MÁ REKA ÚT ÚR
SÉR TUNGUNA?
Íjúlí fór ég til London. Þar á ég syst ur og innfæddan mág, sem hefur
mikinn áhuga á jassi. Ég er til í jass svo að mágur minn ferjaði mig milli helstu g-bletta Lundúnajassins, en Lundúnalíkaminn er þannig gerður að jassblettirnir eru vellandi heitir í kvöldstund í senn á ýmsum stöðum. Hefði ég ekki haft músíkant sem aðstoðarmann hefði jassfullnægja mín orðið lítil, því maður verður að þekkja nöfnin, ekki bara stóru saxana í hverri sveit heldur líka bassaleikarann, trommuleikarann, píanóleikarann, og spili reyndir snillingar með fersku stjörnunum þá er nautnin vís.
Ég naut þeirrar blessunar að vera lóðsuð, svo að á réttu augnabliki nætur gengum við jassrotturnar upp í glansmúsiksalinn Barbican center. Sá salur er mest notaður fyrir sígilda tónleika og það smitaði út frá sér. Menn sátu stífir eins og á sinfóníutónleikum, óþörf og óskiljanleg þyngd og alvarleiki sígildrar menningar hafði þar þau áhrif. Þó mátti á stöku stað úti í sal sjá iðandi svarta skrokka sem léku undir með líkamans sinum, og er leið á kvöldið fengu stöku áhorfendur ekki lengur kæft munaðarstunur sínar þegar jassinn fletti upp óflekkuðum stað í heilaberkinum.
Þarna í Barbican center lék ein skærasta ungstjarna saxófónsins, Joshua lögfræðingur Redman. Hann er íhaldsamur saxófónleikari, þótt hálfir tónleikar kvintettsins hans væru frumsamdir, en hann gæðir tónhugsanir með gamalkunnu bragði nýju lífi og spilar af ótrúlega ágengri tilfinningu. Sár tenórsaxinn hans hlutar hjartavöðvann í manni niður í tuslur sem hann dregur langt út í salinn í næmustu lögunum. Sem betur fer skilur hann mann þó ekki eftir með hjartað úti, heldur spilar á milli þétt og nærandi og ýtir þá hjartatuslunum aftur inn í bringuholið á hárréttan stað vinstra megin, og þjappar mjúklega á eftir svo hjartað verður eins og nýtt. Redman er svo sætur á sviðinu, hann er einn af þeim tónlistarmönnum sem alls ekki er nóg að hlusta á, hann verður maður að sjá. Skrokkurinn er svo fallega apalegur, þyngdarpunkturinn er á miðju hægra læri því hann hefur knén svo bogin og saxann í hnéhæð hægra megin við fæturna. Það flæðir úr honum og gegnum hann. Redman situr einn eftir í minningunni, hinir í kvintettinum leystust upp á nokkrum dögum. Sumt fólk er æðislegra en annað, það sogar til sín athyglina og nær að þurrka úr fókus annað fólk sem heilinn þó geymir í heilaskóginum einhversstaðar milli gagnauganna, ímynda ég mér.
Nokkrum kvöldum síðar smugum við niður í dimma kjallarabúllu í öðru og skuggalegra hverfi, og þar átti jassinn betur heima. Í Jass-kaffi þessu var stanslaus iðandi frygð og stunur meðal áheyrenda. Ungi altsaxófón-snillingurinn Kenny Garrett plægði þar upp hjörtun, með frekar svalri tilfinningu en yndislega djarfri miðað við Redman. Hann gat spilað af undurnæmri mýkt, en var enginn tilfinningasukkari, dró ekki tárfiska úr sjó eða þannig. Í stað þess að draga út hjartað bara valtaði hann yfir það og boðaði nýjan og öðruvísi fögnuð.
En algjörlega nauðsynleg miðja í kvartettinum og jafn minnisstæð var trommuleikarinn, Jeff trommutunga Watt. Dóninn rak út úr sér tunguna meðan hann barði húðirnar. Af honum lýsti ótrúlegt sjálfsöryggi. Þótt fínir hvítir mannasiðir segi að dónalegt sé að reka út úr sér tunguna, hví skyldi maður hlíta þeim? Andlit hans var eins og jasshitamælir og tungan kvikasilfurssúla sem rann út sér til svölunar. Hann ullaði og ullaði, það þykir í hvítum konsertsölum fremur dónalegt, og þetta var mér mikil opinberun. Af hverju í ósköpunum fær maður ekki að ulla? Ulla, ulla, ulla, ég vil ulla framan í heiminn, ekki illskulega, bara af ýmsum tilefnum. Það að ulla frjálslega er ein af mikilvægustu hreyfingum líkamans! Trommuleikarinn stal athyglinni frá saxanum því hann fékk ekki hamið tungu sína, hún smó löng og rauð úr munninum langt út í jassiðu kjallarins mestallt kvöldið, úr miðju andliti sem ljómaði eins og tungl. Jeff þessi Watts er einn besti trommuleikari í heimi var mér sagt, og í kaupæti talaði rauð og viljug jasstunga þessa boltavaxna húða-galdramanns. Hann barði fram einn rytma úr öðrum. Hann lét hljómfallið opnast hægt og rólega, því er helst að líkja við kvikmynd sem sýnir blómkrónu opnast ofurhægt. Á meðan fyrra hljómfallið hljómaði enn mjög flókið og var að ljúka sínu skeiði, tók næsti rytmi að opnast eins og jurt eða blómkróna, gjörólíkur hljómfallinu sem fyrir var. Nýtt rytmablóm óx úr öðru sem var að ljúka við að opnast. Ótrúleg snilld. Þetta var háheilög messa þótt tungan stæði úti eins og spjót og allir rassar dilluðu.
Ég dvaldist í svörtu hverfi í London, og fann fyrir hvítri sekt. Ísland var nýlenda, kannski eina hvíta nýlendan, þótt Danir kölluðu okkur hjálendu. Þeir dvöldu ekki á Íslandi, leyfðu okkur druslunum sem þeir arðrændu ekki einu sinni að sjá munað menningarinnar, hallir, tónleikasali, hestvagna, steinlögð stræti, leyfðu okkur ekki einu sinni að þjóna til borðs í veislunum sem Íslandsverslunin greiddi fyrir. Vanmáttarkennd, villimennska og frjálst mannasiðaleysi fyrrum nýlendubúa blundar því rétt undir yfirborði okkar Íslendinga.
Í mannasiðalandi Breta þakkaði ég fyrir hversu djúpt er á þrælasölu í minni þjóðarsamvisku, það eru komin vel þúsund ár síðan við tókum írska þræla. Af tvennu illu er þó betra að vera barinn en að berja, það er að segja eftir á.
Mér sýndist svarta fólkið í London miklu hamingjusamara en hinir kynflokkarnir, börnin ulluðu og fóru handahlaupum og þetta fólk hló með manni og fíflaðist og sleppti ekki strax hendinni þegar það heilsaði. Ég þakka því fyrir nýlendubraginn sem örlar á í minni þjóð, þegar ég sé hann. Það er bragð af því sem frjálsa dýrið gerir. Dýrið er djarft og fullt af reisn og iðar af jassi.
ÞÓRUNN VALDIMARSDÓTTIR