ÞEGAR þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín ferðuðust um Norðurland sumarið 1712 og skráðu ástand jarða og búpenings, var skógi í norðlenskum sveitum tekið að hnigna mjög. Það átti þó ekki við Fnjóskadal þar sem skógur var talinn vera í landi allflestra jarðanna.

EYÐING HÁLS-

SKÓGAR Í

FNJÓSKADAL

EFTIR EINAR SVEINBJÖRNSSON

Séra Jón Þorgrímsson á Hálsi var ekki aðeins prestur. Hann þótti búmaður mikill og var talinn fyrirhyggju- og aðdráttarsamur. Dugnaður hans birtist einnig í því hve rækilega hann lét höggva Hálsskóg og sá illi kvittur komst á kreik að klerkur léti höggva skóginn ótæpilegar en heimilt var samkvæmt máldaga.

ÞEGAR þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín ferðuðust um Norðurland sumarið 1712 og skráðu ástand jarða og búpenings, var skógi í norðlenskum sveitum tekið að hnigna mjög. Það átti þó ekki við Fnjóskadal þar sem skógur var talinn vera í landi allflestra jarðanna. Höfuðból sveitarinnar, prestssetrið Háls státaði af einum stórvaxnasta skógi landsins ef marka má Jarðabókina. Örlög Hálsskógar urðu hins vegar þau að hann gjörféll á innan við 100 árum, þannig að fyrir aldamótin 1800 var hann að mestu eyddur.

Hér verður sagt frá sr. Jóni Þorgrímssyni sem sat Háls í næstum heilan mannsaldur á 18. öld. Honum var öðrum fremur kennt um eyðingu Hálsskógar. Í málaferlum sem af hlutust reyndi sr. Jón hins vegar að bera af sér þær sakir.

Vorið eftir að séra Jón Steingrímsson eldklerkur hafði með bænar- og trúarhita sínum stöðvað hraunflóðið úr Laka skammt vestan Kirkjubæjarklausturs, lá nafni hans Jón Þorgrímsson, veikur í fleti sínu norður í Fnjóskadal. Veturinn hafði verið hinn versti harðræðisvetur vegna hinna ógurlegu móðuharðinda. Nautpeningur og sauðfé féll unnvörpum og fólk svalt heilu hungri. Í þéttbýlum sveitum Norðurlands var ástandið sérlega slæmt. Séra Jón Þorgrímsson á Hálsi í Fnjóskadal átti þungbært verk fyrir höndum þegar hann reis loks úr rekkju "dauðavorið" 1784. Lík 13 manna biðu jarðsetningar á Draflastöðum, annarri af tveimur útkirkjum frá Hálsi. Sagnir um kröftug huggunarorð sr. Jóns við þessar ömurlegu aðstæður lifðu á vörum fólks í Fnjóskadal fram á þessa öld.

Æviskeið sr. Jóns Þorgrímssonar spannaði nærfellt alla 18. öldina. Hann lést árið 1798, 85 ára gamall og hafði þá þjónað Hálsprestakalli í tæp sextíu ár. Fyrstu þrjú árin sem aðstoðarprestur hjá föður sínum, en að honum látnum fékk Jón brauðið og þjónaði því fram á níræðisaldur. Prestar voru á þessum tíma afar þaulsetnir á Hálsi og á undan þeim Jóni og Þorgrími sátu staðinn þrír langfeðgar alls í um 140 ár. Kona séra Jóns var Katrín Hallgrímsdóttir frá Svalbarði í Þistilfirði. Börn þeirra voru mörg og meðal afkomenda má nefna Hannes Hafstein ráðherra og dr. Björn M. Ólsen háskólarektor. Þá var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri dóttursonur sr. Jóns og Katrínar. Tryggvi var um tíma búsettur á Hálsi röskri hálfri öld eftir lát afa síns.

Í prestskapartíð séra Jóns Þorgrímssonar dundu hinar mestu hörmungar yfir land og þjóð. Auk hinna miklu móðuharðinda ríkti ákaft hallæri hér á landi á árunum 1751­ 1757. Vetur voru þá afar harðir og hafís landfastur langt fram á sumar. Skepnur féllu og fiskafli brást. Ofan á alla þessa óáran gaus Katla stórgosi árið 1755. Talið er að níundi hver Íslendingur hafi látist úr hungursóttum árin 1756­57. Að lokum skal nefndur fjárkláðinn sem náði til Norðurlands eftir 1770. Hann olli þungum búsifjum þar sem niðurskurður sauðfjár var óhjákvæmilegur.

"Skógur til raftviðar mikill og góður"

En víkjum þá sögunni aftur að Hálsskógi sem einu sinni var. Kirkjustaðurinn Háls kúrir í hlíðinni ofan vegar, skammt austan við brúna yfir Fnjóská á þjóðvegi nr. 1. Hálsmelar sem áður fóstruðu skóginn eru áberandi í landslaginu, einkum neðan og vestan bæjarins. Næsta jörð framan við Háls er Vaglir með sinn þekkta Vaglaskóg og áfram inn dalinn að austanverðu eru jarðirnar Lundur og Þórðarstaðir. Þessar fjórar jarðir skera sig úr í Jarðabók þeirra Árna og Páls. Um Háls er þar sagt; "skógur til raftviðar mikill og góður". Á hinum þremur er einnig talað um að raftviður hafi verið nægur. Með raftviðum er átt við há og beinvaxin tré sem nota mátti í húsrafta. Skóglendi þessara samliggjandi jarða hefur líkast til verið nær því samfellt og því án efa mesti og stórvaxnasti skógur landsins í upphafi 18. aldar. Aðeins Húsafellsskógur í Borgarfirði nálgaðist samjöfnuð í lýsingu á skóglendi í Jarðabókinni. Skógarjarðir voru taldar allmargar í flestum landshlutum í jarðabókinni. Algeng lýsing er á þá lund að um ­ "bjarglegan eldiviðarskóg" sé að ræða og ekki sjaldan fylgir með að hann sé tekinn "að feyskjast". Á mörgum jarðanna er aðeins talað um "rifhrís til kolagjörðar". Þar er væntanlega átt við birkikjarr. Skóglendi var mikið tekið að hnigna þegar þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín fóru um landið skömmu eftir aldamótin 1700. Næstu tvær aldirnar seig síðan allrækilega á ógæfuhliðina með þeim afleiðingum að um síðustu aldamót, þegar lögin um verndun skóga voru sett, var aðeins hægt að tala um skógaleifar á örfáum stöðum á landinu.

Búbót hin besta

Áður en lengra er haldið er rétt að gera grein fyrir helstu nytjum landsmanna af skóginum hér áður fyrr. Segja má að afnotin hafi einkum verið fjórþætt:

1. Smíðaviður. Þar sem birkiskógur var stórvaxinn og bolir beinir hefur mikið verið höggvið til húsagerðar. Einkum sóttust menn eftir röftum í mæni útihúsa og torfbæja. Auk þess var birkið mikið notað til smíða hvers kyns áhalda og húsmuna.

2. Eldiviður. Ekki þarf að efast um að mörg trén hefa endað sem eldiviður hjá landsmönnum. Enginn þraukaði þorrann og góuna sem ekki hafði nóg að bíta og brenna. Þegar skóginn þraut var sótt í smávaxið birkikjarr. Einnig þótti fjalldrapi kjörinn eldsmatur svo og lyng.

3. Kolagerð. Einn er sá þáttur sem ekki skal vanmeta þegar fjallað er um eyðingu skóganna. Öll heyöflun frá upphafi Íslandsbyggðar var háð sláttuljám. Ljáir voru smíðaðir við viðarkolaeld og ekki nóg með það, heldur þurfti að eldbera og dengja hvern ljá daglega yfir sláttinn, ætti hann að bíta. Til þessa unnu menn kol úr skógi í þar til gerðum kolagröfum. Geysilegu skóglendi hefur frá öndverðu verið eytt til að afla lífsnauðsynlegra kola. Kolavinnslan leið undir lok upp úr 1870 þegar Torfi Ólafsson í Ólafsdal flutti heim með sér hina skosku ljái, en þá mátti brýna á hvefissteini.

4. Búfjárbeit. Beit búfjár fór illa með skóglendi. Sauðfé étur einkum sprota og nýgræðing með þeim afleiðingum að skógurinn endurnýjast ekki eðlilega. Í þéttum og eðlisgóðum skógi tapaði féð ullinni og því var gjarnan gripið til grisjunar, og flýtti hún enn fyrir eyðingunni. Geitur eru sérlegir skaðvaldar í skógi. Af þeim var talsvert í Fnjóskadal áður fyrr.

"Þá eru þeir skaðlegastir, er mestir eru dugnaðarmenn"

Sr. Jón Þorgrímsson á Hálsi var ekki aðeins prestur. Hann þótti búmaður mikill og var talinn fyrirhyggju- og aðdráttarsamur. Þá var hann atkvæðamaður og skörungur í héraði. Dugnaður hans birtist einnig í því hve rækilega hann lét höggva Hálsskóg. En þrátt fyrir að Jón hafi verið virtur og elskaður af sóknarbörnum sínum, átti hann sér óvildarmenn í sinni sveit og þótti þeim klerkurinn á Hálsi helst til ákafur við skógarhöggið í Hálsskógi. Einn þessara manna var nágrannabóndinn á Vöglum, en við hann stóð Jón í langvarandi landamerkjaþrasi. Eftir máldaga kirkjunnar á Hálsi var staðarhaldara heimilt að selja 80 rafta á ári úr skóginum og að auki hafa birki til húsagerðar og kol til heimilisþarfa. Fljótlega eftir að Jón var tekinn við búsforráðum á Hálsi komst sá illi kvittur á kreik að klerkur léti höggva skóginn ótæpilegar en heimilt var samkvæmt máldaganum. Árið 1748 lætur sr. Jón sýslumanninn taka þingvitni um ásigkomulag Hálsskógar og að ekki hafi verið seldur meiri skógur en heimilt var. Hvort sr. Jón var kærður fyrir illa meðferð á skóginum eða hann hefur einfaldlega viljað hreinsa sig af áburði þessum skal ósagt látið.

Fúnir fornviðir

Seinna þetta sama sumar, vísiterar Halldór Brynjólfsson biskup Háls. Segir svo í vísitasíugerðinni: "Sóknarpresturinn, heiðarlegur séra Jón Þorgrímsson undirréttar fyrir biskupnum að staðurinn gangi mikillega af sér til túns og engja, en sérdeilis foreyðist skógurinn og fordjarfist af sjálfum sér og sé honum bannað að höggva úr honum fúna fornviði skóginum til betrunar . . ." Í vísitasíunni birtist ennfremur sú ósk séra Jóns að fá öðrum nauðþurfandi að höggva þessa "fúnu fornviði". Biskup leggur til í vísitasíugerðinni að presturinn á Hálsi fái "gunstiga resulutionis" hjá amtmanninum í þessum málum.

Lýsing þessi sýnir augljóslega að prestur er ekki sáttur við að telja gömul og dauð tré með í skógarhöggskvóta staðarins. Hann reynir einnig að sannfæra biskup um að brottnám fúaviðanna bæti vöxt og viðgang skógarins. Á milli þessara lína má þó einnig lesa afsökun á meðferð skógarins og eins að sr. Jón sé hræddur um að honum verði takmörk sett um afnot hans. Þegar þetta gerist er aðeins liðinn áratugur af prestskapartíð sr. Jóns og fyrrnefndar plágur ekki komnar til sögunnar.

Séra Jón Þorgrímsson hélt skógarhögginu ótrauður áfram eftir þingvitnið sem tekið var 1748. Öðru hverju hefur þó samviska hans rumskað því að þrisvar til viðbótar lét prestur taka þingvitni um ástand skógarins til að réttlæta meðferðina. Í annað sinn árið 1756. Það sumar kallaði sr. Jón til átta menn til að vitnis um það hversu skógur, tún og engjar hafi eyðilagst frá síðasta þingvitni. Í þinggjörðinni segir eitthvað á þá lund að skógur staðarins hafi "merkilega rúinerast, sem og að nýgræðingsskóg sé engan að finna." Og einnig ­ " . . . sá forni skógur sé fúinn, forrotinn og flest af eikunum í fauska fallið og þar fyrir skaðlegt, bæði vegna grasgangs og væntanlegs uppvaxanda nýs skógar að láta þær fornu eikur óhöggnar standa." Óskar sr. Jón að hinir átta þingmenn gefi um þetta augljóst og sannferðugt vitni. Enn er presturinn á Hálsi að réttlæta skógarhögg á gamaltrjám og nú eru fallnir bolirnir álitnir hinir mestu skaðvaldar í skóginum.

Fádæma kalt sumar

Um þetta leyti voru landsmenn þjakaðir af hallæri og vesöld. Stirð tíð og stutt sumur áttu vafalaust einhvern þátt í hraðri eyðingu Hálsskógar og sennilega hefur sr. Jón viljað skjalfesta og skrifa hnignun skógarins á hina óhagstæðu veðráttu, fremur en eigin nytjar. Í annálum má glöggva sig á árferði þessa tíma. Þótt frásagnir af harðræði vilji oft verða yfirdrifnar, eru lýsingar á veðurfari og hafískomum öllu trúverðugri hjá annálariturum. Í Djáknaannál, sem ritaður var í Húnaþingi, segir t.a.m. eitthvað á þessa leið frá árinu 1756:

Sumar kalt. Hafísinn rak inn 10. apríl í stórhríð. Lá fyrir Norðurlandi til höfuðdags (29. ág.). Ísinn orsakaði sífelld næturfrost, en þurrkleysi og norðangúlp um daga. 26. júní kom álnardjúpur snjór. Áfelli kom í 12. viku sumars (um 10. júlí) sem lá í fimm daga. Aftur annað ei minna með jafnmikilli fannfergju í 14. viku sumars (síðast í júlí).

Af þessari lýsingu og öðrum á sömu lund má sjá að vart hefur verið hægt að tala um sumar í eiginlegri merkingu árið 1756.

Alkunna er að birkið, sem er með allra veðurþolnustu trjátegundum, lætur ekki "plata" sig í hlýindaköflum snemma vors. En einhver takmörk hljóta þó að vera á þoli birkisins. Getur verið að mörg köld ár í röð hafi gengið það nærri ástandi birkisins að sum trén hafi hreinlega drepist, einkum þó stærri og jafnframt eldri trén? Eða hvernig reiðir íslenska birkinu af við síendurtekið næturfrost eftir að það er allaufgað? Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum harðinda á íslenska birkið, en hugsanlegt er að kalda sumarið 1756 með sínum næturfrostum og áfellum hafi hreinlega ofboðið þoli þess á Norðurlandi.

Lýsing úr Þórðarstaðaskógi í Fnjóskadal að loknum frostavetrinum 1918 og "kalvorinu mikla", styður að nokkru skoðun þessa. Þá laufguðust ekki mörg elstu og fegurstu trén í skóginum og féllu þau í kjölfarið. Þó var árferðið 1918 bara allgott í samanburði við hið illræmda ár 1756 sem hér er til umfjöllunar.

Afar líklegt má telja að sr. Jón Þorgrímsson hafi kallað til þingvitni þetta sumar til að sýna hve ótíðin hafi leikið skóginn grátt. Hvernig skóginum er lýst, að hann sé "fúinn og forrotinn" bendir til þess að mörg tré hafi þá verið dauð og að falli komin. Jón er þó við sama heygarðshornið sem fyrr og sýnir hann talsverða kænsku. Í aðra röndina hefur hann með þingvitninu viljað fullvissa kirkjuyfirvöld um að óhætt væri að fella fleiri tré en heimilt var samkvæmt hinum gamla máldaga.

Engin hrísla uppistandandi

Eins og fyrr segir lét sr. Jón Þorgrímsson kalla síðast til þingvitni árið 1773. Ekki er vitað nákvæmlega á hverja lund niðurstaða þess var. En aftur á móti kveinkaði prestur sér við prófast sinn í Höfða sr. Sigfús Jónsson árið 1781 vegna rýrnandi gæða á Hálsi. Í vísitasíu prófasts má lesa eftirfarandi: "Gangi staðurinn stórum af sér að öllum herlegheitum vegna skriðufalla á tún og engjar, eftir því sem þingvitni vísa af 1773, líka sé hér allur skógur fallinn, sem það þingvitni og svo sýnir". Lýsing Ólavs Ólavíusar er á sömu lund, en hann ferðaðist um landið og kannaði landshætti á árunum 1775­77. Í ferðabók þeirri sem Ólavíus ritaði stendur eitthvað á þá leið að er hann kom í Fnjóskadal hafði hann búist við að sjá þar hið sjaldgæfa íslenska náttúrufyrirbæri sem skógur var. Ólafur Ólavíus varð fyrir vonbriðgum því ekkert sá hann tréð "hvorki stórt né lítið, ungt né gamalt, nema aðeins rætur sem sýna að þarna hafi verið skógur". Ólavíus er þarna að lýsa Hálsskógi, eða öllu heldur leifum hans. Tekið skal fram að þar sem Ólavíus reið stystu leið austur um Ljósavatnsskarð kannaði hann ekki skógana á jörðunum framan við Háls, sem án efa voru í mun betra ástandi, en niðurlægjandi lýsingin á Hálsskógi gefur til kynna.

Ljóst má vera að síðasta þingvitnið árið 1773 hefur verið kallað til að skjalfesta gereyðingu Hálsskógar. Áðurnefnd "hreinsun" Jóns staðarhaldara Þorgrímssonar á Hálskógi var þar með lokið með þeim afleiðingum að engin hrísla var uppistandandi.

Hálsskógur hefur sem sé verið nær gereyddur nokkru áður en móðuharðindin dundu yfir land og þjóð og áttu þau því lítinn sem engan þátt í eyðingu hans. Þegar skógurinn var fallinn voru örlög jarðvegarins auðsæ. Landið blés upp og í stað stórskógar komu gróðurvana melauðnir. Þó ber að geta þess að skógur óx á nýjan leik á allnokkru svæði í Hálslandi á 19. öldinni og getur Sigurður Sigurðarson búfræðingur þess í Andvara árið 1900 að skógur á Hálsi hafi þá vaxið á um 80 hekturum lands. Til samanburðar voru 200 hektarar skógi vaxnir á Þórðarstöðum og á Vöglum 100 hektarar á sama tíma.

Óforskammaður búhöldur eða góðviljaður höfðingi?

En hvernig skyldi sagan dæma menn eins og sr. Jón Þorgrímsson? Var hann óforskammaður búhöldur, sem vildi efnast á stórfelldri viðarsölu um allar sveitir, eða var Jón góðviljaður prestur sem vildi nýta hinn fallandi skóg til bjargar sóknarbörnum sínum frá hungri og vesöld? Hákon Bjarnason, fyrrum skógræktarstjóri, var einn þeirra sem ekki var í vafa. Í hans huga var þáttur séra Jóns Þorgrímssonar á Hálsi einn svartasti blettur í hnignunarsögu skóganna, allt frá landnámstíð. Í Ársriti Skógræktarfélagsins hefur sr. Jón meira að segja fengið viðurnefnið "skógarböðull" hjá Hákoni og fleiri skógræktarmönnum sem notuðu hvert tækifæri til að rifja upp ófagra söguna og minntu jafnframt landsmenn sína á skuld þeirra við landið. Jón Þorgrímsson var af þessum sömu mönnum gerður að einhvers konar persónugervingi hnignunar skóga hér á landi.

Eitt er þó víst að afar erfitt er fyrir kynslóðir okkar tíma að setja sig inn í lífsbaráttu fólks á 18. öldinni. Þá var litið á skóginn sem auðlind líkt og fiskistofna okkar í dag. Af honum mátti hafa tekjur þegar vel áraði og ef harðnaði á dalnum jók hann lífslíkur þjóðarinnar. En eins og með allar auðlindir verður að umgangast þær af skynsemi og huga verður að endurnýjunarmætti ef ekki á illa að fara.

Til eru nokkrar sagnir um stórfellt skógarhögg í Hálsskógi í tíð sr. Jóns. Ein er sögð af Sæmundi Eyjólfssyni sem styrktur var til þess að kanna ástand skóga í Þingeyjarsýslu og Múlasýslum. 1894 skrifaði hann mikla ritgerð í Búnaðarritið og segir Sæmundur þar frá því að fjórir bændur hafi einhverju sinni höggvið 400 rafta hver í Hálsskógi fyrir sr. Jón og 100 rafta hver fyrir sjálfa sig, en það voru jafnframt verklaun þeirra. Einnig er frá því sagt að prestur hafi selt raftvið í allar áttir, einkum vestur í Eyjafjörð og Skagafjörð. Vissulega má velta vöngum yfir sannleiksgildi frásagnar sem þessarar. Að fella 2.000 tré á einu ári í ekki stærri skógi en Hálsskógi hljómar ótrúlega, en ef mið er tekið af því að heimildarmaður Sæmundar var Jónatan Þorláksson á Þórðarstöðum þarf vart að draga frásögn þessa í efa. Jónatan var fróðleiksmaður sem safnaði sögum og sögnum úr Fnjóskadalnum. Honum var á sinni tíð mjög annt um skóginn á Þórðarstöðum, sem þótti að margra dómi fegursti skógur landsins þegar Jónatan lést gamall maður skömmu eftir aldamótin síðustu. Hér verður ekki rakinn afar merkur þáttur Jónatans í skógarvernd, en vafalítið hefur gróska Þórðarstaðaskógar hleypt frumherjum skipulegrar skógræktar kapp í kinn í upphafi þessarar aldar, sýnt mönnum og sannað að ræktarlegur skógur gæti vel þrifist hérlendis með réttri umhirðu og friðun.

"Skógurinn dó en þjóðin lifði"

"Skógurinn dó en þjóðin lifði" var heiti greinar sem Þórarinn Þórarinsson skólastjóri ritaði í Ársrit Skógræktarfélagsins á þjóðhátíðarárinu 1974 og vísaði þar til þess að skógarnytjar áttu sinn þátt í því að íslenska þjóðin hélt velli í gegnum aldirnar þrátt fyrir óblíð náttúruöfl. Okkur sem byggjum þetta land á ofanverðri 20. öld hættir til að setjast í dómarasæti og úthrópa forfeður okkar sem allsherjar spellvirkja náttúru og landgæða. Hvað sr. Jón Þorgrímsson áhrærði, hefur hann á sinni tíð verið það sem í dag væri kallað kænn fjármálamaður. Hann kunni að hagnýta sér þá auðlind sem í skóginum fólst. Ekki þó eingöngu í eigin þágu. Mörgum sögum fer af hjartagæsku sr. Jóns og víst má telja að sóknarbörnin í Fnjóskadal hafi einnig notið með einum eða öðrum hætti viðartekjunnar úr hinum fallandi Hálsskógi á 18. öld.

Samantekt þessi styðst við allmargar heimildir, en þær hlestu eru:

Hákon Bjarnason. Eyðing skóga í Fnjóskadal. Ársrit Skógræktarfélagsins, 1947.

Hákon Bjarnason og Einar E. Sæmundssen. Nauðsyn nýrra skógrækrarlaga. Ársrit Skógræktarfélagagsins,1939.

Sigurður Bjarnason. Fnjóskdæla saga. Nýjar kvöldvökur, 1932.

Sigurður Sigurðarson. Skógarnir í Fnjóskadal. Andvari, 1900.

Sæmundur Eyjólfsson. Ferð um Þingeyjarsýslu og Fljótdalshérað. Búnaðarrit, 8 1894.

Höfundur er veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.



Ljósm.greinarhöf. KIRKJAN á Hálsi í Fnjóskadal. Naktar hæðirnar sem hér ber við loft, þakti Hálsskógur fyrir aldamótin 1800.



Ljósm.Morgunblaðið/Kristján. ÞESSI lundur er það eina sem eftir er af Hálsskógi.



VAGLASKÓGUR eins og hann er nú og gamla brúin sem alltaf er staðarprýði. sú var tíð að Hálsskógur og Vaglaskógur voru svipaðir, enda samvaxnir.