SAMKEPPNI Í ÞÁGU NEYTENDA TAK Félags íslenzkra bifreiðaeigenda til að lækka iðgjöld bifreiðatrygginga á síðasta ári hefur borið árangur og skilað neytendum umtalsverðum hagsbótum, samkvæmt niðurstöðum könnunar Hagfræðistofnunar Háskólans.
leiðari SAMKEPPNI Í
ÞÁGU NEYTENDATAK Félags íslenzkra bifreiðaeigenda til að lækka iðgjöld bifreiðatrygginga á síðasta ári hefur borið árangur og skilað neytendum umtalsverðum hagsbótum, samkvæmt niðurstöðum könnunar Hagfræðistofnunar Háskólans.
FÍB-trygging tók til starfa í september síðastliðnum og fékk til samstarfs við sig erlendan tryggingahóp, Ibex Motor Policies. FÍB-trygging bauð verulega lægri iðgjöld en tryggingafélögin hér höfðu áður gert og önnur félög fylgdu fljótlega í kjölfarið. Hagfræðistofnun telur að beinn sparnaður bíleigenda af lækkun iðgjalda sé um 1,1 milljarður króna á einu ári.
Þetta sýnir að með frjálsum viðskiptum og erlendri samkeppni hefur mátt bæta hag neytenda til muna. Tryggingafélögin, sem fyrir voru, voru ekki trúuð á þessa starfsemi í upphafi og sögðu ekki hægt að bjóða svo lág iðgjöld. Þau eru raunar enn sama sinnis og segja að þau séu að tapa á bílatryggingunum eftir að iðgjöldin lækkuðu. Talsmenn FÍB segja hins vegar, að Ibex Motor-hópurinn sé enn sem komið er sáttur við starfsemina hér á landi, hvað sem síðar kann að koma í ljós.
Fróðlegt verður að sjá hver rekstrarafkoma tryggingafélaganna verður á þessu ári, sem er fyrsta heila árið í rekstri frá því að iðgjöldin voru lækkuð.
Svo mikið er víst að sérhver verðlækkun er í þágu neytenda, jafnvel þótt hún kunni að vera tímabundin. Það verður líka erfitt fyrir tryggingafélögin að hækka iðgjöldin á ný jafnhratt og þau voru lækkuð.
Íslenzkt efnahagslíf hefur liðið fyrir skort á samkeppni. Á sumum sviðum ríkir virk samkeppni, sem leitt hefur til verulegrar lækkunar vöruverðs á undanförnum árum. Þetta á ekki sízt við um verzlun með matvörur, fatnað og heimilistæki. Á öðrum sviðum virðist ætla að ganga illa að koma á samkeppni. Í skipaflutningum hafa til dæmis komið tímabil, þar sem einstök skipafélög hafa lækkað verð og önnur fylgt á eftir. Nú er hins vegar lítil samkeppni á þeim markaði. Sama má segja um sölu eldsneytis, þar sem gjaldskrá olíufélaganna stenzt nánast upp á eyri og þau hækka og lækka verð öll á sama tíma.
Undanfarið hefur orðið ódýrara að ferðast innanlands vegna aukinnar samkeppni í innanlandsflugi. Í Morgunblaðinu í gær má hins vegar lesa að bæði helztu flugfélögin á innanlandsmarkaði, Íslandsflug og Flugfélag Íslands, telji sig tapa á innanlandsfluginu og að stutt sé í að fargjöldin hækki að nýju. Hið nýja rekstrarumhverfi innanlandsflugsins, þar sem sérleyfi eru afnumin, hlýtur þó að skila neytendum lægra verði til frambúðar.
Eflaust hefur smæð hins íslenzka markaðar talsvert að segja um það að samkeppni er hér ekki meiri en raun ber vitni. En eftir því sem Ísland verður í auknum mæli hluti af stærri markaði og losað er um hömlur á starfsemi erlendra fyrirtækja hér á landi batna forsendur fyrir því að erlend samkeppni komi til sögunnar, sem stuðlar að lækkandi verði. Slíkri samkeppni ber að fagna, því að hún er í þágu neytenda. Íslenzk fyrirtæki eiga ekki annars kost en að laga sig að þessari þróun.
HVER BORGAR?
umræðum á Alþingi í fyrradag um veiðileyfagjald sagði Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður m.a.: "Skatt ur á útgerðarfyrirtæki gæti aldrei verið borgaður af neinum öðrum en sjómönnum og fiskverkafólki. Það er hrein blekking, ef menn halda, að einhver annar muni borga."
Látum liggja á milli hluta ágreining um það hvort veiðileyfagjald sé skattur eða ekki skattur. Staðreyndin er hins vegar sú, að útgerðarfyrirtækin í landinu hafa á undanförnum árum verið að greiða gjald fyrir réttinn til þess að veiða en í stað þess að greiða það gjald í sameiginlegan sjóð hafa þau greitt það til annarra útgerðarfyrirtækja.
Er Einar Oddur Kristjánsson að halda því fram, að sjómenn og fiskverkafólk hafi greitt kostnað af þessum kvótakaupum útgerðarfyrirtækjanna, sem hafa svo orðið til þess að stórauka eignir þeirra?