Ferrari-liðið þarf á
kraftaverki að halda
TIL þess að hafa möguleika á
að binda enda á 18 ára bið eftir heimsmeistaratitli í kappakstri þarf Ferrari-liðið á kraftaverki að halda er næstsíðasti formúlu-1 kappakstur ársins fer fram í Suzuka í Japan á sunnudag. Þrátt fyrir stórgóða frammistöðu aðal ökumanns liðsins, Michaels Schumachers, í sumar og miklar framfarir við þróun Ferrari- bílsins frá í fyrra virðist fátt geta komið í veg fyrir að Frank Williams og hans menn tryggi sér bæði heimsmeistaratitil ökuþóra og bílsmiða í Suzuka.
Kanadíski ökuþór Williams-liðs ins, Jacques Villeneuv, hefur 9 stiga forystu á Schumacher í keppni ökumanna, 77-68, og þarf því einungis að fá einu stigi meira í Suzuka til þess að vinna titilinn því þá gæti Schumacher fræðilega í mesta lagi náð honum að stigum í Jerez á Spáni eftir tvær vikur. Hljóti þeir jafnmörg stig að lokum vinnur Villeneuve titilinn út á fleiri keppnissigra. Athyglisvert er, að aldrei hafa þeri verið saman á verðlaunapalli í þeim 15 kappökstrum, sem farið fram á árinu. Verði Villeneuve heimsmeistari verður hann fyrsti Kanadamaðurinn sem til þeirrar tignar vinnur. Með sigri í Suzuka myndi hann jafnframt tryggja Williams-liðinu eftirsóttan titil bílsmiða en það þarf einungis 6 stig úr síðustu tveimur mótunum til að vinna þá keppni. Yrði það í níunda sinn sem sá heiður félli Williams í skaut sem yrði met í sögu formúla-1. Hefur liðið 112 stig en Ferrari 86 en fyrir sigur fást 10 stig, annað sæti 6, þriðja sæti 4 og síðan 3-2-1 fyrir fjórða til sjötta sæti.
Á tímabili í sumar hafði Ferrari forystu bæði í stigakeppni ökuþóra og bílsmiða en allt hefur gengið á afturfótum hjá liðinu í síðustu mótum og Williams skotist fram úr. Virðist sem Ferrari hafi setið eftir í þróuninni meðan öðrum liðum, s.s. Williams, McLaren, Jordan, Stewart, Arrows og Prost, hefur tekist að betrumbæta bíla sína eftir því sem á keppnistímabilið hefur liðið.
Schumacher segist ánægður með prófanir á bíl sínum frá síðustu keppni en játar að möguleikarnir á titil hafi minnkað. "Ég verð að leggja allt í sölurnar í mótunum tveimur sem eftir eru, enda hef ég engu að tapa," sagði hann. Spurningin er hvort heilladísir gangi í lið með honum. Villeneuve á óskemmtilegar minningar frá Suzuka í fyrra, hjól brotnaði undan bílnum hans á 37. hring af 53 og við það missti hann af möguleika á að skáka þáverandi félaga sínum hjá Williams, Damon Hill, sem varð heimsmeistari. Nýjustu fréttir eru þær að eftir þurrt og sólríkt sumar sé útlit fyrir rigningu á sunnudag í Suzuka. Geri dembu yrði að líta á það sem forsjónin hafi gengið í lið með Schumacher því við aðstæður af því tagi hefur Schumacher enginn staðið honum á sporði.
Ágúst
Ásgeirsson
skrifar