DÓMARINN í máli Maurice Papons, fyrrverandi ráðherra í frönsku ríkisstjórninni sem réttarhöld eru hafin gegn fyrir meinta aðild að "glæpum gegn mannkyninu" vegna samstarfs við þýzka nazista á tímum síðari heimsstyrjaldar, ákvað í gær að Papon verði látinn laus úr fangelsi á meðan á réttarhaldinu yfir honum stendur.
Papon látinn laus

DÓMARINN í máli Maurice Papons, fyrrverandi ráðherra í frönsku ríkisstjórninni sem réttarhöld eru hafin gegn fyrir meinta aðild að "glæpum gegn mannkyninu" vegna samstarfs við þýzka nazista á tímum síðari heimsstyrjaldar, ákvað í gær að Papon verði látinn laus úr fangelsi á meðan á réttarhaldinu yfir honum stendur. Sagði dómarinn, Jean-Louis Castagnade, ekki trúlegt að sakborningurinn hygðist reyna að flýja.

Kohl vill sitja áfram

WOLFGANG Sch¨auble, þingflokksformaður kristilegra demókrata, CDU, á þýzka þinginu og einn helzti ráðgjafi Helmuts Kohls kanzlara, sagði í viðtali sem dagblaðið Frankfurter Rundschau birtir í dag að Kohl væri reiðubúinn að gegna embætti kanzlara heilt kjörtímabil til viðbótar, hljóti hann endurkjör í kosningunum að ári. Ungliðar í CDU hafa lagt til að Sch¨auble taki við af Kohl eftir kosningarnar, haldi flokkurinn fylgi til að halda kanzlaraembættinu.

Kim Jong-il senn forseti?

EMBÆTTISMENN Norður- Kóreu í sendiráði landsins í Moskvu greindu frá því í gær að þeir biðu þess í ofvæni að Kim Jong-il, leiðtogi kommúnistastjórnar Norður-Kóreu, verði útnefndur forseti. Rússneska Itar-Tass -fréttastofan hafði eftir heimildarmönnum að af þessu kunni að verða í næstu viku. Kim var kjörinn leiðtogi kommúnistaflokksins sl. miðvikudag, en hafði óformlega gegnt leiðtogahlutverkinu síðan faðir hans, Kim Il-sung, lézt 1994. Ekkert var hins vegar gefið upp opinberlega um hvort eða hvenær hinn nýkjörni flokksleiðtogi fengi einnig titil þjóðhöfðingja.

Vegið að forseta Kongós

SPRENGIKÚLA sprakk í gær við hótel í Kinshasa, þar sem Pascal Lissouba, forseti Kongós, dvelur. Grunur lék á að kúlunni hafi verið skotið frá Brazzaville, höfuðborg Kongós, sem liggur við bakka Kongófljóts andspænis Kinshasa, höfuðborg Lýðveldisins Kongó, áður Zaire. Liðsmenn forsetans berjast nú við uppreisnarmenn sem fylgja keppinauti Lissoubas um völdin, Denis Sassou Nguesso, að málum. Talsmaður Sameinuðu þjóðanna í Kongó hafði sagt vopnahlé hafa verið samið, en svo virðist sem úrslitaorrustan í borgarastríði sem hófst fyrir fjórum mánuðum sé nú hafin.