KÍNVERJAR hafa undanfarið sýnt hinum vestræna heimi klærnar og gefið ótvírætt í skyn að þær þjóðir sem ekki haga sér í takt við stefnu Kínastjórnar og dirfast að hafa eigin stefnu verði settar út af sakramentinu. Þær þjóðir sem ekki samþykkja kúgun og mannréttindabrot Kínastjórnar á eigin fólki sem og þjóðum sem Tíbetum, mega vænta hefndarráðstafana.
Davíð og Golíat

Festa sú sem Davíð Oddsson hefur sýnt, er að mati Kristjáns Pálsson , lofsverð og rétt.

KÍNVERJAR hafa undanfarið sýnt hinum vestræna heimi klærnar og gefið ótvírætt í skyn að þær þjóðir sem ekki haga sér í takt við stefnu Kínastjórnar og dirfast að hafa eigin stefnu verði settar út af sakramentinu. Þær þjóðir sem ekki samþykkja kúgun og mannréttindabrot Kínastjórnar á eigin fólki sem og þjóðum sem Tíbetum, mega vænta hefndarráðstafana. Þeir mannréttindahópar í Kína sem dirfast að mótmæla stjórnarfarinu þar eru umsvifalaust settir í einangrunarbúðir og aftökur fyrir litlar sem engar sakir eru tíðar. Þetta er hin grimma ásýnd kommúnistastjórnarinnar í Kína sem í krafti stærðar sinnar er að takast það sem Sovétríkjunum tókst aldrei, það er að þagga niður í lýðræðiselskandi þjóðum sem voru tilbúnar til að fórna lífinu fyrir frelsið. Nú er hinn vestræni viðskiptamarkaður tilbúinn til að tapa frelsinu fyrir viðskiptasamninga við Kínverja og láta sem vind um eyru þjóta kveinstafi undirokaðra fórnarlamba Kínastjórnar. Íslendingum hefur aldrei látið að lúta utanaðkomandi valdboði og ef eitthvað er snúist öndverðir gegn ofureflinu. Þjóð sem ber gæfu til þess að hlú að frelsinu og leyfir því að dafna mun ávallt verða í sátt við sjálfa sig og standa upp úr sama hvað á gengur. Þegar tillaga Dana um fordæmingu á mannréttindabroti Kínvarja var felld á þingi Sameinuðu þjóðanna í vetur vegna hótana Kínverja var mér ofboðið þegar fjölmiðlar túlkuðu það sem sigur fyrir Kínverja!! Ég sagði í ræðu á Alþingi um utanríkismál að þarna birtist kúgun Kínverja í sinni réttu mynd og væri trúlega fyrsta alvöru skrefið í kúgun þeirra á hinum vestræna heimi.

Sú festa sem Davíð Oddsson forsætisráðherra hefur sýnt í samskiptum sínum við Kínastjórn síðustu daga, vegna mótmæla þeirra og hótana vegna heimsóknar Tævana hingað, er lofsverð. Það eru fáir aðrir þjóðarleiðtogar í hinum vestræna heimi í dag sem hefðu staðið keikir fyrir framan stórveldið og haldið sínu striki eins og hann hefur gert. Það er tímabært að vestrænar þjóðir láti annað ráða afstöðu sinni en hrein viðskiptasjónarmið. Mannúðar- og frelsishugsjónin er ekki dauð á Íslandi, það má Golíat vita.

Höfundur er þingmaður Reyknesinga.

Kristján Pálsson