HINN 11. október verða nýjar sorptunnur afhentar í öll hús á Akranesi. Akurnesingar verða þá fyrst áþreifanlega varir við þá róttæku breytingu sem er að verða á sorpmálum þeirra. Nú verður horfið frá því að nota plastpoka sem oft fuku um götur bæjarins öllum til armæðu. Í stað þeirra verða nú notaðar plasttunnur sem eru mjög hreinlegar. Af þeim er góð reynsla, m.a. í Reykjavík.

Róttæk breyting

á sorpmálum

Akurnesinga Nú hillir loks undir að öskuhaugunum á Akranesi verði lokað, segir Gunnar Sigurðsson . Sáð verður fræi í svæðið og haugarnir heyra sögunni til. HINN 11. október verða nýjar sorptunnur afhentar í öll hús á Akranesi. Akurnesingar verða þá fyrst áþreifanlega varir við þá róttæku breytingu sem er að verða á sorpmálum þeirra. Nú verður horfið frá því að nota plastpoka sem oft fuku um götur bæjarins öllum til armæðu. Í stað þeirra verða nú notaðar plasttunnur sem eru mjög hreinlegar. Af þeim er góð reynsla, m.a. í Reykjavík. Þar sem tunnur þessar eru stærri en plastpokarnir, verður sú breyting á að sorphirða verður nú á 10 daga fresti í stað vikulega áður.

Ég hvet bæjarbúa til að fara upp í Berjadalsnámu og kynna sér nýja móttökustöð fyrir sorp. Þar sem sorp verður flokkað og tekið á móti timbri, brotajárni o.fl. Einnig verður þar aðstaða til að taka á móti spilliefnum. Nú þurfum við bæjarbúar að standa saman og nýta nýju sorpflokkunarstöðina. Fyrir ofan Berjadalsnámu er búið að gera mikla gryfju fyrir jarðvegsúrgang, steypuafganga, o.fl. Mikilvægt er að á þetta svæði fari ekkert annað en það sem þangað má fara og mun umsjónarmaður svæðisins leiðbeina fólki í því efni. Öllum pappír, þ.m.t. dagblöðum, á að skila í sérstaka gáma sem verða við Einarsbúð, Grundaval og Skagaver.

Nú hillir loks undir að öskuhaugunum á Akranesi verði endanlega lokað. Nú þegar hefur um 90% þeirra verið lokað og búið er að sá fræi í það svæði og á næstu vikum munu þeir heyra sögunni til og var það orðið löngu tímabært.

Fyrst um sinn verður öllu sorpi ekið til Reykjavíkur í Sorpu. En vonir standa til að niðurstaða fáist fljótlega um sorpurðun í Fíflholti, en það er mikið hagsmunamál, ekki eingöngu fyrir íbúa Akraness, heldur alla íbúa á Vesturlandi. Ég hvet alla bæjarbúa til að lesa vel bréf bæjarstjórans, Gísla Gíslasonar, sem sent var í öll hús í september, en það fjallaði um endurbætur í sorpmálum bæjarbúa.

Við þurfum öll að auka umhverfisvitund okkar. Um leið og við hugum að því að minnka sorpúrgang erum við þegar búin að stíga stærsta skrefið. Ef við lítum til framtíðar verður sorp flokkað miklu meira en nú er. Með þeim aðgerðum sem nú standa fyrir dyrum munum við Akurnesingar verða með í baráttunni gegn mengun og auka hróður bæjarins út á við. Verum samtaka. Gerum góðan bæ betri.

Höfundur er formaður bæjarráðs Akraness. Gunnar Sigurðsson