Orðnar þreyttar á að vinna
krefjandi starf fyrir lág laun
MARGRÉT Kristinsdóttir, kennari
í átta ára bekk Fossvogsskóla, hefur starfað við kennslu í meira en tuttugu ár. Henni þykir skemmtilegt að vinna með börnum og vill helst halda því áfram en nú er svo komið að hún segir hingað og ekki lengra. Það sama gerir Aðalheiður Bragadóttir, kennari í níu ára bekk, sem hefur starfað við Fossvogsskóla í átta ár en áður hafði hún unnið sem leiðbeinandi í skóla úti á landi í nokkur ár. Þær sögðu báðar upp störfum um síðustu mánaðamót ásamt fimm öðrum kennurum við skólann.
Þær eru sammála um að það hafi verið sársaukafull ákvörðun að segja upp og að hún hafi verið tekin að vandlega íhuguðu máli. Þær segja mikil vonbrigði með síðustu kjarasamninga hafa gert útslagið. "Við fengum eiginlega ekkert út úr þeim nema aðeins meiri vinnu," segir Margrét. Þær segja að óánægjan hafi ólgað lengi og að kennarar hafi margir hverjir verið að spá í uppsögn í nokkur ár. Almenn óánægja hafi verið með kjarasamninga eftir sex vikna verkfall í hitteðfyrra. "Þannig að mér finnst betri kostur að segja upp og sjá svo hvað gerist í þessum samningum. Ég er alveg tilbúin að fara ef ég verð jafnóánægð með þá og síðast, því að mér finnst ég ekki geta sætt mig við það lengur að þurfa sjálf að borga kauphækkunina með meiri vinnu," segir Aðalheiður. "Ég hef heyrt það á mörgum kennurum, sem enn hafa ekki sagt upp, að þetta verði síðasti veturinn þeirra í kennslu ef ekkert róttækt gerist í komandi samningum," segir Margrét.
Umsjón með bekk í einsetnum skóla á að vera fullt starf
Báðar gagnrýna þær harðlega þá kjaraskerðingu sem fylgir einsetningu skóla og segja það hart að ekki sé litið svo á að umsjón með einum bekk sé fullt starf. Aðalheiður nefnir sem dæmi að hún sé með 27 börn í bekk, sem hún kenni 20 tíma á viku, og með því móti vanti hana átta tíma upp á að fá fullt starf. "Í rauninni áttum við ekki að einsetja skólana fyrr en búið væri að ganga frá því að umsjón með bekk væri fullt starf fyrir kennara í einsetnum skóla en það er enn langt í land með að svo sé," segir Aðalheiður.
Aðspurðar hvort nemendur þeirra tali um uppsagnirnar og hafi áhyggjur af því að kennararnir yfirgefi þá, segja þær báðar að aðeins sé farið að bera á því. "Auðvitað er það sársaukafullt. Þetta er þriðja árið sem ég kenni þessum hópi og ég veit að það verður erfitt að skilja við hópinn á miðjum vetri. Ég verð vör við vissar áhyggjur hjá þeim, þau eru t.d. farin að spyrja hver eigi að kenna þeim þegar ég fari frá þeim. Þetta kemur losi á börnin, þar sem þau yngri bindast kennaranum sínum oft tilfinningaböndum, og það gerir manni mjög erfitt fyrir með að fara," segir Aðalheiður. Nemendur Margrétar eru nýbúnir að átta sig á því að hún hefur sagt upp. "Þau eru búin að vera eyðilögð í allan dag," segir hún.
Erfiðast gagnvart börnunum
"Þetta er langerfiðast gagnvart börnunum," segir Aðalheiður, "því að við erum ekki að hætta vegna þess að við séum orðnar svo ofboðslega þreyttar á þeim eða starfinu. Við erum einfaldlega orðnar þreyttar á því að vinna erfitt og krefjandi starf fyrir lág laun."
Margrét segir við nemendur sína, þegar þeir spyrja hana hvers vegna hún sé að fara, að hún geti ekki sagt þeim af hverju, ástæðurnar séu svo margar. Það sé þó alls ekki vegna þess að þau séu svo erfið eða ómöguleg. "Ég læt þau vita að mér þyki vænt um þau, þó að ég sé að fara frá þeim." Foreldrar eru einnig farnir að hafa samband og láta í ljósi áhyggjur sínar. "Fólk er að átta sig á þessu og skilur að manni er alvara," segir Aðalheiður.
Morgunblaðið/Ásdís AÐALHEIÐUR Bragadóttir og Margrét Kristinsdóttir, kennarar í Fossvogsskóla.