TÍSKUVIKUNNI í Mílanó lauk á fimmtudag með sýningu á flíkum hönnuðarins Gianni Versace, sem var myrtur við heimili sitt um miðjan júlí. Sýningin var haldin til minningar um fatahönnuðinn ástsæla. Margar af þeim fyrirsætum sem voru í uppáhaldi hjá Versace komu þar fram og tárfelldi Naomi Campbell í lokin.
Versacehápunktur tískuviku í Mílanó
TÍSKUVIKUNNI í Mílanó lauk á fimmtudag með sýningu á flíkum hönnuðarins Gianni Versace, sem var myrtur við heimili sitt um miðjan júlí. Sýningin var haldin til minningar um fatahönnuðinn ástsæla. Margar af þeim fyrirsætum sem voru í uppáhaldi hjá Versace komu þar fram og tárfelldi Naomi Campbell í lokin.
Donatella, yngri systir Versace, tárfelldi einnig, en hún hefur tekið við tískuveldi bróður síns. Kjólarnir þóttu kynþokkafullir en að sama skapi sígildir og var það sérkenni Versace. Þótti það kaldhæðnislegt að sumir kjólanna voru byggðir á hönnunarvinnu sem Versace lagði af mörkum fyrir vinkonu sína Díönu prinsessu, sem lést nokkrum vikum síðar í bílslysi.
Undanfarna daga hafa helstu hönnuðir Ítalíu lagt línurnar fyrir vor- og sumartískuna 1998. Baðföt og efnislítill klæðnaður voru í öndvegi, en afbrigðin voru ýmiss konar eins og myndirnar sýna. Íslensk fyrirsæta, Telma Þormarsdóttir, tók þátt í sýningu Armanis. Hún er aðeins sextán ára.
EVA Herzigova er í buxum og toppi frá hönnuðinum Laura Biagiotti, sem sýndi hversdagslínu sína í vikunni.
BAÐFATNAÐUR frá tískuhúsinu Bluemarine, sem sendi einnig frá sér þröngar stuttbuxur og mínípils í pastellitum við litasterka háhælaða skó.
PARIÐ er í undirfötum frá tískuveldinu Gucci, sem bandaríski hönnuðurinn Tom Ford á heiðurinn af. Hann valdi mjúkar og þokkafullar línur fyrir vor- og sumartísku sína, sem hann sagði að auðvelt væri fyrir hina venjulegu nútímakonu að klæðast.
TÉKKNESKA fyrirsætan Eva Herzigova er í pilsi og jakka, sem tilheyrir hversdagslínu tískuhússins Bluemarines.
ÓÞEKKT fyrirsæta í fatnaði frá Emporio Armani, sem er fatalína ætluð yngri viðskiptavinum hönnuðarins Georgio Armani.
VIÐ FYRSTU sýn verður ekki betur séð en að Gianfranco Ferre hafi orðið uppiskroppa með hugmyndir þegar hann var búinn að hanna buxur á fyrirsætur sínar.
FYRIRSÆTA Luciano Soprani í alklæðnaði sem líklega yrði nógu efnismikill fyrir skemmtanalífið hér á landi. Ekki var mikið um þannig flíkur í Mílanó.
NAOMI Campbell kom fram á tískusýningu til minningar um Versace. Aðrar fyrirsætur á sýningunni voru m.a. Kate Moss, Stella Tennant og Linda Evangelista.