LÍKUR á því að efnisforsendur lífs sé að finna á einhverju tungla Júpíters hafa aukist verulega eftir að lífræn efnasambönd hafa fundist á tveim tungla plánetunnar til viðbótar, að því er fréttastofan Associated Press hafði eftir vísindamönnum í gær. Þetta þýðir þó ekki að líf sé áreiðanlega að finna.
Forsendur lífs

á Evrópu

LÍKUR á því að efnisforsendur lífs sé að finna á einhverju tungla Júpíters hafa aukist verulega eftir að lífræn efnasambönd hafa fundist á tveim tungla plánetunnar til viðbótar, að því er fréttastofan Associated Press hafði eftir vísindamönnum í gær. Þetta þýðir þó ekki að líf sé áreiðanlega að finna.

Af upplýsingum er hafa fengist með tækjum um borð í geimfarinu Galíleó, sem er á braut um Júpíter, má ráða að á tunglinu Evrópu muni vera að finna alla þá þrjá þætti sem vísindamenn telja nauðsynlega til þess að líf geti kviknað: Orkulindir, fljótandi vatn og lífræn efnasambönd. Lífræn efnasambönd innihalda öll flóknari sambönd kolefnis, sem þýðir þó ekki að líf sé óhjákvæmilega fyrir hendi.

Spennandi vísbendingar

"Þetta merkir ekki að það sé líf á Evrópu," segir Thomas B. McCord, stjörnufræðingur við Hawaiiháskóla og einn höfunda rannsóknar sem gerð er grein fyrir í nýjasta tölublaði Science, sem kom út í gær. "Það sem er spennandi við þetta, eru vísbendingarnar um að allir þættirnir þrír kunni að vera til staðar á Evrópu."

Vitað var að á Evrópu væri að finna vatn og heitan kjarna. Dale Cruikshank, vísindamaður hjá bandarísku geimvísindastofnuninni, NASA, sagði í gær að uppgötvun McCords og aðstoðarfólks hans myndi leiða til aukinna rannsókna á Evrópu, sem nú þegar nyti "sérstaks áhuga".

Tæki í Galíleó hafa numið vísbendingar um flókin, lífræn efnasambönd á yfirborði tunglanna Kallistós og Ganymedesar, sem bendir til að slíkt muni einnig að finna á yfirborði hinna stóru tunglanna tveggja, Evrópu og Íós. Ólíklegt er talið að líf geti þrifist á Kallistó, Íó og Ganymedesi vegna þess að þar er ekkert vatn að finna.

Ekki óyggjandi niðurstaða

McCord lagði áherslu á, að engar rannsóknir hafi leitt til óyggjandi niðurstöðu um að líf sé að finna á neinu tungla Júpíters. Í Galíleó eru tæki er nema endurvarp geislunar frá Sólinni af yfirborði tunglanna. Bylgjulengd endurvarps hverrar sameindar er einstæð og gefur endurvarp geislunarinnar því rafrænt "fingrafar" af efnissamsetningu yfirborðsins.