NÓTASKIPIN Víkingur AK, Elliði GK og Höfrungur AK héldu til síldarleitar úti fyrir Vesturlandi frá Akranesi í gær, en veður hefur hamlað leit á svæðinu frá því að rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fann síld á allstóru svæði frá Reykjanesi og vestur í Kolluál í byrjun vikunnar. Skipin verða fyrst um sinn við leit suðvestur af Reykjanesinu.
Bræla hefur hamlað síldveiðum Síldarleit hafin

út af Reykjanesi



NÓTASKIPIN Víkingur AK, Elliði GK og Höfrungur AK héldu til síldarleitar úti fyrir Vesturlandi frá Akranesi í gær, en veður hefur hamlað leit á svæðinu frá því að rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fann síld á allstóru svæði frá Reykjanesi og vestur í Kolluál í byrjun vikunnar. Skipin verða fyrst um sinn við leit suðvestur af Reykjanesinu.

"Síldin, sem þarna hefur verið staðbundin, hefur haldið sig rétt utan við Eldeyna og svo eru einhverjar fréttir um að hún sé eitthvað norðar líka. Ég geri svo ráð fyrir því að flotinn fari svo í breiða loðnuleit á næstu dögum. Veðurútlitið er þokkalegt, samkvæmt veðurspá, en hér er nú norðan stinningskaldi," sagði Birgir Stefánsson, stýrimaður á Víkingi, í samtali við Verið í gær.

Engin síldveiði var fyrir austan land í fyrrinótt, en tíu til tólf skip voru þá á miðunum austur af Glettinganesinu. "Á okkur hefur verið bræla og engin veiði. Skipin lónuðu bara þarna," sagði Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri á Þorsteini EA, í samtali við Verið í gær, en þá höfðu þeir á Þorsteini skroppið inn á Norðfjörð til að taka ís. Hann bjóst þó við að skipin gætu athafnað sig í nótt, eftir að veðrið lægði.