Nýjar leiðir við eftirlit til
að ná niður ökuhraða
EMBÆTTI ríkislögreglustjóra var í
gær afhent fyrri löggæslumyndavélin af tveimur sem Vegagerðin og Umferðarráð hafa tekið höndum saman um að kaupa. Mat nefndar, sem vann að gerð umferðaröryggisáætlunar til ársins 2001, var að ökuhraði ylli einna mestri hættu í umferðinni og að þörf væri á að fara nýjar leiðir. Liður í því er að taka í notkun myndavélar sem þessar. Síðari vélin verður afhent um næstu áramót.
Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri afhenti Boga Nilssyni ríkislögreglustjóra fyrri myndavélina í gær og með honum bíl sem einnig er lagður til og notaður verður við eftirlitið. Þórhallur Ólafsson, formaður Umferðarráðs, segir markmiðið með þessum aðgerðum að draga úr ökuhraða og ná þannig að fækka alvarlegum umferðarslysum verulega. Slíkar myndavélar hafa verið notaðar í Ástralíu og er talið að á fimm árum hafi tekist á ná niður ökuhraða þannig að um 1.200 færri hafi látið lífið í umferðarslysum og koma í veg fyrir að allt að 9.800 manns hafi slasast alvarlega. Sagði Þórhallur að næðist sami árangur hér mætti búast við að banaslysum í umferðinni hér myndi fækka um 5 og að 60 færri myndu slasast alvarlega.
Mælir í báðar áttir
Myndavélin er afkastamikil, getur tekið 500 til 1.000 myndir á dag og við prófun á Selfossi nýlega voru teknar 108 myndir á klukkustund. Hægt er að stilla vélina á ýmsa vegu. Hún getur mælt hraða bíla og myndað þá á tveggja akreina götum, í aðra áttina eða báðar í senn. Hún getur hvort sem er myndað úr bíl á ferð, og er þá tengd hraðamæli bílsins til að reikna út áhrif hraðans, eða kyrrstæð. Vélin tekur myndir á venjulega filmu og skráir auk hraðans, tíma og dagsetningu og síðan má stilla inn númer lögregluþjóns, stað og við hvaða hraða skal byrja að mæla.
Fram kom á fundi þar sem fyrri vélin var afhent að frá því myndavélum var komið upp á gatnamótum í Reykjavík í febrúar hafi 600 ökumenn verið sektaðir fyrir að aka móti rauðu ljósi. Lögreglan ráðgerir að hefja ökuhraðamælingar á næstunni með nýju vélinni en Vegagerðin og sveitarfélög munu gera áætlun um hvar mæla skuli út frá slysatíðni og sjá um nauðsynlegan búnað.
Sé bíll mældur og myndaður á ólöglegum hraða er eiganda hans send sektartilkynning sem þó er stíluð á notanda bílsins. Þótt eigandi sé ekki ökumaður ber honum að benda á þann sem ók og getur lögum samkvæmt ekki skotið sér undan ábyrgð.
Morgunblaðið/Halldór
FORMAÐUR Umferðarráðs, Þórhallur Ólafsson, útskýrir hér samstarf ráðsins og Vegagerðarinnar um myndavélina sem stendur á borðinu fyrir framan hann.
MYNDAVÉLIN nýja getur tekið myndir við verstu skilyrði, rigningu og myrkur.