Geðklofi Spurning:Oft hef ég heyrt því haldið fram, að geðklofi væri ólæknandi sjúkdómur. Á það við rök að styðjast eða er hægt að lækna geðklofa? Svar: Geðklofi er almennt talinn alvarlegastur geðsjúkdóma.
Er hægt að lækna geðklofa? GYLFI ÁSMUNDSSON SÁLFRÆÐINGUR SVARAR SPURNINGUM LESENDA
Geðklofi
Spurning: Oft hef ég heyrt því haldið fram, að geðklofi væri ólæknandi sjúkdómur. Á það við rök að styðjast eða er hægt að lækna geðklofa?
Svar: Geðklofi er almennt talinn alvarlegastur geðsjúkdóma. Hann getur haft í för með sér rofin tengsl við veruleikann, sljóvguð tilfinningatengsl við annað fólk og truflanir á rökréttri hugsun, ranghugmyndir og stundum ofskynjanir. Geðklofi kemst að sjálfsögðu á misalvarlegt stig eins og aðrir sjúkdómar, en þegar hann nær að þróast og grafa um sig í sálarlífi einstaklingsins getur hann oft valdið varanlegri fötlun.
Fyrr á öldinni voru takmarkaðir möguleikar til lækningar á geðklofa, þannig að þeir sem fengu þennan sjúkdóm urðu smám saman sálarlega og félagslega einangraðir og voru margir langlegusjúklingar á geðsjúkrahúsum. Sem dæmi má nefna að árið 1947 voru 312 sjúklingar á Kleppsspítalanum, sem lengi var eina geðsjúkrahúsið í landinu, en aðeins 78 voru útskrifaðir á árinu. Meirihluti sjúklinga var því vistaður þar mjög lengi, sumir í mörg ár eða áratugi, og var stór hluti þeirra haldinn geðklofa. Bylting varð í geðlækningum um 1952, þegar farið var að nota ný lyf sem gerbreyttu möguleikum til lækninga á geðklofa. Þau náðu þeim tökum á sjúkdómnum að hægt var að ná samvinnu við sjúklinginn og meðhöndla sálræna og félagslega fylgifiska og afleiðingar sjúkdómsins. Smám saman var farið að beita sállækningum, hópmeðferð, félagslegri þjálfun, iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun, sem allt átti sinn þátt í að bæta aðlögunarhæfni sjúklingsins og gera hann færan um að lifa sjálfstæðu lífi. Stofnuð voru sambýli fyrir þá sem gátu notfært sér slíkt, margir sjúklingar fengu vinnu á vernduðum vinnustöðum og aðrir úti á almennum vinnumarkaði. Hinar nýju lækningar gerðu auk þess mögulegt það, sem ekki var minna um vert, að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn kæmist á það stig að hann leiddi til varanlegrar sköddunar eða fötlunar. Því hefur langlegusjúklingum með geðklofa nú fækkað verulega miðað við það sem áður var. Á árinu 1995 voru sjúklingar á geðdeild Landspítalans, en Kleppsspítalinn er hluti af henni, 3080 talsins, þótt sjúkrarúm væru færri en árið 1947 sem áður var vitnað til. Legudagar voru að jafnaði 40 á hvern sjúkling á árinu. Hlutfall geðklofasjúklinga var þá orðið mun lægra en áður. Auk þess voru hundruð sjúklinga, sem ekki þurftu að leggjast inn, en komu reglulega í göngudeildarviðtöl og lyfjaeftirlit.
Það er því ljóst að á undanförnum áratugum hafa orðið miklar framfarir í lækningum á geðsjúkdómum, ekki síst geðklofa. Ný og betri lyf og endurbættar aðferðir til sálrænnar og félagslegrar meðferðar eru stöðugt að koma fram. Það skiptir miklu máli fyrir batahorfur, að sjúkdómurinn greinist snemma og meðferð hefjist áður en hann fær að grafa um sig. Þeir sem fá geðklofa ungir, áður en þeir hafa lokið námi eða skapað sér félagslegt og efnahagslegt öryggi, hafa að jafnaði lakari batahorfur en hinir, nema fljótt sé hægt að hefta þróun sjúkdómsins. Möguleikar á námi eða starfi geta þá ráðið miklu um framvindu sjúkdómsins.
Svo komið sé að spurningunni hér að ofan, hvort hægt sé að lækna geðklofa, má vera ljóst af framansögðu að margir sjúklingar geta fengið mikinn bata. Það er hins vegar svo með geðklofa eins og marga aðra sjúkdóma, að lækning og bati eru svolítið afstæð hugtök og álitamál hvort eða hvenær er hægt að tala um fullan bata. Það er ekki hægt að skera burt geðklofann og láta gróa yfir. En það er hægt að halda niðri sjúkdómseinkennunum og gera sjúklingnum kleift að lifa tiltölulega eðlilegu lífi, rétt eins og hjá þeim sem haldnir eru háum blóðþrýstingi, sykursýki eða húðsjúkdómum, svo að dæmi um aðra sjúkdóma séu nefnd. Talið er að um þriðjungur geðklofasjúklinga geti lifað nokkuð eðlilegu lífi. Í þessum skilningi er hægt að lækna geðklofa. Það verða hins vegar alltaf áhöld um hvort hægt sé að ná fullum bata, þannig að engin frekari meðferð eða eftirlit sé lengur nauðsynlegt.
Lesendur Morgunblaðsins geta spurt sálfræðinginn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 5691100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok, Fax: 5691222. Ennfremur símbréf merkt: Gylfi Ásmundsson, Fax: 5601720.