FINNUR Ingólfsson iðnaðarráðherra segir Austurland vera ótvírætt bestu staðsetninguna fyrir álver það sem fyrirtækið Norsk Hydro hyggst reisa. Hann lítur á uppbyggingu stóriðju þar sem þátt í því að greiða fyrir borgarmyndun víðar en á suðvesturhorninu, enda muni mjög stór þéttbýliskjarni rísa í kringum fyrirhugað álver.
Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra Vill borgarmyndun

á Austurlandi

FINNUR Ingólfsson iðnaðarráðherra segir Austurland vera ótvírætt bestu staðsetninguna fyrir álver það sem fyrirtækið Norsk Hydro hyggst reisa. Hann lítur á uppbyggingu stóriðju þar sem þátt í því að greiða fyrir borgarmyndun víðar en á suðvesturhorninu, enda muni mjög stór þéttbýliskjarni rísa í kringum fyrirhugað álver.

Þetta kom fram í máli ráðherrans á stjórnmálafundi framsóknarmanna á Hótel Borg á fimmtudag. Um sextíu manns voru mættir á fundinn.

"Orkan sem er til ráðstöfunar fyrir suðvesturhornið dugir fyrir einu þrjú hundruð þúsund tonna álveri. Eigum við að reisa það á Keilisnesi og segja svo við fyrirtæki sem eru búin að vera að fjárfesta þar, eins og ÍSAL, Járnblendifélagið og Columbia, að því miður eigum við enga orku til fyrir þau þegar þau vilja stækka? Við getum ekki gert það. Ég vil nýta þá orku sem enn er eftir óbeisluð til þess að láta þessi fyrirtæki stækka, því þau munu öll vilja gera það. Að leiða orku yfir hálendið frá Austurlandi er mjög dýrt. Það getur ekkert eitt verkefni staðið undir því og auk þess mun það valda miklum umhverfisspjöllum. Þess vegna er ekki um annað að ræða í mínum huga en að staðsetja svona stórt iðjuver á Austurlandi, sem næst virkjunum."

Á fundinum komu einnig til umræðu kvótamál meðal annars og sögðu sumir fundarmanna að Framsóknarflokkurinn yrði að breyta stefnu sinni í þeim efnum til að koma vel út úr næstu kosningum. Þeir vísuðu til þess að stofnun nýs félags, Samtaka um þjóðareign, sýndi að mikill stuðningur væri við endurskoðun kerfisins.

Finnur sagði að sér hefði létt þegar haft hefði verið eftir formanni félagsins að hann hefði ekki áhuga á skattlagningu kvóta, aðeins framsalsins. "Framsóknarflokkurinn er tilbúinn til að takast á við vandamál innan kvótakerfisins en vill ekki leggja viðbótarskatt á sjávarútveginn."

Morgunblaðið/Kristinn Á STJÓRNMÁLAFUNDI Framsóknarflokksins á Hótel Borg voru mættir um sextíu manns, þar af fimm konur.