UNDIRRITAÐUR hefur verið stofnsamningur milli Tónlistarfélags Kópavogs og bæjarstjórnar um byggingu tónlistarhúss í Kópavogi. Athöfnin fór fram í Listasafni Kópavogs, Gerðarsafni, í gær. Í húsinu verður salur, tónstofa, fyrir 300 gesti og aðstaða fyrir Tónlistarskóla Kópavogs.
Stofnsamningur um Tónlistarhús Kópavogs
UNDIRRITAÐUR hefur verið stofnsamningur milli Tónlistarfélags Kópavogs og bæjarstjórnar um byggingu tónlistarhúss í Kópavogi. Athöfnin fór fram í Listasafni Kópavogs, Gerðarsafni, í gær. Í húsinu verður salur, tónstofa, fyrir 300 gesti og aðstaða fyrir Tónlistarskóla Kópavogs. Framkvæmdir eru þegar hafnar og áætlað er að tónstofan verði að fullu frágengin í nóvember á næsta ári, Tónlistarskólinn mun taka til starfa í nýja húsinu haustið 1999. Fullbúið kostar tónlistarhúsið 300 milljónir króna.
Sérstakt félag hefur verið stofnað um byggingu og rekstur tónlistarhússins. Í stofnsamningi segir að hlutverk þess sé m.a. að auðga tónlistarlíf í Kópavogi og skapa ákjósanlega aðstöðu til tónlistarnáms. Bæjarsjóður Kópavogs á 62,5% eignarhlut í félaginu, Tónlistarfélag Kópavogs á 27,5% og stefnt er að 10% eignarhlut einstaklinga og fyrirtækja. Leitað verður að frjálsum fjárframlögum á meðan á byggingu stendur. Sérstök stjórn verður yfir tónlistarhúsinu og ræður hún forstöðumann þess og annað starfsfólk og ber ábyrgð á rekstri hússins gagnvart eigendum þess.
Menningarmiðstöð í hjarta bæjarins
Tónlistarhúsið mun rísa austan Gerðarsafns á milli Hamraborgar og Borgarholtsbrautar. Ætlunin er að síðar verði byggt þar Safnahús með framtíðaraðstöðu fyrir bókasafn bæjarins og Náttúrufræðistofa. Þegar fram líða stundir munu þessar byggingar mynda menningarmiðstöð í miðbæ Kópavogs. Arkitektar hússins eru JL arkitektar, Jakob Líndal og Kristján Ásgeirsson. Umsjón með burðarþoli hefur Verkfræðistofan Hamraborg. Um hljóðhönnun sjá verkfræðingarnir Stefán Einarsson og Steindór Guðmundsson. Í tónlistarhúsinu verður fyrsti sérútbúni tónleikasalur landsins auk 900 fermetra aðstöðu Tónlistarskóla Kópavogs.
Bæjarstjórn hefur skipað byggingarnefnd sem í eiga sæti Gunnar I. Birgisson, formaður nefndarinnar, Valþór Hlöðversson, Sigurður Geirdal, Kristján Guðmundsson, Sveinn Ívarsson og Runólfur Þórðarson, fyrir hönd Tónlistarfélags Kópavogs. Byggingarnefnd leggur á það áherslu að húsið skuli vera einfalt en vandað að allri gerð og megináhersla er lögð á gæði hljómburðar í tónstofu og að skapa starfsemi Tónlistarskólans þá aðstöðu sem hæfi merku menningarstarfi.
GUNNAR Birgisson og Fjölnir Stefánsson, skólastjóri Tónlistarskóla Kópavogs, takast í hendur eftir undirritun samningsins. Á milli þeirra eru Sigurður Geirdal og Runólfur Þórðarson.