LÍNUSKIPIÐ Byr VE, sem er um 170 brúttótonn að stærð, er komið á túnfiskmiðin og byrjað að reyna fyrir sér með veiðar um 170 sjómílur suðsuðaustur af Vestmannaeyjum. Byr, sem er fyrsta íslenska skipið til að stunda túnfiskveiðar, lét úr höfn á þriðjudagskvöld og gat byrjað veiðar á fimmtudag eftir tuttugu tíma siglingu á miðin.
Fyrsta íslenska skipið á túnfiskveiðar "Við beitum bara

bjartsýninni"



LÍNUSKIPIÐ Byr VE, sem er um 170 brúttótonn að stærð, er komið á túnfiskmiðin og byrjað að reyna fyrir sér með veiðar um 170 sjómílur suðsuðaustur af Vestmannaeyjum. Byr, sem er fyrsta íslenska skipið til að stunda túnfiskveiðar, lét úr höfn á þriðjudagskvöld og gat byrjað veiðar á fimmtudag eftir tuttugu tíma siglingu á miðin. Sævar Brynjólfsson, sem er útgerðarmaður skipsins ásamt skipstjóranum um borð, Sveini Rúnari Valgeirssyni, segir að lítið sem ekkert hafi frést af aflabrögðum ennþá. Undanfarið hefur Byr verið gerður út á grálúðuveiðar á Reykjaneshrygg.

"Við erum tiltölulega bjartsýnir þó að við höfum enga reynslu og rennum algjörlega blint í sjóinn," sagði Sævar. Áhöfnin á Byr er níu manns og ætlar að beita smokkfiski fyrir túnfiskinn. "Við ætlum svo að koma með túnfiskinn ferskan að landi, slægðan og ísaðan. Ef eitthvað fæst geta þeir verið þrjá daga að veiðum frá því að þeir fá fyrsta fiskinn. Mér skilst svo að það sé nægur markaður fyrir túnfiskinn ef hann kemst heilu og höldnu á Japansmarkað. Hugmyndin er að senda hann með flugi til Japans."

Ekki von á viðbrögðum innan lögsögunnar

Aðspurður hvort búast mætti við einhverjum viðbrögðum af hálfu annarra túnfiskskipa á svæðinu, átti Sævar ekki von á hörðum viðbrögðum, að minnsta kosti ekki á meðan þeir héldu sig innan íslensku lögsögunnar. "En við reynum auðvitað að halda okkur þar sem túnfiskurinn er hverju sinni og eins og er virðist hann vera innan lögsögunnar. Á meðan svo er er ekkert að óttast," sagði Sævar en ásamt Byr eru þrjú japönsk túnfiskveiðiskip að veiðum innan íslensku lögsögunnar og hafa þau öll verið að gera það gott.

Við höfum fylgst náið með veiðunum

Að sögn Sævars hefur útgerð Byrs fylgst vel með gangi mála á túnfisksvæðum bæði í ár og í fyrra. Sævar sagði ómögulegt að segja til um það að svo stöddu hvað þeir myndu gefa túnfiskveiðunum langan tíma. "Við höfum engar væntingar gert ennþá en vonumst auðvitað til að dæmið gangi upp enda hefur orðið talsverður kostnaður í kringum þessa útgerð. Ennþá er þetta algjör tilraun. Við beitum bara bjartsýninni."