Hagnaður nam 6,3
milljörðum króna
HAGNAÐUR Norræna fjárfestingabankans, (NIB), nam 80 milljónum ECU eða sem samsvarar 6,3
milljörðum íslenskra króna á fyrstu átta mánuðum þessa árs. Þetta er nokkuð betri afkoma en á síðasta ári er 74 milljóna ECU hagnaður varð af rekstrinum, eða sem samsvarar rúmlega 5,8 milljörðum íslenskra króna, að því er segir í frétt frá bankanum.
Þá kemur fram að heildarlántökur bankans hafi numið jafnvirði 618 milljarða íslenskra króna í lok ágúst og höfðu þær aukist um 16% á milli ára. Eftirspurn eftir lánum bankans hefur aukist samhliða hagvexti á Norðurlöndum. Útborgun nýrra lána og veittra ábyrgða nam jafnvirði 73 milljarða króna á tímabilinu janúar ágúst 1997, samanborið við 66 milljarða á sama tíma árið á undan. Heildarútlán bankans jukust um 14% frá síðustu áramótum og í lok ágúst 1997 námu þau alls jafnvirði 521 milljarða íslenskra króna.
Stór lán til raforkuframkvæmda á Íslandi
Á fyrstu átta mánuðum ársins voru greidd út ný lán og ábyrgðarskuldbindingar til lántakenda á Norðurlöndum að jafnvirði 61 milljarði króna sem svarar til 13% aukningar miðað við sama tímabil í fyrra. Lánveitingar til raforkuframkvæmda á Íslandi eru áberandi þetta ár. Hér vega þyngst lán til Landsvirkjunar vegna nýrra virkjunarframkvæmda að fjárhæð tæplega 3,6 milljarðar og lán til Reykjavíkurborgar í tengslum við raforkuframleiðslu á Nesjavöllum að fjárhæð um 2,5 milljarðar króna.
Útborganir nýrra lána bankans utan Norðurlanda námu jafnvirði 12 milljarða króna á fystu átta mánuðum ársins 43% þessara lána voru til fjármögnunar verkefna í Asíu.
NIB stofnaði nýverið nýjan umhverfislánaflokk, sem ætlaður er til fjármögnunar umhverfisbóta á grannsvæðum Norðurlanda í austri, þ.e.a.s. Rússlandi, Eystrasaltslöndunum og Póllandi. Fyrstu lánin úr þessum lánaflokki voru veitt í formi lánaramma til Lettlands og Litháen og var hvor rammi um sig að jafnvirði tæplega 1,6 milljarða króna. Einnig var veitt lán til vatnsveitu- og vatnshreinsunarframkvæmda í St. Pétursborg að fjárhæð 1,3 milljarðar króna.