrif þar eru honum samskonar fjarstæða og ef leikpersóna á sviði tæki upp á því að hegða sér eins og raunveruleg manneskja í miðri leikrullunni. Heima fyrir gegnir ein og sama manneskjan í senn hlutverkum stjórnanda og þjónustuaðila á heimilinu og það af nákvæmni sem ber keim af ofstæki. Andstæðurnar eru svo miklar í sambúð þess meðvirka og fíkilsins að sameiginlegt einkalíf fæst ekki viðurkennt öðru vísi en dramatískt, þegar hæst stendur í drykkju, þegar mest hallar undan fæti.

Flókin manngerð

Meðvirkni í hófi hefur menningarlega hlið. Allsstaðar þar sem áfengi er haft um hönd að siðaðra manna hætti ríkja gagnkvæmt áhrif meðvirkni og neyslu þess. Menn drekka til að vera með og aðrir umbera drykkjuna og njóta með þeim sem á veigunum dreypa þess léttleika sem víni getur fylgt þótt ekki neyti áfengis sjálfir. Miklu skiptir hvar sá meðvirki dregur markalínuna sem raunar er víðast hvar félagslega ákvörðuð. Ein ummerki drykkjusýki eru að drukkinn maður beitir öllum brögðum til að draga þann meðvirka með sér yfir þessi mörk. Við slíka drykkjuhætti verða til andstæður þótt allt hafi áður verið slétt og fellt í skiptum þess meðvirka og hófdrykkjumanns; vínleikhúss hófseminnar, þar sem hver um sig hélt sig að sínu hlutverki, verður að leikhúsi ofdrykkjunnar þar sem allir kúga á víxl með drykkju og samviskubiti.

Drykkjumenn eru oft mjög reglusamir að slepptu áfenginu, en lifa í hræðslublöndnu ósætti við reglurnar sem stýra lífi þeirra. Þeim hentar því sambúð við agaðri og stjórnsamari manneskju sem bægir frá þeim óttanum með því að gerast persónugervi þessara reglna. Þeim meðvirka lærist svo fyrir sitt leyti af fyrirkomulaginu að hann eigi að skipa sess áhorfandans og fylgjast þaðan með hamförum fíkils.

En hvað sem yfirlýsingum líður um að einn sé heilbrigðari en annar þá er ekkert fjölskyldulíf heilbrigt í þeim skilningi að skynsemin ein ráði, sjálfskilningurinn og vellíðunarprinsípið. Þótt allt sé skipulagt eru undirstöður fjölskyldunnar ævinlega fjarstæðuóskir hvatalífsins, ­ og þær ganga sjaldnast við réttum nöfnum. Samband fíkils og meðvirkils er því ekki andstæða annarra vináttu- eða ástarsambanda; það er bara talsvert frábrugðið því sem gerist og gengur um sambönd af því tagi.

Sá meðvirki er flókin manngerð; hann kann að bera flest helstu einkenni fíkils sjálfur, almennt áhugaleysi á öllu nema öfgum í einni eða annarri mynd, samband við eina manneskju er látið standa öllum öðrum samböndum fyrir þrifum, ósannsögli, getuleysi til að tjá tilfinningar svo nokkur mynd sé á, samviskunag, kvíði, vanmáttarkennd og almennt viljaleysi til að lifa lífinu frá degi til dags að hætti venjulegs fólks. En engin skýlaus merki um fíkn verða þó greind af fari hans.

Sá meðvirki hefur ánetjast félagsmynstrum sem fíklum fylgja, fyrir nauð sína og ógæfu. Í sambúð við hann ríkir ekki jafnvægt heilbrigði heldur stirðleikar og uppivöðslusemi milli hans og drykkjumanns. Sá meðvirki þolir illa hið gráa svæði hversdagsleikans. Tilfinningasamband hans er ekki hins varfærna sem finnur sér farvegi í léttúð og leik heldur blandið ótta og ofbeldi; sambýlingarnir eru á víxl veitendur og þiggjendur í hefndarleik vanlíðunarlosta sem þeir eiga erfitt með að vera án.

Í heilbrigðri fjölskyldu kúgar ekki ein þörf allar aðrar til fylgilags við sig, og ólíkt því sem gildir um fíkla er venjulegt sambýlisfólk reiðubúið til að taka á sig óþægindi endurgjaldslaust, ­ en þó í von um uppbyggilegt fjölskyldulíf og þar með framfarir. Þau hjón eða hjónaleysi sem vínguðinn hefur á valdi sínu njóta ekki slíks frjálsræðis því fíknin hefur tekið völdin í lífi þeirra, og er komin áleiðis með að skapa sér sjálfstæðan heim til að þrífast í með alræðislegum hætti. Nautnir hinna heilbrigðu eru orðnar að þráhyggju fíkils og þess meðvirka. Börnin koma sér upp hlutverkum í fjarstæðuleikriti heimilislífs síns án þess að bera nokkurt skyn á heildarsamhengið.

Ást er hófleg fórn, sjálf manns dregur sig í hlé fyrir sjálfi annarrar manneskju ­ og væntir þess sama af henni. Önnur pakkar mynd sinni inn í viðráðanlegar umbúðir og færir hinni að gjöf. Sá sem kann að notfæra sér slíkt atlæti með viðeigandi hætti kemur sér þar með upp svigrúmi fyrir fjölskyldu; þ.e. sjálfan sig, maka og afkvæmi. Við þau kjör getur mál tilfinninganna öðlast mikinn sveigjanleika ef það er iðkað daglega af fórnlyndi.

En eigingirni þess drykkfellda spillir þróun fjölskyldumála hans. Hann gerist dofinn fyrir öllu fyrr en á þriðja eða fjórða glasi, fjölskyldu sinni sem öðru. Fíknin í áfengi verður að sama skapi þrálát. Sjálf hans er á undanhaldi fyrir magísku augnabliki sem á síðari stigum alkohólismans getur ekki orðið annað en martröð. Um er að ræða þrá vitfirrings eftir stjórnleysi þótt í fæstum tilvikum sé gengið svo langt að sinna þeirri þrá einni. ­ Eða af hálfu þeirra allsgáðu að úrskurða þann vitfirrtan með formlegum hætti sem sér flöskur í sólarstað.

Andstætt við tilfinningaupplausn þess drykkfellda lýtur sá meðvirki ofstjórn sjálfs sín í tilfinningamálum sínum. Hann veit að tilfinningarnar tilheyra ekki raunverulegu lífi hans þótt hann kunni að búa yfir þeim hið innra, ­ uns stíflan brestur og tilfinningar hans til alkans og alls annars finna sér útrás með dramatískum hætti.

Nýtur samfélagsþegn

Þeim meðvirka er tamt að byggja reglur sínar á draumórum annarrar manneskju. Hann þolir því illa gagnrýni sem ekki virðir slíkar forsendur. Trúlega er honum lífið sjálft blekking ein og honum marklaus sú gagnrýni sem ekki virðir það sjónarmið. Gagnrýni hans sjálfs er nákvæm en er samt vel duldar rökleysur, hún byggist á aðferð sem gerir blekkingu hans mögulega fremur en að hún afhjúpi nokkuð slíkt.

Ef hann því ekki sansast á samvinnu við annarra manna reglur er hætt við að hann kljúfi sig út úr með sínar, og stefni svo inn í nýjan vítahring draumóra í stað starfrænnar niðurstöðu. ­ Það er því hverjum meðvirkum fyrir bestu að ætlast ekki um of um sjálfstæði sitt heldur fara alfaraleið, semja sig hverju sinni að annarra háttum.

Þeim sem mótast hafa af umgengni við fíknir manna hæfir að treysta fremur á þær tilfinningar sem menningin tilreiðir, en hinar sem ekki geta talist annað en stundarskot milli manna.

Höfundur er rithöfundur.



SÁ MEÐVIRKI lifir í tveimur heimum, hversdagsleikans sem blasir við augum, en jafnframt öðrum sem hann hefur til hliðsjónar við athæfi sitt allt.

Mynd eftir Richard Lindner: "Og Eva", 1971.