Hornafirði-Nú á allra síðustu árum þegar ekið er um sveitir lands má sjá gula kornakra bylgjast í vindinum sem er nýlunda á Íslandi. Í Austur-Skaftafellssýslu hafa bændur einnig viljað reyna þessa nýjung þó að það svæði sé ekki talið henta til kornræktar hvað veðráttu snertir.

Hollur er heima-

fenginn baggi Hornafirði - Nú á allra síðustu árum þegar ekið er um sveitir lands má sjá gula kornakra bylgjast í vindinum sem er nýlunda á Íslandi. Í Austur-Skaftafellssýslu hafa bændur einnig viljað reyna þessa nýjung þó að það svæði sé ekki talið henta til kornræktar hvað veðráttu snertir.

Tvö síðastliðin sumur hefur verið gerð tilraun með kornrækt í sýslunni og gefist nokkuð vel en síðasta haust var uppskera þokkaleg eða um 3 tonn á hektara. Til að gera úr korninu úrvalsfóður hafa bændurnir blandað í það 15% síldarmjöli, 12% graskögglum, og 3% sykri og bætiefni, því má segja að um sé að ræða íslenska framleiðslu að langmestum hluta. Aðstaða er til þurrkunar, blöndunar og kögglunar á korninu í Flatey á Mýrum, en þar var áður starfrækt graskögglaverksmiðja.

Miðað við útlagðan kostnað við blöndunina í fyrra leggur fóðurkílóið sig á 26­27 krónur, en verð á innfluttu sambærilegu fóðri var upp í 34 krónur á kíló þá. Nú í haust hafa bændur uppskorið af ökrum sínum og er uppskera ívið lakari en í fyrra eða um 2­2 tonn á hektara.

Ragnar Jónsson, bóndi í Akurnesi, er einn þeirra bænda í sýslunni sem hefur sáð korni og kvaðst hann nokkuð ánægður með árangurinn. "Ég tel að þetta sé mesta nýsköpun í landbúnaði á seinni árum. Þetta kynbætta afbrigði af korni, sem notað er hér á Íslandi, gerir okkur betur kleift að láta uppskeruna standast íslenska veðráttu. Reynt var fyrir tæpum 30 árum að sá korni hér í sýslunni en það gekk ekki sem skyldi. Kynbætur á þessu korni sem nú er sáð felast í meiri strástyrk og öxin tolla betur á. Uppskeran frá í fyrra kom vel út hvað fóðurgæði varðar og var að heyra á þeim kúabændum sem notuðu þetta fóður að heilsufarið í kúnum væri mjög gott, og ánum mínum líkar mjög vel við fóðrið," sagði Ragnar.

Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri hefur verið bændum hér mjög innan handar með ræktunina og meðal annars þreskti hann fyrir þá í fyrrahaust en nú í sumar var stofnað einkahlutafélag um kaup á þreskivél sem kornræktabændur í sýslunni standa að. Kaupfélag Austur-Skaftfellinga, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Hornafjarðarbær og Borgarhafnarhreppur styrktu vélakaupin.

Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur Búnaðar samband A-Skaft., sagði færri sólarstundir í sumar vera ástæðuna fyrir minni uppskeru. "Ef hefði verið um 10 sólardaga að ræða í viðbót í sumar hefði uppskeran strax verið betri. Þessu minni uppskera gerir útlagðan kostnað á fóðurkíló 6­7 krónum meiri en í fyrra, en innflutt korn hefur heldur lækkað í verði að sama skapi, þannig að hugsjón bændanna verður að spila með meðan meiri reynsla er að koma á ræktunina," sagði Guðmundur. Morgunblaðið/Sigrún Sveinbjörnsdóttir RAGNAR Jónsson, bóndi í Akurnesi, og Sveinn, sonur hans, huga að uppskerunni.