Alnetið
reiknar út geð
og heilsu fólks
VINSÆLDIR vefsíðna þar sem fólk
getur gengið úr skugga um eigið heilsufarsástand, njóta nú sívaxandi vinsælda í Japan.
Á meðal fyrirtækja sem komið hafa sér upp slíkum heilsusíðum á vefnum er Otsuka Pharmaceutical Co. en síða þeirra, Komdu lagi á kaloríuátið, (http://www.otsuka. co.jp/) var opnuð í febrúar síðastliðnum. Gestur sem fer inn á síðuna byrjar á því að setja inn upplýsingar um hvaða mat hann innbyrðir að meðaltali daglega. Síðan vinnur vefsíðan úr upplýsingunum og gesturinn getur séð svart á hvítu hve mikið af próteinum og öðrum næringarefnum hann fær í kroppinn. Að auki fylgir útreikningur á almennu heilsufari gestsins.
Að sögn talsmanns fyrirtækisins hafa vinsældir síðunnar verið stöðugar frá því hún hóf göngu sína, um 1500 gestir daglega, þar til nýlega að fjöldi gesta sem heimsækja hana fór upp í 15.000 daglega.
Annarri vinsælli síðu af þessu tagi var hleypt af stokkunum í mars síðastliðnum en þar er á ferðinni ríkisstyrkt verkefni sem sett er upp af japanskri nefnd sem beitir sér fyrir bættri heilsu og hreysti. Síðurnar bera nafnið Heilsunetið eða "Health Net" (http://www. healthnet.or.jp/)
Á þessari síðu geta menn fengið reiknað út andlegt álag og streitu sem þeir eru haldnir. Þó er annað sem slær streitureikningana út í vinsældum en það eru upplýsingar, sem hægt er að nálgast á sömu síðu, um skaðsemi reykinga, að því er talsmaður Heilsunetsins segir.
Þessu til viðbótar má nefna hér skyldar síður þar sem menn geta fengið góð ráð um hvar þeir eigi að leita sér lækninga í bráðatilfellum, Health Scramble (http://healþ.co.jp/), þó líklega komi hún Íslendingum lítt að gagni. Á þessari síðu er einnig tenging yfir á aðrar síður þar sem hægt er að láta gera nákvæma úttekt á geðheilsu sinni.
Heimild:the Japan Times