Jafnaðarmenn hafna
þjóðaratkvæðagreiðslu
Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.
LÍKT OG búist var við mælti sænska
stjórnin með því í þinginu í gær að Svíar gerðust ekki aðilar að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu, EMU, að svo stöddu. Hins vegar vakti það athygli að Erik Åsbrink fjármálaráðherra lagðist gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Svía að EMU, en hingað til hefur flokkur hans, Jafnaðarmannaflokkurinn, haldið því á lofti að almenningur ætti að fá að taka afstöðu til aðildar. Þessi kúvending kemur aðeins tveimur dögum eftir að Carl Bildt, formaður Hægriflokksins og fyrrum forsætisráðherra, kúventi í sama máli og lagði til þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir að hafa verið henni andvígur.
Meðan Göran Persson forsætisráðherra var fjármálaráðherra þótti ljóst af orðum hans að hann væri hallur undir aðild Svía að EMU, en eftir að hann tók við sem forsætisráðherra af Ingvar Carlsson 1995 gerðist hann æ fámæltari um aðild. Þó Svíar hefðu greitt atkvæði um aðild að ESB á grundvelli Maastricht-sáttmálans, þar sem EMU- aðild er innifalin, tók hann fljótlega að nefna að almenningur þyrfti að fá að segja álit sitt sérstaklega á svo mikilvægri ákvörðun.
Carl Bildt hefur alla tíð verið þeirrar skoðunar að EMU-aðild væri Svíum nauðsyn til að aðlaga landið breyttum tímum og styrkja efnahag landsins og hefur lagt áherslu á að Svíar hafi þegar samþykkt sig inn í EMU. Því kom rækilega á óvart í flokksformannaumræðum við setningu sænska þingsins í vikunni, þegar hann lýsti sig fúsan til að Svíar fengju að segja hug sinn 1999 um aðildina sérstaklega, en kvað ekki skýrlega að orði um hvort það ætti að gerast í þjóðaratkvæðagreiðslu eða í kosningum til Evrópuþingsins. Bildt hefur skýrt afstöðu sína nú með því að hann sé í sjálfu sér sama sinnis og fyrr, en þar sem aðild sé dautt mál meðan jafnaðarmenn geri allt sem þeir geti til að drepa því á dreif, miðist þessi tillaga að því að koma málinu á dagskrá aftur. Í hans huga sé 1999 í raun of seint, en sjáanlegt sé að fyrr verði því ekki viðkomið.
Jafnaðarmenn: Þjóðaratkvæði um EMU hentar ekki
Persson tók hugmynd Bildts í fyrstu ekki fjarri og sagði það gleðja sig að Bildt vildi nú hlusta á rödd almennings. Gleðin var þó skammvinn. Hann dró í land og sagði of snemmt að greiða atkvæði 1999. Ákvörðun þá yrði afgerandi og höfnun myndi hindra Svía í að gerast aðili um langa hríð. Hik hans er almennt skilið sem svo að þar sem flokkur hans er rækilega klofinn í málinu og hann sjálfur hikandi treysti hann sér ekki í þau átök, sem atkvæðagreiðslu muni fylgja.
En í gær kom Åsbrink svo með nýja skilgreiningu er hann sagði þjóðaratkvæðagreiðslu aðeins henta við sérstakar aðstæður, þegar öðru verði ekki komið við. Þær aðstæður séu ekki fyrir hendi í EMU-málinu. Almenningur geti komið skoðun sinni til skila í þingkosningum, sem ekki verða seinna en að tæpu ári. Of snemmt sé að gera upp hug sinn 1999 og betra að sjá hvernig EMU reiði af. Lars Tobisson, talsmaður Hægriflokksins í efnahagsmálum undirstrikaði, í gær, að jafnvel þótt Hægriflokkurinn kæmist í stjórn myndi hann ekki geta leitt Svía inn í EMU ef jafnaðarmenn væru á móti, því í þessu máli dygði ekki tæpur meirihluti.
Þar með hefur staðan snúist við: Nú er það Hægriflokkurinn sem sækir á um þjóðaratkvæði og jafnaðarmenn eru með úrtölur. Persson hefur enn treyst orðstír sinn sem lítt afdráttarlaus í skoðunum og Bildt vakið upp umræðu um EMU, sem annars var döguð uppi, eftir að jafnaðarmenn höfðu hvað eftir annað sagt að ekkert lægi á. Hingað til hafa jafnaðarmenn ekki talið EMU á dagskrá, svo aðild þyrfti ekki að vera kosningamál næsta ár og Hægriflokkurinn kysi sennilega frekar að heyja kosningaslaginn um innanlandsmálefni og taka svo EMU-slaginn síðar. Það myndi líka auðvelda þeim að ná aftur samvinnu við Miðflokkinn, sem hefur stutt minnihlutastjórn jafnaðarmanna hingað til og er á móti EMU-aðild. Flokkarnir tveir og hinir borgaraflokkarnir gætu þá náð saman um innanlandsmálin og látið svo EMU- aðild ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvort kapall Bildts gengur upp og honum tekst með þessu að þvinga forystu jafnaðarmanna til að taka afstöðu til EMU-aðildar á eftir að koma í ljós, en takist það er enn sú þrautin þyngri að fá almenning með, því Svíar eru sú þjóð í ESB sem er minnst gefin fyrir ESB og þá um leið fyrir EMU.