MEÐ ÁHUGA Á ELDI
SMÁSAGA EFTIR ÁRNA BERGMANN
Einar fékk aldrei skáldagrillur og hann sló öllum
kvennamálum á frest því hann varð að greiða götu heimsbyltingarinnar. Aldrei þreyttist hann á því að tala um fyrir mönnum. Hann fór á alla fundi, hlustaði á alla samherja, greip fram í fyrir öllum andstæðingum.
Ég vaknaði við þann draum að ég væri allra manna leiðinlegastur. Hver gat verið að hvísla þessu að mér? Ég komst ekki á fætur fyrr en ég hafði hrakið þennan grun af mér út í gráan morguninn. Ekki gat ég verið verri en aðrir. Kannski ekki miklu skárri heldur. Ég lagðist á gólfið, gerði bakæfingar, skipti um andardrátt, teygði mig í áttina að tánum, safnaði hugprýði til að fara í skólann og horfast í augu við bekkinn eins og í gær og í fyrra og hitteðfyrra. Tekst mér að fá syfjaða unglinga sem biðu mín ekki til að trúa því, að það skipti máli hver tapaði heimsstyrjöldinni fyrri? Varla. Þeim stendur á sama um það. Kannski varðar mig ekkert um það heldur.
Einari stóð aldrei á sama um neitt og nú er hann dauður.
Þú ert alltaf eins og krakki, sagði ég stundum við hann. Þú heldur að hægt sé að vita alla hluti, ef ekki á morgun þá hinn daginn.
Það er skárra en vera eins og þú, svaraði hann. Þú ert fæddur gamall.
Þetta sagði Einar með skrýtnu brosi og opnum augum sem námu ekki staðar á þeim sem hann talaði við, heldur héldu áfram langt út í buskann, út fyrir sjóndeildarhringinn, eins og þangað væri eitthvað að sækja sem gæti orðið okkur öllum til trausts og halds.
Einar var fullur af kappi og órósemi. Honum var illa við orð sem höfðu óljósa merkingu, við atburði sem engin skýring fékkst á og við menn sem sögðu annarsvegar og hinsvegar og kannski. Hann hafði gaman af algebru þegar við vorum í skóla. Ef maður pælir nógu lengi í henni, þá fær maður skýr og flott svör, sagði hann. Engan skyrhræring og bullumsull.
Við vorum í héraðsskóla og Pétur regluboði kom og flutti yfir okkur leiðinlega hvatningarræðu gegn brennivíni sem við höfðum enn ekki prófað. Hann lagði í ræðunni út af erindi úr kvæði og fór svo oft með það að við mundum það síðan:
Þá skelfur hlynur og engist eik
er óargadýr fara á veiðikreik
en manni með áhuga eldi
er alfært í rándýra veldi.
Þetta er nokkuð gott, sagði Einar, en mér fannst þetta bölvað hnoð og belgingur. Þú ert aldrei hrifinn af neinu, Svenni, sagði hann, þú ert eins og hver önnur freðýsa, þú veist ekki hvað áhugi er, hvað þá eldur.
Ekki það nei, sagði ég, er ég þá ekki hrifinn af Hrefnu? Get ég kannski sofið á næturnar fyrir henni?
Það er ekki að marka þótt þig langi í stelpu, sagði hann. Auk þess stendur það ekki lengi.
Það var að vísu rétt hjá honum. Hrefna var skelfilega mjúk á hörund og ilmandi, en hún vildi ekki leyfa mér neitt fyrr en við værum trúlofuð og maður gat ekki látið negla sig þannig fyrir lífstíð. En kannski hefði ég getað snúið þessum orðum upp á Einar sjálfan? Hann var alltaf hrifinn, uppljómaður, viss í sinni sök. En hann var vís til að gleyma glæsilegri fullvissu undarlega fljótt og fá sér nýja hrifningu, nýja trú, rétt eins og önnur hefði aldrei komið til mála. Ég sagði honum að það vantaði í hann allt sögulegt samhengi.
Þú klippir á alla þræði, sagði ég, þú slítur upp allar rótarkræklur sem lafa niður af þér. Svo verður þér blásið út í veður og vind og enginn veit hvurt.
Ég nenni ekki að draga allskonar drasl á eftir mér, sagði Einar. Þú vilt helst flækja þig í allan skrattann og ert orðinn eins og padda í kóngulóarvefi og getur ekki hreyft þig.
Eitt dró hann þó eftir sér úr bernskunni, hann var trúaður. Sá tími var löngu kominn að enginn sem var orðinn tólf ára nennti að hugsa um guð. Allir sem ég þekkti höfðu skilið hann eftir heima hjá ömmu sinni eða í KFUM og geymdu hann þar. Allir nema Einar. Hann talaði við guð á hverju kvöldi og spurði hann ráða. Guð var í hans vitund óendanlega hugvitssamur vélstjóri sem dró upp stjörnukort, sendi Íslendingum Golfstrauminn, setti radar í farfuglana, safann í appelsínuna og heilann í okkur báða.
Guð er guð, sagði hann hiklaus eins og leiðarvísir um hjálp í viðlögum. Vegna þess að það er góð og gild ástæða fyrir öllu.
Jæja, sagði ég. Spurðu þennan guð þinn hvaða góðar og gildar ástæður voru fyrir Svartadauða, galdrabrennum og Hitler? Og einhver fleiri leiðinleg og banöl dæmi um fólsku heimsins týndi ég upp úr mínum mannkynssögupoka.
Það kemur í allt ljós, sagði hann, og lét hvergi bilbug á sér finna.
Því kom það flatt upp á mig, að guð var skyndilega horfinn úr huga hans og tali eins og hann hefði aldrei ráðið þar húsum. Kannski fannst Einari guð ekki standa sig nógu vel sem heimssmiður? Ekki gefa nógu skýr svör? Ég veit það ekki. Nema hvað allt í einu skipti ekkert máli nema marxisminn, sem vildi ekki barasta útskýra heiminn heldur breyta honum, taka himininn í sundur og smíða úr honum nýja jörð.
Marxisminn er kall tímans, sagði hann, og augu hans skutu fram leiftrum sem hafði slegið niður í koll hans meðan ég velti vöngum um eitthvað sem hafði kannski gerst og kannski ekki.
Æ, þau eru svo mörg öskrin, sagði ég. Ekki getur maður hlaupið á eftir hverju góli.
Maður skilur allt svo vel, sagði Einar. Líka þetta sögulega samhengi þitt sem þú svamlar í eins og vankaður marhnútur. Þyngdarlögmálið heldur heiminum saman og alveg eins heldur stéttabaráttan sögunni á sinni braut, annars er hún barasta meiningarlaust glæpaminjasafn.
Og hvert liggur sú braut, frændi? spurði ég.
Til réttlætisins náttúrlega, hvað heldurðu. Maðurinn hætti að vera api, fór að tala og hugsa og það kemur að því, að hann skilur hvað það er fáránlegt að þjófar og bófar sem kalla sig aðalsmenn eða athafnamenn hirði arðinn af vinnu hans og skammti honum skít úr hnefa. Alþýðan rís upp gegn þeim og stútar þeim ef þörf krefur og byggir upp kommúnískt þjóðfélag þar sem einskis manns velferð er volæði hins eins og Stephan Gé segir. Þar sem allir vinna saman og fá eftir þörfum og ekki er verið að níðast á fólki og og gabba til að sætta sig við ömurlegt hlutskipti.
Hvað þýðir það að hver og einn fái eftir þörfum? spurði ég.
Það sem nauðsynlegt er, sagði hann.
Þykist þú vita hvað er nauðsynlegt? spurði ég.
Það er hægt að semja um það, sagði Einar. Ef menn taka sig saman.
Það efa ég stórlega, sagði ég. Menn taka sig ekki saman um eitt eða neitt. Það er heldur ekki víst að þeir séu hættir að vera apar.
Þú ert svo djöfull leiðinlegur, Svenni, sagði Einar gramur. Þú mundir ekki einu sinni trúa því sem amma segir stundum: það er betra að vera ríkur og hraustur en fátækur og heilsulaus.
Enda er það alls ekki víst, sagði ég. Ég efast um að það sé til dæmis hollt fyrir mann sem ætlar að verða skáld að vera ríkur og hraustur. Um hvað ætti hann svosem að yrkja?
Af þessum orðum má ráða, að ég var eitthvað að gutla við skáldskap í þá daga. En ég skildi fljótt að búið var að yrkja svo mikið i heiminum að ekki var á það bætandi og því kom aldrei í ljós hvað ég gæti ort og hvað ekki.
Einar fékk aldrei skáldagrillur og hann sló öllum kvennamálum á frest því hann varð að greiða götu heimsbyltingarinnar. Aldrei þreyttist hann á því að tala um fyrir mönnum. Hann fór á alla fundi, hlustaði á alla samherja, greip fram í fyrir öllum andstæðingum. Hann átti aldrei krónu, aldrei hundraðkall, aldrei þúsundkall og hann komst aldrei til mannaforráða. En honum var sama, því eitt var nauðsynlegt. Ekki síst það að breiða út góðar fréttir frá Sovétríkjunum sem þá voru enn mál málanna. Einar lét sér ekki nægja að lesa og tala. Hann vildi vera praktískur og læra strax eitthvað gott af Rússum sem allir gætu skilið.
Þeir eru nokkuð klárir, sagði hann.
Hann las í tímaritinu Soviet Union frásögn af því að sovéskir hugvitsmenn hefðu fundið upp aðferð til að veiða fisk á ljós í Svartahafi. Sterkum ljóskastara var sökkt í sjóinn og fiskar komu forviða að skoða hvað væri á seyði og syntu gapandi í heilum torfum inn í troll og aðrar gildrur. Þeir Bergur í Slippnum smíðuðu sér vatnsþétta lukt og tókst að láta loga á þessum ljóshundi á tölverðu dýpi. Með þessar græjur fóru þeir út á litlum snurvoðarpúngi og drógu fiskaljósið á eftir sér um allan sjó og trollpoka á eftir. En fengu ekki kvikindi. Skrýtið að enginn skyldi hlæja að þeim opinberlega fyrir þessa misheppnuðu sovétútgerð. En kannski var það vegna þess að í plássinu heima báru menn virðingu fyrir tækni og trúðu öllu sem sagt var í hennar nafni, jafnvel þótt það kæmi frá Rússum. Þeir Bergur áttu líka nógar skýringar á því að illa gekk. Kannski var Flóinn ekki búin að jafna sig eftir rányrkju breskra togara? Kannski var ljósið ekki nógu sterkt? Kannski hugsuðu fiskarnir í Svartahafi öðruvísi en þorskarnir hér heima?
Tíminn líður eins og fara gerir, menntaskólatími, háskólatími, stúdentasvall, BA- próf, kennsluréttindi, svo var allt gaman búið og ég byrjaði að deyja hægt og rólega inn í skólakerfið og ekki meira um það. Einar var á svipuðu róli og ég, eða svo mátti halda ef einhver spurði um okkur, báðir lentum við svo í kennslu í plássinu heima. En þó var hann alltaf annar maður en ég, alltaf barn, alltaf hrifinn, alltaf óhræddur á flakki sínu um rándýra veldi, eða öllu heldur: heimskunnar víðfeðma ríki.
Skrýtnast var að hann eins og fann á sér hvenær vonbrigðin myndu næst skjóta upp sínum selshaus og tók þá á svo hraðan sprett að þau náðu honum aldrei. Þegar Rússar fóru sjálfir að krukka í Stalín og komu viljandi og óviljandi upp um ótal glæpaverk í bland við makalausa hagstjórnarheimsku, þá þýddi lítið að króa Einar af og velta honum upp úr því að honum hefði verið nær að trúa þessum andskotum. Hann var kominn á annan stað í tilverunni. Hann afskrifaði Rússa án þess að ég bæði hann um það og færði hiklaust traust sitt yfir á Maó formann í Kína. Það er þó maður sem þorir að gera það sem hann veit réttast, sagði hann. Svo lét hann Maó róa áður en karlinn var dauður og sá ekki vitund eftir honum, en batt sína öruggu vissu um næstu skref á vegferð mannkynsins við storminn mikla sem blása mundi úr Þriðja heiminum og sópa sjálfumglaðri neyslugræðgi Vesturlanda út í hafsauga. En á okkar dögum er engum til setunnar boðið. Einar fann það á sér að Þriðji heimurinn gerði sig líklegastan til að herma eftir okkar heimi í sem flestu og sagði:
Iss, hvaða máli skiptir það þótt Indverjar og Kínverjar komist í efni og geti keypt sér bíla? Það gerir bara illt verra. Koldíóxíðið leggst yfir allt eins og hver annar svartidauði. Ósonlagið tætist í sundur, ísinn á heimskautunum bráðnar og nesið sem við stöndum á fer í kaf.
Einar var orðinn græningi. Og hann var auðvitað ekki einn af þeim sem hrista hausinn nöldrandi yfir sukki og sóun á auðlindum náttúrunnar áður en þeir setjast upp í bíl og þjóta út á flugvöll til að þenja sig yfir hálfan hnöttinn í erindisleysu. Hann var heill og grænn í gegn. Hann seldi gömlu Löduna sína og hjólaði upp frá því. Hann hætti að reykja, éta kjöt, nota plastpoka og klósettpappír. Hann vildi vernda skóga heimsins og talaði ekki við Möggu systur sína í heilt ár eftir að hún fór að nota pappírsbleijur á litla strákinn sinn, sem hét þó Einar í höfuðið á frænda sínum. Hann varð enn frægari græningi en kommúnisti áður því það var hann sem stóð fyrir því að tólf postular hins græna friðar hlekkjuðu sig við hliðið á álverinu til að knýja fram öflugri mengunarvarnir. Það var líka hann sem lá yfir Jónasi hænsnabónda og hræddi hann til að hætta við siðlaust brask sitt með hálfblinda hormónakjúklinga og taka í staðinn upp framleiðslu á náttúruvænum egggjum.
Ert þú ekki sjálfur hættur að éta egg? spurði ég.
Jú, sagði Einar og enn og aftur færðist ljómi í augu hans sem horfðu út yfir næsta mann og sjóndeildarhringinn sjálfan. Auðvitað ét ekki svoleiðis kólesteról. En það sem skiptir máli er hvert lítið spor í rétta átt. Fordæmið skiptir máli, mitt eða þitt eða Hænsna-Jónasar. Fyrstir fara hundrað þúsund menn og konur sem virða vatn og loft, moldina og lífkeðjuna og fara sparlega með allt. Svo bætast alltaf fleiri og fleiri við, miljón, tíu miljónir, hundrað miljónir. Hugsaðu þér alla þá samstillingu kraftanna og orkunnar, eins og hundrað miljón jógar væru allir í sömu hugleiðslunni samtímis!
Einar var viss um að hann væri kominn inn á leið til að bjarga heimi á heljarþröm.
Samstilling og ekki samstilling, sagði ég. En hvað ef hún dugir ekki? Hvað ef úthaldið bilar eins og alltaf?
Náttúran lætur ekki að sér hæða. Ef mennirnir eru þeir djöfuls apar að vilja endalaust halda áfram að gera tóma vitleysu, þá munu þeir kafna í eigin skít og náttúran breiðir gras og skóg yfir þessi svokölluðu mannvirki og dreifir mauraþúfum yfir þau.
Þetta sagði hann sallarólegur og glaðbeittur eins og hann væri viss um að þá fyrst yrði lífvænlegt á jörðunni þegar hún hefði hrist af sér þessa heimsku óværu sem mannkynið var.
Markaðslögmálin voru farin að ráða hugarfari flestra okkar samferðamanna en græna hugsjónin hélt öllum slíkum freistingum frá Einari. Hann hafði ekkert á markaðstorgið að sækja. Þar tókust á meiningar um það hvort væri betra kók eða pepsí, læonsbar eða prinspóló, en í huga hans gat ekkert smærra komið til greina en ráðgáta tilverunnar og lausnir á lífsvandanum.
Mér sjálfum stóð á sama um markaðstrúna. Ég hafði æ oftar hugann við það, að allt var á hverfanda hveli, á hverjum degi hrundi eitthvað það sem menn höfðu trúað og treyst á. Kommúnisminn var í rúst, þjóðríkið að gufa upp, bankar í uppnámi, pólitíkin geld, sjónvarpið alltaf óvinsælla, SÍS frændi dauður.
Meira að segja konungdæmið breska er að geispa golunni, sagði ég við Einar, óneitanlega dálítið upp með mér af því að ég hafði alltaf haft rétt fyrir mér og svo var enn. Öllu hnignar, öllu fer aftur nema Andrési Önd, hann einn er alltaf ungur og hress.
Vertu ekki alltaf með þetta kjaftæði Svenni, sagði Einar. Aldrei getur þú komið auga á neitt sem skiptir máli. Það er eins og ég hefi alltaf sagt: Þú ert fæddur gamall og löngu orðinn elliær.
Nú var tölvutrú komin í landið og satt að segja komst Einar ekki með öllu undan henni. Ekki aðeins vegna þess að tölvur voru spákonur sem vissu hvað ósonlaginu leið og hvernig veðurfarið yrði eftir aldarfjórðung. Tölvan var svo róttæk og öflug í sínum galdri að hún vakti upp eitthvað í honum sjálfum sem lengi hafði legið í dvala. Hugsaðu þér, sagði hann, ef gríðarmikil talva væri mötuð á öllum staðreyndum allra vísinda og síðan spurð að því hvar guð væri að finna. Hvað heldurðu að kæmi út úr því?
Mér brá í bili, hvaða erindi átti Einar við guð eftir öll þessi ár?
Svosem ekki neitt, sagði ég. Guð getur varla verið mjög merkilegur ef hann lætur veiða sig á Internetið. En ef þú ert orðinn svo þreyttur á heiminum að þú ert aftur farinn að hugsa um guð, þá er ekki um annað að gera fyrir þig en stökkva út í óendanleikann og spyrja einskis. Annars skaltu láta guð í friði.
Æ, ég hefi heyrt alla þá mystík áður, sagði Einar. Steyptu þér út á sextugt dýpi trúarinnar og allt það. En ég segi: fyrst er að spyrja. Svo er að hugsa og vita. Það hlýtur að vera hægt að vita það sem skiptir miklu máli.
Við vorum aldrei sammála. Þó vorum við ekki aðeins félagar og samferðamenn, við vorum líka frændur, ömmur okkar voru systur. Einar bjó alltaf einn, systir hans var flutt suður, það var ekki nema von að einmitt ég sæti oft hjá honum eftir að hann fékk áfall og var lagður á spítala.
Ég nennti ekki að þrasa við hann um að það væri einmitt ekki hægt að vita neitt um það sem mestu skiptir. Ég vildi gleðja hans græna hjarta og sagði honum frá því, að nú væri ríkisstjórnin búin að skipa nefnd til að undirbúa ráðstafanir til að búa aftur til mýrar sem áður höfðu verið ræstar fram. Það á að fara að bleyta landið upp aftur, sagði ég, finnst þér það ekki magnað?
Jú, sagði hann hugsi. Það er svosem ágætt. En það var ekki hægt að mjaka honum út af þeim vegi sem hugur hans var kominn inn á.
Kannski að tölvan ráði ekki við guð og allt það, sagði hann. En veistu hvað mér finnst merkilegast? Hvað heimurinn er gisinn.
Hvernig gisinn? spurði ég.
Tiltölulega gisinn, sagði Einar. Hugsum okkur að við séum staddir inni í efninu, inni í einu mólekúli. Ef þetta epli hérna er atómkjarni þá eru kannski tveir kílómetrar í næsta atómkjarna. Eða 200 metrar, ég man það ekki. Nema hvað það er feiknalegt svigrúm hér inni. Og svo eru að skjótast hér um einhverjar efnisagnir sem aldrei sjást, ekki frekar en guð, en skilja eftir sig slóð ef skotið er á þær í hraðli. Alveg eins og guð er alltaf að skilja eitthvað eftir sig í veröldinni. Ekki nóg með það. Þessar öragnir, eða hvað þær heita, haga sér svo merkilega. Það er hægt að vita hvar þær eru en ekki hvert þær stefna eða þá að það er hægt að vita hvert þær stefna en þá ekki um leið hvað þær eru. Þetta heitir óvissulögmálið.
Jæja, sagði ég og fannst þetta ekkert merkilegra en hver önnur hraðsuða upp úr Reader´s Digest.
Þetta er alveg eins og í mannheimum, sagði Einar. Smátt og stórt passa saman. Við til dæmis, við vitum hvar við erum staddir en ekki hvert við förum.
Ég fer heim á eftir, sagði ég, og fæ mér te.
Það er líklegt en alls ekki víst, sagði hann. Kannski hittirðu einhvern sem býður þér brennivín. Kannski keyrir bíll yfir þig.
Kemur það guði eitthvað við? spurði ég. Eða atómkjarnanum?
Hið smæsta er hið stærsta, sagði Einar. Heimurinn er gisinn, hann er opinn og ef við skoðum upp í hann þá sjáum við líka að það er ekki lengur hægt að segja til um það hvenær hann er efni og hvenær orka, hvað er alda og hvað ögn. Allt streymir fram í þessari merkilegu nærveru sem er allssstaðar, í þessari öruggu óvissu og hún er guð og hann er enn að skapa karlinn, það er alltaf eitthvað nýtt að verða til, það fer ekki á milli mála.
En svartholin úti í geimnum, hvað um þau? spurði ég og reyndi að fiska upp úr huganum það litla sem ég hafði heyrt um alheimsfræði. Í þeim verður efnið óendanlega þétt.
Einmitt, sagði Einar og færðist nú allur í aukana. Svartholin taka allt til sín og skila engu aftur. Ef djöfullinn er einhversstaðar þá hlýtur það að vera í svartholunum. Þau eru það helvíti sem ekkert sleppur frá. Þéttleikinn eru endalokin, dauðinn sjálfur.
Ég hélt alltaf að skáldskapurinn væri merkilegri en prósinn af því að hann er miklu þéttari, sagði ég.
Vertu ekki að snúa út úr fyrir mér, sagði Einar gremjulaust. Þú skilur þetta ef þú bara vilt. Hann settist upp við dogg í rúminu og hélt lengi áfram að útskýra það fyrir mér hvers vegna hegðun efnisagna í atóminu sem er allt í senn þekkt og óþekkt, óviss og líkleg og sönn, væri um leið lausn og svar við sjálfri guðsgátunni. Hann var mælskur eins og alltaf áður, hann braut mig á bak aftur og hélt mér niðri með nevtrónum og prótónum og eindum og neindum og meira að segja vigurbóseindum og mörgum öðrum fyrirbærum sem ég átti enga vörn við og ekki minni til að taka við. En þó hélt hann mér föstum og undrandi fyrst og fremst með áfengri og öruggri gleði sinni yfir því að enn og aftur vissi hann allt sem vita þurfti, kannski vissi hann ekki hver hann var eða hvert hann var að fara, en hann vissi af sér og það var honum nóg.
Hann var sæll og glaður með fullvissu sína um það, að heimurinn var gisinn og hélt sífellt áfram að verða til og að óvissan um hegðun guðs í efninu var svo traust og örugg og glæsilega fögur.