HINN 28. september 1997 las ég undirritaur langa grein í Morgunblaðinu, eftir Ásbjörn Dagbjartsson veiðistjóra. Þessi grein bar heitið "Veiðikortin stórauka svið veiðistjóra" og var studd af tveimur línuritum, annað var um ferfætt meindýr í lífríkinu, hitt um fljúgandi veiðibráð.
Hugleiðingar við skrif veiðistjóra

Ásmundi U. Guðmundssyni:

HINN 28. september 1997 las ég undirritaur langa grein í Morgunblaðinu, eftir Ásbjörn Dagbjartsson veiðistjóra. Þessi grein bar heitið "Veiðikortin stórauka svið veiðistjóra" og var studd af tveimur línuritum, annað var um ferfætt meindýr í lífríkinu, hitt um fljúgandi veiðibráð.

Þessi heilopnu pistill veiðistjóra var að mörgu leyti athylisverð lesning þar sem líffræðingur útdeilir þekkingu sinni í afmörkuðu formi. Vitnaði hann til dæmis í Villidýralögin 1984 máli sínu til stuðnings. Því miður er sá lagabálkur að stórum hluta rugl, þó svo að hæstvirt Alþingi hafi lagt stimpil sinn þar á. Mætti alveg að skaðlausu endursemja þann lagabálk og ryðja úr honum ruglinu.

Þegar horft er á skrif veiðistjóra frá sjónarhóli hins dæmigerða veiðimanns koma í ljós dulin höft til veiða vegna þeirrar lagasetningar sem í gildi er og þeirra mótsagna sem Villidýralögin eru morandi af. Það sem heita má gott í Villidýralögunum varðar veiðikortin, veiðiskýrslurnar og veiðidagbókina, allt annað mætti stórlega skerða eða nema burt.

Síðar í greininni talar veiðistjóri um veiðar á refum og minkum og telur þær tegundir hafa fjölgað sér allverulega á síðustu 3­4 árum. Á því er einföld skýring. Samkvæmt núgildandi lögum má enginn bana þessum kvikindum nema sárafáir útvaldir menn og með skoti. Ef aðrir mættu bana þessum dýrum með þeim ráðum og áhöldum sem fyrir hendi væru hverju sinni til viðbótar við þessa útvöldu ætti að sjást einhver árangur. Því miður myndu ótrúlega margir landsmenn tryllast í anda grænfriðunga og fordæma verknaðinn. Svo er annað sem vegur kannski þyngst, þær greiðslur sem nú eru fyrir skottið af ref og mink eru þess eðlis að þær eru dragbítur á meiri veiði á þessum dýrum.

Í framhaldi af því sem hér fyrr er skrifað, ætla ég að varpa fram spruningu: "Er ekki mögulegt annars vegar að framkalla sýkingu í villta refastofninum sem veldur dauða, en lætur önnur dýr af sama stofni í friði og hins vegar nota svipað efni sem herjar aðeins á villta minkastofninn - eða að nota efni sem veldur ófrjósemi villtra refa og minka við mökun úti í náttúrunni?" Með slíkum aðgerðum, en þær kosta peninga, næðist haldgott tak á allri nýliðun í viðkomandi stofnum sem ganga frjálsir úti í náttúrunni á fáum árum. Lítil sem engin hætta er á því að villti refurinn eð minkurinn dæju út á næstu áratugum, því alltaf sleppur eitthvað út frá loðdýrabúunum ár hvert.

ÁSMUNDUR U. GUÐMUNDSSON,

Suðurgötu 124, Akranesi.