HANNA KRISTÍN ÞORGRÍMSDÓTTIR
SÓLARGEISLINN
Lítill sólargeisli
finnur sér leið gegnum skýjaþykknið
leikur sér í hári þínu
sindrandi gullþráðum
á þvældum kodda.
Máttvana líkami þinn
hvítur og rýr
markaður örum
eftir sársauka gamlan og nýjan.
Ég lýk við að losa af þér spelkurnar
og afklæða þig
fyrir baðið
og teygjurnar,
sem ég hef lært
að framkvæma miskunnarlaus.
Ég vildi
að þú gætir hlaupið,
talað og leikið þér,
ég vildi
að þú gætir lesið,
sungið, dansað,
ég vildi . . .
Þú horfir á mig
með kíminn glampa
í skýrum augunum,
svo skellihlærðu
af hreinni gleði.
Ég skynja einfeldni mína,
vermi kalda fætur þína
í hlýjum höndum mínum
lýt höfði
og þakka Guði enn og aftur
fyrir það
að ég fékk að kynnast þér.