Sú sýning sem hér birtist almenningssjónum á sér augljósar forsendur. Saga Íslands og Noregs var samtvinnuð um aldir, úr Noregi komu flestir landnámsmennirnir, til Noregs leituðu Íslendingar einkum á þjóðveldisöld sér til fjár og frama, og eftir að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd urðu þau samskipti vitaskuld allnáin.

ÍSLENSK KIRKJU-

LIST Á MIÐÖLDUM

EFTIR ÞÓRU KRISTJÁNSDÓTTUR

Sýningunni KIRKJU OG KIRKJUSKRÚÐI ­ Miðaldakirkjan í Noregi og á Íslandi­ Samstæður og andstæður ­ sem staðið hefur í Þjóðminjasafni Íslands í sumar lýkur 18. þ.m. Þetta er vönduð og merkileg sýning og í tengslum við hana kom út bók þar sem 16 sérfræðingar fjalla um efnið. Hér er birtur hluti einnar ritgerðarinnar. Sú sýning sem hér birtist al menningssjónum á sér augljósar forsendur. Saga Íslands og Noregs var samtvinnuð um aldir, úr Noregi komu flestir landnámsmennirnir, til Noregs leituðu Íslendingar einkum á þjóðveldisöld sér til fjár og frama, og eftir að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd urðu þau samskipti vitaskuld allnáin. Menningin var og lengi með líkum svip, þannig að oft er erfitt að greina, hvað átti sér upptök í Noregi og hvað á Íslandi. Á undanförnum árum hafa augu manna beinst mjög að víkingatímanum. Með rannsóknum og sýningahaldi hefur verið reynt að búa til raunsæja mynd af þessum útþenslutíma hér á norðurslóðum meðal annars með því að vekja athygli á því að fleiri eru einkenni víkingaaldar en rán og gripdeildir, norrænar þjóðir áttu sér einnig hámenningu á þeim tíma. Nú líður senn að aldarlokum, þegar þess verður minnst er Norðmenn og Íslendingar tóku kristna trú fyrir þúsund árum. Það tímabil, sem hófst árið eittþúsund, ber rík merki þessara siðaskipta; kaþólska kirkjan var í eðli sínu alþjóðleg og sá angi hennar, sem teygði sig um Noreg og Ísland var af sama meiði. Þó að meðal landnámsmanna á Íslandi væru kristnir Keltar, er þó söguleg staðreynd, að Ísland kristnaðist frá Noregi, og enn sterkari urðu hin kirkjulegu bönd, eftir að erkibiskupsstóll var settur í Niðarósi 1152/53. Öll er sú saga harla merkileg og er margt til vitnis. Kirkjur eru enn til í Noregi frá þessum tíma, bæði steinkirkjur og stafkirkjur, en á Íslandi verður að mestu að styðjast við fornleifarannsóknir og ritaðar heimildir. Kirkjuviðir og gripir frá miðöldum hafa varðveist í báðum löndum, bæði heimagerðir gripir og góss frá öðrum löndum. Langtum meira hefur varðveist af rituðum miðaldaheimildum á Íslandi en í Noregi og má í þessu viðfangi nefna sérstaklega biskupasögur og máldaga. Í báðum löndunum voru snemma þýddar heilagra manna sögur sunnan úr álfu, og eru í sumum handritum lýsingar, sem gerðar eru af miklu listfengi. Þá hefur og varðveist tónlist frá Niðarósdómi, Magnúsarkirkju í Orkneyjum og Þorlákstíðir úr Skálholti. Þannig verður sú trúarsögulega og menningarsögulega mynd sem hér verður reynt að bregða upp harla margbreytileg, og forvitnilegt að rekja áhrif frá Noregi til Íslands og öfugt, svo og áhrif utan úr álfu, sem gætir í báðum löndunum og loks hafa áhrif borist eftir öðrum leiðum til hvors lands um sig. Hvaða áhrif hefur kristin trú haft á þau þjóðfélög sem þróuðust hér á norðurslóðum fyrir rúmum þúsund árum? Hvaðan komu sterkustu áhrifin? Hvernig bárust straumarnir? Hvernig var unnið úr þeim á Íslandi? Þessar og þvílíkar spurningar vakna þegar gengið er til samstarfs um sýningu sem þessa. Ritaðar heimildir upplýsa okkur um að Íslendingar hafi formlega játast undir kristna trú á Alþingi á Þingvöllum fyrir tilstuðlan Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs sama sumar og Ólafur féll sjálfur eða hvarf af skipi sínu við Svoldur, sem er talið hafa gerst árið 1000. Ólafur lifði ekki að lögleiða kristna trú í eigin landi, það gerði síðar nafni hans Ólafur Haraldsson, verndardýrlingur Norðmanna, endanlega með dauða sínum á Stiklastöðum árið 1030. Hafa verður í huga þegar saga þessara þjóða á kristnitökutímanum er skoðuð, að aðstæður allar hafa verið harla ólíkar. Talið er að Norðmenn hafi verið nærri þrefalt fleiri en Íslendingar, en land þeirra var ekki síður strjálbýlt og samgöngur litlar milli héraða og landshluta. Noregur var þó meira í þjóðbraut en Ísland, og mynduðust þar löngu fyrr bæir þar sem stundaður var kaupskapur og margvíslegur iðnaður. Á Íslandi varð ekki það þéttbýli sem leiddi af sér slíka samfélagsskipan fyrr en á 19. öld. Á móti kom allsherjarþingið á Þingvöllum, helsti samkomustaður þjóðarinnar, sem sótt var af leikum og lærðum úr öllum landsfjórðungum, og dró þannig úr einangrun byggðanna. Í norsku bæjunum mynduðust samfélög handverksmanna, þar sem listiðnaður blómstraði, en á Íslandi voru það biskupsstólarnir og klaustrin sem hýstu slíka starfsemi. Fornar heimildir geta ýmissa nafngreindra hagleiksmanna í þjónustu biskupsstólanna á Íslandi. Til dæmis sendi Páll Jónsson Skálholtsbiskup Þóri erkibiskupi í Noregi biskupsstaf af tönn, sem smíðað hafði Margrét hin haga, "er þá var oddhögust allra manna á Íslandi", segir í Páls sögu biskups, en hann lést í Skálholti árið 1211. Ennfremur er þar sagt frá Þorsteini skrínsmið, sem bæði smíðaði hið mikla Þorláksskrín í Skálholtsdómkirkju og var ráðinn til þess að gera altaristöflu í kirkjuna, og fleiri hagleiksmenn eru nefndir til sögunnar. Í Lárentíus sögu Hólabiskups er getið um tvo hagleiksmenn á góðmálma, sem unnu merka gripi fyrir biskup, Stefán prest Hauksson sem var árið 1323 "meistari á margar listir, gullsmíð, gröft og uppkast" og Eyjólf gullsmið sem "smíðaði kirkjunni texta tvo og kaleik og skrín". Rétt er og að geta lítils skinnkvers um líkneskjusmíð, sem varðveist hefur frá árinu 1387, og talið er vera afskrift af eldra riti. Þar er að finna leiðbeiningar um smíði líkneskja og altarisbúnaðar og lýst aðferðum við að mála og gylla slíka gripi. Bent hefur verið á að textinn sé skyldur þýsku miðaldariti um listir og handíðir De Diuersis Artibus, kennt við Theophilus munk sem uppi var um 1110-1140; þó er ekkert í textanum sem bendir ótvírætt til þess að hann sé þýddur. Þessar og fleiri heimildir sýna , að þótt hér væru ekki handverksmiðstöðvar eins og í bæjum nágrannalandanna risu hér engu að síður fjölmargar kirkjur sem prýddar voru innlendum kirkjugripum. Sýningunni er einkum ætlað að draga fram í dagsljósið það sem er sameiginlegt í hinum kristna menningararfi þessara tveggja frændþjóða, og hafa því sýningargripirnir verið valdir með það í huga, en jafnframt hlýtur athyglinni að verða beint að því sem skilur á milli. Varast ber því að líta svo á að sýningin geri þessu tímabili einhver tæmandi skil, því af mörgu öðru er að taka í báðum löndunum. Þegar skoðaðir eru allir þeir kirkjugripir sem varðveist hafa á Íslandi frá elstu tíð kemur óneitanlega í ljós að áhrifa gætir víða að. Við skulum fyrst huga að því sem virðist sprottið af sameiginlegum arfi, og getur sumt af því að líta hér á sýningunni. Meðal þess sem ekki er sýnt hér eru fornir viðir með merkilegum útskurði, t.d. viðarþiljur frá Möðrufelli í Eyjafirði sem taldar eru frá 11. öld og eru með stílsvip frá lokaskeiði víkingaaldar. Varðveist hefur og fjöl með svipuðum útskurði frá Hólum í Eyjafirði. Kristján Eldjárn og Hörður Ágústsson telja báðir að þetta séu leifar af kirkjuviðum úr fornum timburkirkjum frá miðri 11. öld, og því elstu skreyttu kirkjuviðir sem varðveist hafa á Norðurlöndum. Aðrar viðarþiljur eru hér á sýningunni kenndar við Flatatungu í Skagafirði, (nr.10 í skrá) því þær voru síðast notaðar þar í gamla torfbænum sem rifinn var 1952. Varðveisla þeirra og geymd sýnir hversu dýrmætur allur byggingaviður hefur löngum verið á Íslandi, hver fjöl notuð til hins ýtrasta, góður forn viður fluttur á milli bæja og jafnvel héraða og notaður aftur og aftur. Þessar fjórar fjalir sem varðveist hafa eru vafalaust úr þili sem á hefur verið skorin mikil helgimynd, með mannamyndum og skrautverki, og hefur síðan allt þilið væntanlega verið málað. Á þeirri fjöl sem hér er sýnd er helgur maður með geislabaug, trúlega Kristur. Skrautverkið sýnir hreinræktaðan Hringaríkisstíl sem var ríkjandi á Norðurlöndum og Englandi á 11. öld. Stíllinn er vel þekktur á rúnasteinum, en lítið hefur varðveist af slíkum skurði í tré. Hörður Ágústsson hefur fært rök fyrir því að hér sé um að ræða leifar af stórri helgimynd af Kristi og postulunum sem prýtt hafi Hóladómkirkju á fyrsta áratug 12. aldar, og hafi verið í kór fyrstu dómkirkjunnar, sem Jón biskup Ögmundsson lét reisa á Hólum upp úr 1106. Væri hún þá elsta helgimynd sinnar tegundar sem varðveist hefur á Norðurlöndum. Á Íslandi hefur einnig varðveist rómanskur útskurður í stóru broti, sem minnir á skraut norsku stafkirknanna. Hinar svokölluðu Laufásstoðir (nr. 18 í skrá) sem hér eru til sýnis eru heillegasta dæmið um slíkan útskurð. Stoðirnar eru nú um 2,8 m á lengd en hafa verið talsvert lengri í upphafi. Útskurðarstíllinn hefur verið talinn síðrómanskur og telur Hörður Ágústsson stoðirnar frá 13. öld; þær hafi prýtt stafkirkju þá sem reist var í Laufási eftir bruna á staðnum árið 1258. Fjalabútarnir tveir frá Mælifelli (nr. 19 í skrá) í Skagafirði eru auðsjáanlega aðeins hlutar útskorinna stafa, sem gegnt hafa margvíslegu hlutverki í tímans rás. Þeir eru með sviplíkum útskurði og sterkum rómönskum svip, en eru ekki af sömu stoð eða brík. Við síðari notkun hafa verið gerð stór göt á báða bútana nærri öðrum enda og grópir í jaðrana. Síðast voru fjalirnar í rúmgafli á Mælifelli. Í Þjóðminjasafni Dana eru aðrar tvær fjalir varðveittar frá Mælifelli. Talið er víst að þetta séu leifar af fornum kirkjudyrastöfum, jafnvel eftir sama meistara og skar Laufásstafina. Þessar fjalir og stoðirnar frá Laufási eru meðal örfárra leifa skurðlistar sem varðveist hafa og prýtt hafa stórar stafkirkjur á Íslandi á miðöldum. Sá gripur sem Íslendingar eru hvað stoltastir af er Valþjófsstaðahurðin, og er hún eitt glæsilegasta og þekktasta listaverk, sem varðveist hefur frá miðöldum á Íslandi, og hafa margir fræðimenn íslenskir og erlendir skrifað um hana. Færð hafa verið rök að því að hurðin hafi upphaflega verið fyrir stafkirkju á Valþjófsstað, og þá þriðjungi hærri, en dyrnar hafi verið lækkaðar þegar minni torfkirkja var reist á staðnum, löngu eftir siðaskiptin. Hurðin er að flestra fræðimanna dómi frá því um 1200. Hún er að vísu ekki á sýningunni og verður því að nægja að sýna ljósmynd af henni (nr. 12 í skrá). Verður nú vikið að líkneskjum og öðrum kirkjugripum. Þar verður fyrst fyrir okkur Kristsmyndin frá Ufsum (nr. 46 í skrá) í Svarfaðardal. Hún er skorin úr birkistofni, örugglega íslenskt verk og ekki talin yngri en frá 1150. Hún er með hreinum rómönskum einkennum, og ekki ólík að stíl elstu rómönsku Kristsmyndum í Skandinavíu. Kristur er krýndur kórónu og stendur í báða fætur teinréttur. Skurðdrættirnir, einkum skeggskurðurinn, eru taldir benda til skyldleika við útskurð og skreytilist elstu stafkirknanna. Myndskerinn sýnir þann máttuga konung sem fornskáldin ortu um, samanber þetta vísubrot eignað Skafta Þóroddssyni lögsögumanni, d. 1030: Máttur er munka drottins mestur, aflar goð flestu. Kristur skóp ríkur og reisti Róms höll veröld alla. Hinsvegar mætti svo nefna Maríulíkneski (nr. 44 í skrá) sem kom til Þjóðminjasafnsins eftir krókaleiðum úr norðlenskri kirkju, sem ekki er vissa hver er. Á miðöldum var frægt Maríulíkneski sem kallað var Hofstaða-María, kennt við Hofstaði í Skagafirði, og hvíldi mikil helgi á líkneskinu. Selma Jónsdóttir taldi þetta líkneski vera Hofstaða-Maríu, en studdi það ekki nægjanlegum rökum. Þar sem þessi Maríumynd er trúlega erlent verk, var hún sérstaklega valin á sýninguna, svo bera megi saman skyldar Maríumyndir, sem varðveist hafa bæði í Noregi og Svíþjóð. Ólafur helgi Haraldsson naut mikillar hylli á Íslandi og er vitað um að minnsta kosti 35 kirkjur sem voru helgaðar honum í kaþólskum sið og 24 að auki sem voru helgaðar honum ásamt öðrum dýrlingum. Í gömlum máldögum eru nefnd Ólafslíkneski í eigu fjölda kirkna víða um land, en aðeins örfá hafa varðveist til þessa dags. Þeirra á meðal er þetta Ólafslíkneski frá Vatnsfirði (nr. 47 í skrá) sem gæti verið það Ólafslíkneski sem talið er meðal gripa Vatnsfjarðarkirkju í Vilkinsmáldaga frá 1397. Líkneskið er í skáp með tveim vængjahurðum fyrir. Innan á hurðunum eru málaðar myndir af fjórum helgum mönnum, heilögum Pétri í páfabúningi og heilögum Páli skikkjuklæddum, Mikael höfuðengli og Guðmundi góða Hólabiskupi. Nöfn allra eru skráð ofan við myndirnar. Verk þetta hefur verið talið íslenskt, en eins líklegt er að skápurinn sé yngri en Ólafsmyndin. Loks skal nefna fyrirbríkina frá Möðruvöllum (nr. 25 í skrá) í Eyjafirði, en hún er skýrt dæmi um náin tengsl íslensku kirkjunnar við Noreg á ákveðnum tíma, því færð hafa verið gild rök að því að bríkin hafi verið smíðuð og máluð í Björgvin í Noregi á fyrstu áratugum 14. aldar. Myndin sýnir atburði úr sögu Marteins biskups frá Tours, en Möðruvallakirkja var einmitt ein af sex kirkjum á Íslandi þar sem heilagur Marteinn var höfuðdýrlingur. Altarisbríkum frá Björgvin eru gerð sérstök skil hér í skránni, og því ekki ástæða til þess að fjölyrða um hana frekar. Þá höfum við valið að sýna hér annan af tveimur útskornum stólum (nr. 16 í skrá) sem varðveist hafa frá síðmiðöldum. Þeir voru síðast í kirkjunni á Grund í Eyjafirði, og afhentir forngripasafni Dana um miðja síðustu öld. Annar stólanna var afhentur aftur til Íslands á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930, en hinn, sá sem hér er nú til sýnis, er enn í safninu í Kaupmannahöfn. Stólarnir eru með miðaldalagi, og í skrautverki er mikil tilbreytni; virðist sem skurðmeistarinn hafi reynt að koma að sem flestum skreytiafbrigðum. Drekahausar eru á brúðum og bakstólpum og halda þeir allir á einhverju í kjaftinum. Á pílárum eru höfuð konungs og biskups og á bakfjölinni eru reitir með myndum konungs, biskups, hirðmanns og prests. Mikill fléttuskurður og annað rómanskt skreyti er á stólnum. Stóllinn í Þjóðminjasafni Íslands er merktur eigandanum, Þórunni dóttur Jóns Arasonar, síðasta kaþólska biskupsins á Íslandi, og nafni smiðsins, Benedikts Narfasonar. Menn hafa viljað lesa upphafsstafi Ara lögmanns, bróður Þórunnar, framan á þeim stól sem hér er sýndur. Stólarnir geta ekki verið yngri en frá 1550, því þeirra er getið í afhendingarbréfi Þórunnar til Grundarkirkju árið 1551. Tilbeiðsla helgra dóma var einn veigamesti þátturinn í trúarlífi kaþólsku kirkjunnar. Geymdu helgiskrín bein, beinflísar, neglur og hárlokka helgra manna og dýrlinga. Forsvarsmenn kirkna lögðu metnað sinn í að eignast einn eða fleiri slíka helga dóma og var þá leitast við að búa þeim sem glæsilegasta umgjörð. Algengt var að hirslurnar væru eins og hús í laginu og oft klædd málmþynnum með innfelldum steinum. Þekktast á Íslandi er skrín það sem Páll biskup Jónsson lét smíða um helga dóma Þorláks biskups og komið var fyrir í Skálholtskirkju skömmu fyrir aldamótin 1200. Það var um langan aldur höfuðprýði dómkirkjunnar í Skálholti og er talinn einn merkasti listgripur sem til hefur verið í landinu. Skrínið mun ekki hafa glatast endanlega fyrr en um aldamótin 1800, en síðast spurðist til þess á uppboði á Skálholtsstað 1802. Tvö lítil íslensk helgiskrín hafa varðveist frá miðöldum, annað er í safninu í Reykjavík, en það sem hér er sýnt er varðveitt í Þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn. Það er frá kirkjunni á Keldum á Rangárvöllum. Skrínin eru bæði eins og lítil hús að lögun og eru mikið skemmd. Þau eru bæði talin frá því um 1200 eða snemma á 13. öld. Talið er að þau séu fremur íslensk smíð en norsk (nr. 21 og 22 í skrá). Nokkrir góðir miðaldakaleikar hafa varðveist á Íslandi og hafa einkum litlir silfurkaleikar með rómönsku lagi vakið áhuga fræðimanna, og telja flestir þá íslenska smíði. Hér er valið að sýna nokkuð yngri kaleik í gotneskum stíl, þ.e. annan af silfurkaleikunum úr Hóladómkirkju, (nr. 27 a í skrá) þar sem áþekkir kaleikar eru til í Noregi. Hólakaleikarnir eru næsta líkir, en mismunandi að stærð, 15 og 19,3 cm á hæð. Á þeim eru engin merki eða stimplar, sem bendi til smiðs eða upprunalands, og því er ekki vitað með vissu um uppruna þeirra. Skyldur Hólakaleikunum að gerð er og einn frá Melstaðarkirkju, nú í Þjóðminjasafni Íslands (nr. 27 b í skrá). Hér á sýningunni eru og nokkrir gripir sem eiga sína líka annars staðar á Norðurlöndum, og ekki vitað eftir hvaða leiðum þeir bárust til Íslands. Þeirra á meðal er franskur smeltur kross frá Limoges, reykelsisker, vatnsdýr og fornir steyptir ljósastjakar. Hér hefur verið gerð örstutt grein fyrir þeim kirkjuviðum og gripum sem valdir voru til þessarar sýningar gagngert til þess að sýna skyldleika hins kristna menningararfs í Noregi og á Íslandi. En ef grannt er skoðað það sem varðveist hefur á Íslandi af kirkjugripum frá miðöldum er hinsvegar auðsætt að áhrif hafa borist víðar að en hér hefur komið fram. Augljóst er að íslenska kirkjan hefur haft mikilvæg tengsl sem náð hafa út fyrir kirkjur á Norðurlöndum. Má í því sambandi minna á fornan refilsaum sem varðveist hefur á Íslandi og lýsingar í handritum, sem gerð eru ítarleg skil annars staðar í þessari skrá. Því verður hér í lokin tekið dæmi um listaverk sem á sér ekki líka annars staðar á Norðurlöndum. Það eru leifar af mikilli dómsdagsmynd sem fræðimenn telja nú að hafi prýtt dómkirkjuna á Hólum í tíð Jóns biskups Ögmundssonar. Varðveist hafa 13 fjalir eða myndbútar sem lengi ollu mönnum heilabrotum. Þeir komu til safnsins frá Bjarnastaðahlíð í Skagafirði árið 1924, voru þar síðast í árefti á skemmu. Selma Jónsdóttir færði rök að því árið 1961 að fjalirnar væru hluti af stórri býsanskri dómsdagsmynd. Hún taldi að myndin hefði upprunalega verið í sögufrægum skála Þórðar hreðu í sömu sveit, en þess veglega skála er oft getið í fornum heimildum. Selma taldi helst að fyrirmyndin hefði borist með ermskum biskupum til Íslands á 11. öld. Kristján Eldjárn varpaði fyrstur manna fram þeirri hugmynd að svo stór mynd hefði varla getað verið í veraldlegum skála og taldi að trúlegra væri að hún hefði upphaflega verið í stórri kirkju, og þá helst í dómkirkjunni á Hólum. Hörður Ágústsson hefur nýlega birt heila bók um fjalirnar frá Bjarnastaðahlíð og um fjalirnar frá Flatatungu, þar sem hann færir rök að því að þessi stóra dómsdagsmynd, 9 metra breið og 2,2 metrar á hæð, hafi prýtt dómkirkju Jóns Ögmundssonar á Hólum í upphafi 12. aldar. Fyrirmynd dómsdagsmyndarinnar vefst enn fyrir mönnum, ekkert samanburðarefni fyrirfinnst í Noregi, en reynt hefur verið að rekja sporin til klaustursins á Cassinofjalli, eða frá Lundi yfir Gotland og alla leið austur í Kænugarð eða Miklagarð. Erfitt er að bera saman við stíl mögulegra fyrirmynda því að grunnlínurnar eru einar eftir á íslensku fjölunum, en þær hafa í öndverðu verið málaðar. Frekari rannsóknir gætu varpað skýrara ljósi á þessa skemmtilegu gátu og um leið fyllt upp í þá óljósu mynd sem við nú höfum af tengslum Íslendinga við umheiminn fyrir þúsund árum. Þessi sýning er vitnisburður um kirkjuleg bróðurbönd milli Noregs og Íslands og um blómlega trúarlega menningu á miðöldum en jafnframt ber þó að hafa í huga að sá heimur er víðfeðmari og flóknari en sá sem sýningin tekur til og áhrifin hafa borist víðar að eins og dómsdagsmyndin mikla sannar.

Höfundur er listfræðingur og starfar í Þjóðminjasafninu.





FYRIRBRÍKIN frá Möðruvöllum. Þjóðminjasafn Íslands.







ELSTA þekkta mynd af íslenskri kirkju er útskurðarmynd á Valþjófsstaðarhurðinni sem talin er vera frá því um eða eftir aldamótin 1200.





RÓÐUKROSS úr Húsavíkurkirkju. Þjóðminjasafn Íslands.



FLATATUNGUFJALIR. Hluti af endurgervingartilraun Harðar Ágústssonar þar sem hann færir rök fyrir því að myndbrotin geti verið úr stórri helgimynd úr Hóladómkirkju.