HUGLÆGIR STAÐIR
SÝNING Erlu Þórarinsdóttur verður
opnuð í Ásmundarsal við Freyjugötu í dag kl. 16. Bláminn hefur fylgt Erlu frá upphafi. Í verkum sínum nú tekst hún meðvitað á við litinn og málar röð mynda blátt á blátt. Í öðrum verkum vinnur hún með blaðgulli á bláan grunn strigans. Málverk hennar opna áhorfandanum sýn á huglæga staði, draumheim erkitýpanna. Á sýningunni eru einnig verk samsett af ljósmyndum, heilmyndum og blaðgulli á glæru og lituðu gleri. Myndefnið er dýrlingar, ýmist tilnefndir af kaþólsku kirkjunni eða listakonunni sjálfri og hún veltir því fyrir sér hvað það sé sem gerir einstakling að dýrlingi, þarf kraftaverk að koma til eða getum við öll verið dýrlingar?
Erla hefur sjaldan verið jafnánægð með sýningaraðstöðu og í Ásmundarsal. Áhrif byggingalistar og skúlptúra í verkum hennar eru augljós og oft vísa titlar þeirra til þriðju víddarinnar, t.d. eldri málverkaröð hennar Kort og nú myndröðin Staðir. Bogadreginn gluggi Ásmundarsalar hleypir dagsbirtunni inn í bláma verkanna. Salurinn kallast á við verkin og áhorfandinn fær góða tilfinningu fyrir tign salarins því myndirnar hanga hátt. "Ég er að spila með perspektíf í myndunum mínum, staðsetningu verkanna er ætlað að styrkja þau áhrif, fá áhorfandann til að hverfa inn í verkið," segir Erla. Uppruni formanna er óljós. Erla segir að þau leiti á sig aftur og aftur og smám saman skilgreini hún þau og búi til framsetningar. "Ég hafði verið að daðra svo lengi við bláa litinn að í myndröðinni Staðir ákvað ég að taka hann fyrir og mála blátt á blátt. Ég sé hins vegar nú að möguleikarnir eru óendanlegir. Ætli blái liturinn eigi ekki alltaf eftir að fylgja mér." Tengslin við Klein eru fyrir hendi. "Ég mála blátt á mínum forsendum. Hann átti sinn bláa lit og ég á minn." Þennan "Erlu- bláa" lit fær hún með því að blanda litadufti í olíu og segir að mött áferðin gefi tilfinningu fyrir rými í myndunum.
Blaðgull hafði Erla ekki reynt fyrr en í samsettum ljósmyndaverkum sínum af dýrlingunum. "Viðnám ljóssins er heillandi viðfangsefni. Þar býr dularfullur myndheimur, gullið oxast með tímanum og áhrif verksins geta gjörbreyst." Hvort sem það eru áhrif frumformanna, dýrlingana eða blámans og gullsins þá vísa verkin til trúarinnar, stemmningin í salnum er nánast eins og að standa í hofi. "Átrúnaður er svo sterkur þáttur í manninum. Myndverk fela í sér ákveðna upphafningu, hún er tilraun okkar til að finna stóru heildinni, kosmosinu, ákveðið birtingarform," segir Erla. "Viðmið okkar geta verið svo margvísleg og þess vegna tala verkin svo misjafnlega til okkar. Hvert myndverk getur verið uppgötvun í sjálfu sér sem leiðir til annars verks og svo koll af kolli." Hún segist hafa þörf fyrir hreina sýn, myndræna sýn. "Sýnin situr á hornhimnunni og ég hef þörf fyrir að losa mig við hana."
ERLA Þórarinsdóttir myndlistarkona sýnir í Ásmundarsal.