Þreföldun á tíu árum
VÍNVEITINGAHÚS í Reykjavík
eru nú ríflega þrisvar sinnum fleiri en árið 1987. Það ár höfðu 52 hús í Reykjavík vínveitingaleyfi, ári síðar voru leyfin 57, árið 1989 voru þau 84, næsta ár 92 og árið 1991 voru þau orðin 103. Enn fjölgaði, því árið 1992 voru 115 veitingahús með vínveitingaleyfi, 132 árið 1993, 144 árið 1994, 156 árið 1995 og í fyrra voru leyfin 163, eða rúmlega þrisvar sinnum fleiri en árið 1987.
Eftirlitsmenn vínveitingahúsa, sem starfa á vegum lögreglustjóra, voru fjórir árið 1979, þegar vínveitingahús í Reykjavík voru aðeins 14 talsins. Þeir voru enn fjórir árið 1987, þegar vínveitingahús voru 52. Ætla mætti að þeim hefði fjölgað töluvert, þar sem vínveitingahús eru nú tólf sinnum fleiri en árið 1979, en sannleikurinn er sá að þeir eru enn fjórir.
Hlutverk eftirlitsmannanna er að fylgjast með að fyrirsvarsmenn áfengisveitingastaða framfylgi reglum er gilda um reksturinn eins og til dæmis aldur gesta, fjölda þeirra og fleira, svo og að tilskilin leyfi séu í gildi. Auk eftirlitsmannanna hafa lögreglumenn eftirlit með stöðunum og er það liður í almennri löggæslu.