Rétt skal
vera rétt
MARGIR kvikmyndagerðarmenn
lentu á svörtum lista þegar hreinsa átti út kommúnista í Hollywood við upphaf sjötta áratugarins. Sumir handritshöfundar brugðust við faglegri útilokun sinni með því að skrifa undir dulnefni eða með því að láta nafn sitt hvergi koma fram í tengslum við kvikmynd. Nú, mörgum árum síðar, er verið að leiðrétta kvikmyndasöguna með því að láta nöfn þeirra á þær kvikmyndir sem þeir unnu við.
Í lok október standa samtök handritshöfunda í Hollywood fyrir athöfn þar sem þess verður minnst að 50 ár eru liðin frá því að fyrstu höfundarnir voru kallaðir fyrir Un-American Activities Committee og beðnir um að nefna nöfn starfsfélaga sem grunaðir voru um að aðhyllast kommúnisma. Nokkrir þessara handritshöfunda, t.d. Lester Cole, Alvah Bessie, og John Howard Lawson, voru fangelsaðir fyrir að neita að nefna nöfn.
Nafn Lawsons verður nú sett t.d. á kvikmyndina "Cry, The Beloved Country" með Sidney Poitier. Myndin var byggð á bók Alans Patons og var hann skrifaður fyrir handritinu en það var í raun Lawson sem umskrifaði bókina fyrir bíó.
Aðrar þekktar myndir sem hafa ekki verið skrifðar á rétt nöfn eru t.d. "An Affair to Remember" með Cary Grant og Deborah Kerr en það var Donald Odgen Stewart sem átti heiðurinn að henni, "Ivanhoe" með Elizabeth Taylor og Robert Taylor en það var Margurite Roberts sem skrifaði handritið, og "The Robe" sem var skrifuð af Albert Maltz.