ÉG MINNIST þess ekki að hafa lesið annan eins fúkyrðaflaum um nokkurn einstakling (jafnvel ekki innlendan stjórnmálamann) eins og Jónas Kristjánsson ritstjóri lætur sér sæma að viðhafa í leiðara 9. þ.m. um sendiherra Kínverja hér á landi, Wang Jingxing. Sendiherrann er m.a. kallaður ruddi og dólgur og útsendari glæpaflokka.
Fúkyrðaflaumur

Bryndísi Schram:

ÉG MINNIST þess ekki að hafa lesið annan eins fúkyrðaflaum um nokkurn einstakling (jafnvel ekki innlendan stjórnmálamann) eins og Jónas Kristjánsson ritstjóri lætur sér sæma að viðhafa í leiðara 9. þ.m. um sendiherra Kínverja hér á landi, Wang Jingxing.

Sendiherrann er m.a. kallaður ruddi og dólgur og útsendari glæpaflokka. Hann er sagður kunna enga mannasiði og þess er krafizt (fjórum sinnum í einum leiðara), að hann verði gerður brottrækur af landinu. Skilaboðin eru, að háttvísum Íslendingum sé engan veginn sæmandi að umgangast kínverskan rudda.

Það væri synd að segja, að ritstjórinn tali fyrir daufum eyrum lesenda sinna, eins og sjá má af frétt á baksíðu Morgunblaðsins í gær. Þar segir, að lögreglugæzla við sendiráðið hafi verið efld, því að sendiráðinu hafi borizt "fleiri tugir símtala, þar sem lýst er andúð á kínverskum stjórnvöldum og fulltrúum þeirra hér á landi".

Það vill svo til, að Wang sendiherra hefur fyrr komist í kast við "dólga" og "glæpaflokka". Hann og kona hans voru á sínum tíma fórnarlömb "menningarbyltingar" Maós formanns og sættu þar bæði andlegu og líkamlegu harðræði af hálfu tyftunarmeistara, sem völdu þeim hjónum svipuð orð og ritstjórinn í leiðaranum. Þau hafa því vonandi nógu harðan skráp til að umbera þakklæti ritstjórans og skoðanabræðra hans fyrir störf þeirra í þágu góðra samskipta Kínverja og Íslendinga. Það er á engan erlendan sendimann hér á landi hallað, þótt ég fullyrði, að enginn þeirra hefur unnið jafn sleitulaust að bættum samskiptum þjóðanna, auknum kynnum og upprætingu fordóma, eins og kínversku sendiherrahjónin. Ætli þeir Íslendingar skipti ekki hundruðum, ef ekki þúsundum, m.a. úr röðum viðskiptaforkólfa og leikmanna, svo ekki sé talað um æðstu menn ríkisins úr röðum stjórnmála- og embættismanna, sem hafa heimsótt Kína fyrir milligöngu sendiherrahjónanna? Ætlar allt þetta fólk nú að sitja þegjandi undir fúkyrðaflaumi og dónaskap ritstjóra DV?

BRYNDÍS SCHRAM.

P.s. Því miður fengust þessi orð ekki birt í DV fyrr en þá í næstu viku, því leita ég til Morgunblaðsins.