BESTU laxveiðiárnar í sumar voru Laxá á Ásum og Leirvogsá. Þær voru ekki með hæstu heildartölurnar, heldur mestu veiði á hverja dagsstöng. Í Laxá á Ásum veiddust 712 laxar á 200 stangardögum og í Leirvogsá 411 laxar á 186 stangardögum. Árnar með hæstu heildartölurnar, Rangárnar, Norðurá, Þverá/Kjarrá og Grímsá standa langt að baki í meðalveiði á stöng.
Eru þeir að fá 'ann?

Tvær

smáár

með besta

meðalveiði

BESTU laxveiðiárnar í sumar voru Laxá á Ásum og Leirvogsá. Þær voru ekki með hæstu heildartölurnar, heldur mestu veiði á hverja dagsstöng. Í Laxá á Ásum veiddust 712 laxar á 200 stangardögum og í Leirvogsá 411 laxar á 186 stangardögum. Árnar með hæstu heildartölurnar, Rangárnar, Norðurá, Þverá/Kjarrá og Grímsá standa langt að baki í meðalveiði á stöng.

Meðalveiði á stöng í Laxá á Ásum er rúmlega 3,5 laxar á stangardag sem er afburðagott hvernig sem á það er litið og með því besta sem gerist þar sem Atlantshafslaxinn er annars vegar. Þó er þetta allmiklu lakari veiði heldur en menn hafa oft séð tekna í Laxá og veiðimenn vænta hverju sinni. "Góð" veiði í Laxá er 1.200 til 1.800 laxar á fyrrgreindum stangardögum.

Veiðin í Leirvogsá er nokkru lakari en í fyrra, er 552 laxar veiddust í ánni. Samt er meðalveiði á dagsstöng 2,2 laxar. Þetta er sérlega sterk útkoma í Leirvogsá þegar þess er gætt að umtalsverðar gönguseiðasleppingar hafa verið síðustu árin, en ekki í fyrra vegna smithættu í kjölfar kýlaveikifaraldursins í Elliðaánum og Kollafirði 1995. Þá hefur umtalsverður hlutur villuráfandi hafbeitarlaxa í afla laxveiðiáa á Suðvesturhorninu hrunið verulega frá síðustu sumrum. Í vor sem leið var enn byrjað að sleppa gönguseiðum í ána á nýjan leik. 9.000 seiðum var sleppt og voru 4.000 þeirra merkt.

Gott í Þorleifslæk og Varmá

Prýðisveiði hefur verið í Varmá og Þorleifslæk og hefur verið svo alveg frá því í ágúst. Umhleypingar hafa þó spillt veiði hvað eftir annað því áin er fljót að gruggast og vaða upp í flóði. "Það kom mikið af svona 2 punda sjóbleikju í ágúst og hún er mest neðarlega, nærri Grímslækjarbæjunum. Síðan kom sjóbirtingur á hefðbundnum tíma og hann hefur verið að gefa sig þegar skilyrði hafa verið til þess. Það er talsvert af birtingi í ánni, það var til dæmis maður í henni fyrir skömmu, fyrir ofan brúna á Suðurlandsvegi og fékk 11 fiska, 3 til 7 punda," sagði Ingólfur Kolbeinsson í Vesturröst í samtali við blaðið. Veiði er að ljúka um þessar mundir í ánni.

MÖRGUM löxum var sleppt aftur í árnar eftir að veiðimenn höfðu haft betur í viðureigninni. Hér er 13 punda hrygnu sleppt á Iðunni.