Höfundur: Jökull Jakobsson. Leikstjóri: Eyvindur Erlendsson. Leikmynd: Eyvindur Erlendsson og Hallmundur Kristinsson. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Val tónlistar og leikhljóða: Eyvindur Erlendsson og Gunnar Sigurbjörnsson.
Umgjörð og innihald

LEIKLIST

Leikfélag Akureyrar á Renniverkstæðinu

HART Í BAK

Höfundur: Jökull Jakobsson. Leikstjóri: Eyvindur Erlendsson. Leikmynd: Eyvindur Erlendsson og Hallmundur Kristinsson. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Val tónlistar og leikhljóða: Eyvindur Erlendsson og Gunnar Sigurbjörnsson. Leikarar: Aðalsteinn Bergdal, Agnes Þorleifsdóttir, Bragi Bragason, Eva Signý Berger, Guðbjörg Thoroddsen, Halldór Gylfason, Hákon Waage, Marinó Þorsteinsson, Marta Nordal, Ólafur Sveinsson og Sigurður Hallmarsson. Föstudagur 10. október.

LEIKRITIÐ Hart í bak er meistaralega samsett af hliðstæðum og andstæðum, táknum og samblandi af stílfærðu raunsæi og botnlausri rómantík. Verkið er skipulegar upp byggt en seinni verk Jökuls; það gengur því fullkomlega upp sem heild. Vinsældir þess byggjast á blöndu af gamansemi og trega, áhugaverðum persónum og skáldlegum texta.

Vel heppnuð uppfærsla á þessu verki byggir á tvennu: að umgjörðin sé við hæfi og að leikurinn sé vandaður. Hér er ekkert sparað í leikmyndina; hún er allsráðandi. Hér er fullsköpuð húsaþyrping á sjávarbakka, meira að segja malbikað á milli húsanna. Það er einstaklega gaman að virða fyrir sér skökk og skæld húsin, brimsorfna mölina og snúrustaurinn. Mikið hefur verið lagt upp úr að leikmyndin virki eins djúp og auðið er. Leikmyndin er enda vel nýtt í fyrri hlutanum en eftir hlé verða staðsetningar nokkuð einhæfar. Ennfremur er nokkuð þröngt um leikarana þegar inn í húsið er komið og leikurinn færður út aftur til að fá meira rými. En allt sleppur þetta fyrir horn og í heildina er leikmyndin stórvirki. Ljósin eru oft sniðuglega útfærð, en bæði er birta ónóg í þeim atriðum sem gerast að degi til og leikurum virðist frekar gert að færa sig inn í kastljós frekar en því sé beint að þeim.

Annað sem er athugavert við útlitið eru búningar og gervi. Þar ægir saman tísku næsta áratugar eftir ritunartíma verksins, því varla urðu kennarar svo hárprúðir fyrr en í byrjun áttunda áratugarins. Sígaunamúndering spákonunnar og þá sérstaklega svarta hárkollan er líka fráleit, sem og síðpilsið sem hún er í undir pelsinum í lokaatriðinu. Láki og þó sérstaklega Árdís eru svo í seinni hlutanum eins og klippt út úr amerískri bíómynd sem á að gerast við upphaf sjöunda áratugarins. Þarna hefði þurft hugmyndaríkan búningahönnuð sem hefði þá annaðhvort verið trúr tíma verksins eða fært í stílinn og gefið búningunum trúverðuga heildarmynd.

Leikurinn er nokkuð jafn; hvergi afleitur en því miður heldur hvergi framúrskarandi. Marta Nordal kemst einna best frá sínu. Hún skapar trausta mynd af Árdísi og er öll á hægu nótunum. Vönduð vinna hjá Mörtu. Láki er afar ungæðislegur og kraftmikill Láki. Hann er nokkuð sannfærandi sem unglingurinn sem búinn er að tapa baráttunni áður en hún er byrjuð en á stundum hefði mátt tempra lætin örlítið. Sama er hægt að segja skoppersónurnar skósmiðinn og skransalann. Stígur Þráins Karlssonar er mjög fyndinn og Finnbjörn Hákonar Waage ámátlegur en þeir ganga full langt í kómíkinni, sem dregur úr áhrifamætti persónanna. Jónatan nær að öðlast samúð áhorfenda í túlkun Sigurðar Hallmarssonar en hún er í heildina of litlaus og eintóna. Guðbjörgu Thoroddsen tekst stundum að kynda undir glóðunum hjá Áróru þrátt fyrir búninginn en hún nær aldrei fyllilega tökum á henni. Aðalsteinn Bergdal gerir gott úr vandræðalegri persónu Péturs, án þess að ástæður dálætis hans á Láka verði trúverðugar, en svona er þetta nú frá hendi höfundar. Aðrir leikarar í minni hlutverkum sköpuðu skemmtilegar myndir, sérstaklega voru Eva Signý Berger og Agnes Þorleifsdóttir gellulegar smástelpur.

Þessi sýning á Hart í bak stendur fyrir sínu og er verki Jökuls Jakobssonar trú, án þess þó að hrífa neitt sérstaklega. Það hvarflar að undirrituðum að það hefði mátt eyða meira púðri í leikstjórnina að ósekju, þó vissulega sé leikmyndin mikilfengleg.

Sveinn Haraldsson

Morgunblaðið/Kristján Kristjánsson ÞRJÁR kynslóðir hver á sinni leið: Sigurður Hallmarsson, Guðbjörg Thoroddsen og Halldór Gylfason í hlutverkum sínum.