Í ÁGÚST síðastliðnum gafst undirritaðri kostur á að sækja heimsþing um öldrunarfræði sem haldið var í Adelaide í Ástralíu. Þetta var 16. heimsþing Alþjóðasamtaka Öldrunarfræðafélaga en slík þing eru haldin á fjögurra ára fresti.
Heimsþing umöldrunarfræði
Heimsþing um öldrunarfræði var haldið í Adelaide í Ástralíu í ágústmánuði sl. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir segir í þessari fyrstu grein sinni um þingið m.a. frá efnahagslegum áhrifum þeirra breytinga sem nú eru að verða á aldsurssamsetningu þjóða heims.
Í ÁGÚST síðastliðnum gafst undirritaðri kostur á að sækja heimsþing um öldrunarfræði sem haldið var í Adelaide í Ástralíu. Þetta var 16. heimsþing Alþjóðasamtaka Öldrunarfræðafélaga en slík þing eru haldin á fjögurra ára fresti. Á þingum þessum koma saman líffræðingar, öldrunarlæknar og læknar annarra sérgreina, sálfræðingar, félagsfræðingar, hagfræðingar, mannfræðingar, félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar og fleiri starfsstéttir auk margra áhugamanna um öldrunarfræðin. Yfirskrift þingsins að þessu sinni var "Öldrun á næstu öld: Sama framtíð fyrir alla" (Aging Beyond 2000: One World One Future). Um 2100 þátttakendur frá 65 þjóðlöndum voru á þinginu í Adelaide.
Þingið stóð yfir dagana 19. til 23. ágúst. Þing sem þessi eru ein allsherjarveisla fyrir þá sem vilja kynna sér nýjustu rannsóknir á öldrun, áfanganiðurstöður langtímarannsókna, ný þjónustuform, árangur mismunandi aðferða, áhrif ýmissa aðgerða á sviði öldrunarþjónustu, framvindu tilraunaverkefna og fleira. Um margt var að velja. Fluttir voru um 500 fyrirlestrar, haldnar um 25 hringborðsumræður og kynntar um 1.500 rannsóknir og tilraunarverkefni ýmist á veggspjöldum, myndböndum eða með umfjöllun.
Eitt meginviðfangsefni þingsins snerist um efnahagsleg áhrif þeirra breytinga sem nú eru að verða á aldurssamsetningu þjóða heims og ekki hvað síst þegar stóru árgangar eftirstríðsáranna ná eftirlaunaaldri á fyrrihluta næstu aldar. Það að fólk eldist og þar með þjóðir sem heild er ekki vandamál. Hins vegar geta stjórnvöld sem sofa á verðinum og bregðast ekki við þessum breytingum í tæka tíð með viðeigandi aðgerðum stofnað til vandamála sem kann að verða erfitt að leysa án frekari undirbúnings. Nýkjörinn forseti Alþjóðasamtaka Öldrunarfræðafélaga, öldrunarlæknirinn Gary Andrews, prófessor við Flinders University í Suður-Ástralíu, hélt því fram í setningarræðu sinni að til þess að afstýra stórslysi þyrftu stjórnvöld hvar sem er í heiminum að svara kalli tímans og hefja undirbúning þegar í stað. Talsverð þekking hefur þegar safnast um öldrun og sífellt bætist ný þekking við af fenginni reynslu og rannsóknum liðinna ára. Þær þjóðir heims sem hvað lengst eru komnar í þróun og uppbyggingu öldrunarþjónustu eru nú hver af annarri að endurskoða stefnu sína í málefnum aldraðra. Má þar nefna sum Norðurlandanna, Holland, Þýskaland og Japan. Þetta er gert í ljósi þess að þar er nú spurt hvort unnt verði að halda uppi núverandi þjónustustigi og formi þegar við blasir að fæðingum fækkar, fólk lifir lengur og allt að 2025% íbúa þessara þjóða verða búnir að ná 65 ára aldri um 2020.
Yfirlýsing Adelaide-þingsins um öldrun
Upplýsingar er fram komu á þinginu vöktu þátttakendur til verulegrar umhugsunar um framtíðarhorfur varðandi lífsgæði aldraðra í heiminum. Þátttakendur sendu í þinglok frá sér yfirlýsingu um öldrun. Yfirlýsingin felur í sér skilaboð til leiðtoga heimsins um nauðsynlegar aðgerðir til undirbúnings nýrrar aldar. Þar er hvatt til breytinga á þeirri hefðbundnu þröngu sýn á öldrun einstaklinga og þjóða svo unnt verði að takast á við breytta lýðfræðilega mynd á aldurssamsetningu heimsins með árangursríkum hætti. Í nær öllum stefnuyfirlýsingum, skrifum og niðurstöðum rannsókna er gerður greinarmunur á "öldruðum", í hvaða tilliti sem sá hópur er skilgreindur, og "hinum" (þ.e. "ekki öldruðum"). Við flokkun sem þessa gleymist að mannkynið allt er að eldast og að nú á sér stað samfelld þróun þeirrar lífsreynslu að eldast í ört breytilegum heimi. Fram til þessa hefur meginathygli öldrunarfræðanna verið beint að síðari stigum mannsævinnar, en þátttakendur á þinginu vilja leggja áherslu á mikilvægi ævilangrar, einstaklingsbundinnar þróunar, er miði að því að eldast vel.
Rannsóknir
Í yfirlýsingunni er hvatt til aðgerða á þremur sviðum öldrunarmála, þ.e. á sviði rannsókna, menntunar og fræðslu, stefnumörkunar og framkvæmda. Um rannsóknir segir þar m.a.: "Aukin þekking á öldrun, með líffræðilegum, atferlisfræðilegum, félagslegum, tæknilegum og klínískum rannsóknum, skiptir sköpum í þeirri viðleitni að auka og viðhalda lífsgæðum á efri árum. Rannsóknir á helstu vandamálum samfara öldrun, svo sem Alzheimersjúkdómnum, eru þegar farnar að bera ávöxt með nýjum aðferðum til að draga úr áhrifum sjúkleika og fötlunar sem tengjast öldrun. Önnur sérhæfð og árangursrík forvarnar- og meðferðarúrræði eru innan seilingar.
Hvetja þarf til hvers kyns rannsókna, bæði grunnrannsókna, hagnýtra og sértækra skipulagsrannsókna á sviði öldrunarmála. Brýna nauðsyn ber til að auka framlög til rannsókna á hinum ýmsu þáttum öldrunar.
Stjórnvöldum almennt ber að tryggja að fylgst sé gaumgæfilega með lýðfræðilegri og faraldsfræðilegri þróun í þjóðfélaginu og taka mið af breyttri aldurssamsetningu sem hefur í för með sér breyttar félagslegar, heilsufarlegar og efnahagslegar aðstæður.
Niðurstöður slíkra athugana og rannsókna ber að greina og kynna með skýrum og afgerandi hætti og þannig upplýsa þá betur sem marka stefnu og taka ákvarðanir.
Fjármagna þarf og efla verulega hvers kyns þverfaglegar rannsóknir, með hliðsjón af þeim fjölbreytilegu þáttum sem áhrif hafa á öldrun.
Öllu fagfólki sem starfar á sviði öldrunarmála, ber að veita þjálfun í aðferðafræði rannsókna og þar með auka hæfni þeirra til að meta rannsóknir með gagnrýnum huga og nýta sér niðurstöður þeirra."
Þær aðgerðir sem hér er hvatt til eiga tvímælalaust erindi til íslenskra yfirvalda. Verulega skortir á aðgengilegar tölfræðilegar upplýsingar sem unnt er að bera saman frá ári til árs. Hér vantar kerfisbundna söfnun upplýsinga um hvernig og í hve miklum mæli mismunandi úrræði eru nýtt, hver nýtir þau og hvað einkennir þennan hóp öðru fremur. Kynna þarf betur og taka mið af niðurstöðum þeirra upplýsinga sem safnað er við framkvæmd vistunarmats aldraðra og við skráningu á aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum. Á Íslandi eru ekki margar rannsóknir á öldrun enda var rannsóknarakurinn lítill lengi framan af. Nú er hins vegar unnið að nokkrum langtímarannsóknum á þessum vettvangi og er afar mikilvægt að styðja betur við þá vinnu og nýta niðurstöður þeirra og ennfremur örva til nýrra rannsókna.
Haldgóðar og áreiðanlegar upplýsingar eru forsenda vandaðrar stefnumörkunar. Í næstu grein verður fjallað um yfirlýsingu heimsþingsins um öldrunarfræði er varðar menntun og fræðslu.
Höfundur er yfirmaður öldrunarþjónustudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir