Prófessor í
textílmennt
HÓLMFRÍÐUR Árnadóttir,
myndlistarmaður, hefur verið skipaður prófessor í textílmennt við Kennaraháskóla Íslands.
Hólmfríður stundaði handverks-, myndlistar- og kennaranám við Handíða- og myndlistarskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi 1951. Hún hefur stundað margvísleg framhaldsnám bæði hér á landi og erlendis m.a. verið meðlimur í British Craft Center í London.
Hólmfríður hefur verið kennari í Reykjavík samfellt frá árinu 1951. Hún hefur kennt á öllum skólastigum og við þá sérskóla þar sem sérfræðiþekkingar, sögu og kennslufræði hefur verið mest þörf á, m.a. við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún varð kennari við Kennaraskóla Íslands 1967, lektor við Kennaraháskóla Íslands 1976 og dósent frá árinu 1987. Á tímabilinu 19711989 var Hólmfríður fulltrúi Kennaraháskóla Íslands í ýmsum námskrárnefndum mentnamálaráðuneytisins.
Þáttur Hólmfríðar í kennaranámi hefur verið afar mikilvægur. Hún hefur gegnt stóru hlutverki með löngu starfi að grunnmenntun kennara, námskrárgerð og endurmenntun starfandi kennara og hefur þar mótað stefnu til listuppeldis og þróað textílmenntir til þess að verða kennslugrein í takt við nútímasamfélag.
Sem myndlistarmaður hefur Hólmfríður verið brautryðjandi í pappírslist og hlotið alþjóðlega viðurkenningu. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis.