ÍMIÐBÆNUM á að vera blönduð byggð, bæði íbúðir og atvinnustarfsemi. Veitingastöðum hefur hins vegar fjölgað svo hratt, að menn hljóta að lýsa eftir stefnu borgarinnar í þessum málum. Um mitt síðasta ár ætlaði borgin að hætta að samþykkja ný leyfi, en það gerðist ekki.
Lögfræðingur embættis lögreglustjóra

Menn hljóta að

lýsa eftir stefnu

borgarinnar

ÍMIÐBÆNUM á að vera blönd uð byggð, bæði íbúðir og at vinnustarfsemi. Veitingastöðum hefur hins vegar fjölgað svo hratt, að menn hljóta að lýsa eftir stefnu borgarinnar í þessum málum. Um mitt síðasta ár ætlaði borgin að hætta að samþykkja ný leyfi, en það gerðist ekki. Núna er rætt um að engin ný leyfi verði samþykkt frá og með næstu áramótum," segir Signý Sen, lögfræðingur hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík.

Á verksviði Signýjar er m.a. að sjá um útgáfu leyfa fyrir veitingastaði í borginni. Reglur um veitingaleyfi, áfengisveitingaleyfi og skemmtanaleyfi eru langt frá því að vera einfaldar og hefur lengi verið rætt um að samræma skilyrði og einfalda afgreiðslu mála. Veitingaleyfi sem og leyfi til áfengisveitinga er bundið einstaklingi sem um það sækir og húsinu þar sem hann selur gistingu og/eða veitingar aðrar en áfengi. Leyfin eru óframseljanleg.

Í Reykjavík er sá háttur hafður á, að sótt er um veitingaleyfi hjá embætti lögreglustjóra, sem leitar umsagnar eldvarnaeftirlits Reykjavíkurborgar, vinnueftirlits ríkisins og heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Borgarráð er ekki lengur umsagnaraðili um veitingaleyfi, samkvæmt lögum um reynslusveitarfélög og samþykkt um starfsleyfisveitingar og umsagnir heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um veitinga- og gistileyfi. Það er því heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem er umsagnaraðili um umsóknir um veitingaleyfi. Heilbrigðiseftirlitið leitar eftir umsögn borgarskipulags, sem á að sjá um grenndarkynningu og fleira. Þegar heilbrigðiseftirlit hefur fengið umsögn borgarskipulagsins og gefið grænt ljós, getur embætti lögreglustjóra gefið út leyfi. Lögreglustjóra er ekki heimilt að veita leyfi nema að fengnum jákvæðum umsögnum.

Þau skilyrði, sem gerð eru til einstaklings sem sækir um veitingaleyfi, eru að hann sé fjárráða og að bú hans hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Eftir að veitingaleyfi er fengið þarf að sækja um leyfi til áfengisveitinga. Umsókn um áfengisveitingaleyfi er send borgarstjórn, sem leitar umsagnar félagsmálaráðs og málið er að því búnu afgreitt í borgarráði. Þá þarf þriggja manna matsnefnd dómsmálaráðuneytis að ganga úr skugga um að veitingastaðurinn teljist "fyrsta flokks að því er snertir húsakynni, veitingar og þjónustu," eins og segir í áfengislögum. Matsnefndin getur sett skilyrði um úrbætur og gefið frest til þeirra, en lögreglustjóri gefur út leyfi engu að síður.

Borgin vill að umsækjendur séu í skilum

Reykjavíkurborg hefur viljað herða skilyrði fyrir leyfum til áfengisveitinga og í júlí á síðasta ári samþykkti borgarráð að setja skilyrði fyrir jákvæðri umsögn sinni um útgáfu áfengisveitingaleyfa í Reykjavík. Þau voru að framvegis fylgdi umsóknum upplýsingar um skil umsækjenda og eigenda eða framkvæmdastjóra á opinberum gjöldum, m.a. við Gjaldheimtu og lífeyrissjóði.

Signý Sen segir að þessi skilyrði sé ekki að finna í lögum. Embætti lögreglustjóra hafi þó fylgt tilmælum borgarstjóra og neitað að taka við umsóknum veitingamanna, þar sem þessar upplýsingar vantaði. Einn veitingamaður hafi kært þá niðurstöðu til dómsmálaráðuneytisins, sem hafi fellt synjunina úr gildi, eftir að maðurinn lagði fram umbeðnar upplýsingar. "Annar veitingamaður neitaði nýlega að leggja þessar upplýsingar fram með umsókn sinni og vísaði til þess að skilyrðin væri hvergi að finna í lögum. Borgin neitaði að samþykkja umsókn hans og því gaf embætti lögreglustjóra ekki út leyfi. Hann hefur nú kvartað yfir málsmeðferðinni við Umboðsmann Alþingis, þar sem málið er enn í vinnslu."

Mislangur veitingatími

Opnunartími veitingahúsa er ekki hinn sami og veitingatími. "Meginreglan samkvæmt lögreglusamþykkt Reykjavíkur er að veitingastaðir mega vera opnir frá klukkan 6 að morgni til klukkan 3 að nóttu alla daga ársins, enda sé aðeins seldur matur og óáfengir drykkir," segir Signý. "Áfengisveitingatími er frá klukkan 12 til 23.30 alla daga vikunnar, en þó fram til klukkan 2 aðfaranótt laugardags, sunnudags eða almenns frídags. Til að mega veita áfenga drykki lengur þarf skemmtanaleyfi."

Skemmtanaleyfi er veitt almennum skemmtistöðum og mega þeir þá veita áfengi til kl. 1 að nóttu virka daga og kl. 3 aðfaranótt laugardags, sunnudags og almenns frídags. "Oftast er sótt um skemmtanaleyfi um leið og veitingaleyfi og leyfi til áfengisveitinga," segir Signý. "Þó eru dæmi um að fyrst sé opnað veitingahús, þar sem seldur er matur og vín, og síðar sé farið fram á að fá skemmtanaleyfi. Þá þarf til dæmis að meta hvar staðurinn er, því það skiptir miklu hvort opið er til 23.30 eða 1 ef staðurinn er í íbúðahverfi."

Lögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir að ganga ekki harðar eftir að vínveitingastaðir endurnýji leyfi sín á réttum tíma. "Lögreglan fylgist með leyfunum og sendir veitingamönnum bréf, þar sem bent er á að leyfið sé að renna út," segir Signý. "Þegar menn leggja inn umsókn um endurnýjun fá þeir leyfið framlengt á meðan umsóknin bíður afgreiðslu. Það er ekki hægt að kenna veitingamönnum eða lögreglu um það þótt endurnýjun leyfa tefjist, því margir þurfa að veita umsögn um umsóknina. Það er augljóst að við getum ekki lokað veitingahúsunum þegar ekki er við veitingamanninn að sakast."

Refsað fyrir ítrekuð brot

Ef veitingamenn brjóta skilyrði leyfis þá byrjar embætti lögreglustjóra á að veita þeim áminningu. "Ef þeir gerast ítrekað brotlegir, þá er hægt að svipta þá skemmtanaleyfi, sem takmarkar þar með þann tíma sem þeir mega hafa opið. Annað úrræði er að banna áfengisveitingar, til dæmis eitt kvöld eða fleiri," segir Signý Sen.

Skilyrði sem borgaryfirvöld setja er ekki að finna í lögum