Eykur líkur á að her-
veldi samþykki bannið
Leiðtogi samtakanna, Jody Williams, fær helming
verðlaunanna
Ósló. Reuters.
TILKYNNT var í gær að alþjóðleg samtök, sem berjast fyrir banni við jarðsprengjum, og leiðtogi þeirra fengju friðarverðlaun Nóbels í ár. Talið er að ákvörðunin auki líkurnar á því að herveldi heimsins fallist á alþjóðlegan sáttmála um algjört bann við jarðsprengjum á næstu árum.
Nóbelsverðlaunanefndin í Ósló kvaðst hafa valið samtökin Alþjóðleg herferð fyrir jarðsprengjubanni, ICBL, og bandarísku konuna Jody Willams, leiðtoga samtakanna, vegna baráttu þeirra fyrir jarðsprengjubanni og hreinsun sprengjubelta í heiminum. Sex hreyfingar í Bandaríkjunum og Evrópu stofnuðu ICBL árið 1992 og síðan hafa rúmlega þúsund hreyfingar frá nær 60 ríkjum gengið í samtökin.
"ICBL og Jody Williams hófu herferð sem hefur á fimm árum breytt banni við jarðsprengjum frá því að vera hugsjón í raunhæfan möguleika," sagði í tilkynningu verðlaunanefndarinnar.
Fjölskylda Díönu ánægð
Mikill skriður hefur verið á baráttunni gegn jarðsprengjubanninu síðustu fimm árin og hún náði hámarki eftir dauða Díönu prinsessu, sem hafði barist fyrir banninu. Formaður verðlaunanefndarinnar, Francis Sejersted, sagði þó að ákvörðunin tengdist ekki Díönu beint en bætti við: "Við gerum okkur fulla grein fyrir því að margir einstaklingar og hópar hafa lagt sitt af mörkum til baráttunnar."
Fjölskylda Díönu kvaðst mjög ánægð með að samtök sem berðust fyrir jarðsprengjubanni skyldu hafa orðið fyrir valinu. Prinsessan fór til Angóla í fyrra til að vekja athygli á hættunni sem stafar af jarðsprengjum en áætlað er að 26.000 manns deyi eða særist alvarlega af völdum þeirra á ári hverju. Myndir af prinsessunni með börnum, sem hafa misst útlimi vegna þessara vopna, vöktu mikla athygli um allan heim.
Rúmlega 100 ríki samþykktu sáttmála um bann við jarðsprengjum á ráðstefnu í Ósló í liðnum mánuði, en hann nýtur ekki stuðnings margra ríkja, þeirra á meðal Bandaríkjanna, Rússlands, Kína, Kúbu, Norður-Kóreu, Íraks og Írans.
Fórnarlömb jarðsprengna og hreyfingar, sem starfað hafa við hreinsun sprengjubelta víða um heim, fögnuðu vali nefndarinnar í Ósló og sögðu að ákvörðunin myndi hafa mikil áhrif á líf fólks í mörgum stríðshrjáðum löndum.
Tveir kínverskir andófsmenn, Wei Jingsheng og Wang Dan, voru á meðal þeirra sem taldir voru líklegastir til að fá friðarverðlaunin að þessu sinni. Stjórnarerindrekar í Peking sögðu líklegt að kínversku stjórninni hefði létt mjög þegar val verðlaunanefndarinnar var tilkynnt.
Verðlaunin verða afhent við athöfn í Ósló 10. desember og verðlaunaféð er 7,5 milljónir sænskra króna, 72 milljónir íslenskra.
Reuters JODY Williams, leiðtogi samtakanna Alþjóðlegrar herferðar fyrir jarðsprengjubanni, ICBL, faðmar samstarfsmann sinn eftir að tilkynnt var að samtökin fengju friðarverðlaun Nóbels í ár.