Damon Albarn í bíó
POPPSTJARNAN Damon Albarn
lagði hljóðnemann frá sér um tíma til þess að leika með Robert Carlyle í bresku sakamálamyndinni "Face" undir stjórn Antoniu Bird. Hvernig frammistaða hans er í myndinni er ekki enn komið á daginn en margar poppstjörnur hafa farið flatt á því að reyna fyrir sér á hvíta tjaldinu. Albarn er þó kannski betur undirbúinn en margir því hann lagði stund á nám í leiklist áður en hann og Graham Coxon stofnuðu hljómsveitina Seymor, sem síðar varð Blur.
Albarn viðurkenni sjálfur í viðtali við Empire að það sé áhætta fyrir tónlistarmann að gefa sig út fyrir að vera leikari. "Þetta er samt eitthvað sem mig langaði alltaf til að gera fyrr eða seinna. Ég var þó frekar tregur til að taka að mér hlutverk í myndum. Þegar ég var í leiklistarskóla áttaði ég mig ekki á því um hvað leikur snýst. Nú hef ég meira sjálfstraust til þess að takast á við þetta.
Undir réttum kringumstæðum er ég tilbúinn að leika í annarri kvikmynd. Ég ætla að bíða og sjá til. Ég er í þannig aðstöðu að mér er alveg í sjálfsvald sett hvort ég slæ til aftur eða ekki. Ég er ekki að þessu fyrir peningana."
DAMON Albarn reyndi fyrir sér sem leikari í bresku sakamálamyndinni "Face".