MEÐ Nóbelsverðlaunum til Dario Fos (f. 1926) er sænska akademían að verða við kröfum almenningsálitsins sem vill heiðra rithöfund sem allir þekkja. Það hefur verið gagnrýnt að Nóbelsverðlaunin renni til óþekktra skálda, helst frá afskekktum stöðum, og það séu aðeins innvígðir bókmenntamenn sem þekki þau.
SKRÍPALEIKARIÁ SKÁLDABEKK
Nóbelsverðlaun til handa Dario Fo er að dómi JÓHANNS HJÁLMARSSONAR vel heppnuð uppákoma. Að hans mati gerir ekkert til þótt ærsli leiklistarinnar yfirgnæfi boðskapinn. MEÐ Nóbelsverðlaunum til Dario Fos (f. 1926) er sænska akademían að verða við kröfum almenningsálitsins sem vill heiðra rithöfund sem allir þekkja.
Það hefur verið gagnrýnt að Nóbelsverðlaunin renni til óþekktra skálda, helst frá afskekktum stöðum, og það séu aðeins innvígðir bókmenntamenn sem þekki þau. Nú er stórþjóðarmaður fremst í sviðsljósi heimsins valinn og meira að segja enn mjög virkur í starfi sínu.
Í hugann komu skáldsagnahöfundar frá flæmska menningarheiminum, Portúgal og Filippseyjum þegar fréttist af væntanlegri úthlutun. En svo var opnað fyrir svið commedia dell'arte , gömlu ítölsku gamanleikhefðarinnar og fram steig leikarinn, leikstjórinn og leikskáldið Fo.
Vel heppnuð uppákoma
Hvað sem um úthlutina má segja hressir hún upp á ímynd akademíunnar sem í sitja átján ábúðarmiklir bókmennta- og lærdómsmenn. Þetta er eins og þegar Björk fékk Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs. Vel heppnuð uppákoma!
Fáir leikritahöfundar hafa skemmt fólki betur en Dario Fo og gildir það líka um Íslendinga sem drukku í sig Þjófa, lík og falar konur og Sá, sem stelur fæti, er heppinn í ástum, Við borgum ekki við borgum ekki! og fjölmörg önnur verk, löng og stutt. Fo er vissulega þjóðfélagsgagnrýnandi og ádeilumaður en hjá honum er listin efst á blaði, einkum hin listrænu skrípalæti (meðal fyrirmynda eru Marx-bræður) sem láta fólk veltast um af hlátri um leið og þau hafa tilgang. Commedia dell'arte gat verið enn grimmilegri og óvægnari.
Ég legg ekki mikið upp úr því að Fo hafi einu sinni verið félagi í Kommúnistaflokki Ítalíu eða andstæðingur kaþólsku kirkjunnar. Orðið stjórnleysingi lýsir honum best. Menn eru enn að blanda bókmenntum og stjórnmálum saman og það hefur akademían sjálf gert, bæði fyrr og síðar.
Við hlið stórskáldanna
Dario Fo sem nú er orðinn Nóbelshöfundur eins og landar hans, stórskáldin Salvatore Quasimodo og Eugenio Montale (og einnig Giosué Carducci sem mærði fornan arf og þjóð sína; Grazia Deledda með þjóðlífslýsingar sínar frá Sardiníu og leikritahöfundurinn Luigi Pirandello ásamt persónum að leita höfundar) er í senn meistari fléttunnar og samtalsins. Af honum má margt læra og það held ég að íslenskir leikritahöfundar og leikarar hafi gert.
Fo var lengi einkum þekktur í Skandinavíu og Austantjaldslöndum utan heimalandsins og hingað barst hann frá Svíþjóð í byrjun sjöunda áratugar, kalt og heilnæmt steypibað fyrir leikhús og leiklist. Hann er afar hugkvæmur leikritahöfundur og þekkir helstu aðferðir og flestar brellur leikhússins.
Leikritun í höndum slíks manns hlýtur að verða áhrifarík en er fyrst og fremst góð skemmtun. Það gerir ekkert til þótt ærslin eigi það til að yfirgnæfa boðskapinn.
Með því að veita Dario Fo Bókmenntaverðlaun Nóbels 1997 sýnir Sænska akademían klókindi í markaðssetningu og gælir mjúklega við uppreisnarandann sem býr í hverjum manni.
"SÆNSKA akademían gælir mjúklega við uppreisnarandann með því að veita Dario Fo verðlaunin."