Listin og
löggæslan
Listsköpun og löggæsla eiga kannski ekki
margt sameiginlegt við fyrstu sýn. Eyjapeyinn Bjarni Ólafur Magnússon ber þó í sér báða þá eiginleika sem prýða mega góðan lögreglumann og framsækinn myndlistarmann eins og Grímur Gíslason komst að er hann tók Bjarna Ólaf tali.
EYJAPEYINN Bjarni Ólafur Magnússon er sprenglærður myndlistarmaður sem hefur getið sér gott orð fyrir list sína. Hann hefur þó lengst af starfað sem lögreglumaður en undanfarna mánuði hefur hann verið í launalausu leyfi frá löggæslunni og helgað sig listinni eingöngu. Hann mun sýna afrakstur þess innan tíðar í Eyjum, en að sýningunni lokinni snýr hann sér aftur að því að halda uppi lögum og reglu í sinni heimabyggð.
Bjarni hóf myndlistarnám sitt í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og stundaði þar nám árin 1982 og 1983. Að því námi loknu starfaði hann í lögreglunni til ársins 1988 er hann hélt í BFA-nám í málun og grafík í Kansas City Art Institute. Að loknu námi þar hélt hann til San Francisco þar sem hann nam, sem gestanemandi, eina önn við San Francisco Art Institute. Bjarni kom heim til Íslands aftur að náminu loknu vorið 1990 og hóf þá störf í lögreglunni á ný en hélt síðan aftur vestur um haf og fór í MFA-nám í almennri myndlist í Gold Smiths College þar sem hann lauk námi með Post Graduate Diploma haustið 1992 með lokasýningu og ritgerð sem hann varði.
Að MFA-náminu loknu kom Bjarni heim á ný og hóf störf í lögreglunni og hefur starfað þar síðan að undanskildu einu ári sem hann starfaði sem bílstjóri og fleira í sendiráði Íslands í London.
Bjarni segir að hann hafi, meðfram störfum í lögreglunni, unnið að myndlistinni en honum hafi fundist sem hann staðnaði og næði ekki að þroska sig nægjanlega. Á síðasta vetri bauðst honum aðstaða í Vinnslustöðinni í Eyjum til að vinna að list sinni. "Þetta er forláta stúdíó, það albesta sem ég hef haft," segir Bjarni. Bjarni fékk húsnæðið í mars og fékk þá um leið árs leyfi frá störfum i lögreglunni og hefur frá þeim tíma helgað sig myndlistinni og er afraksturinn sá að 9. október mun hann opna sýningu í Akógeshúsinu í Eyjum á 40 verkum sem hann hefur málað frá því í mars, en Bjarni hefur ekki sýnt opinberlega hér síðan árið 1992 er hann sýndi í Akóges í Eyjum.
Bjarni segist hafa breyst sem listamaður síðan hann fór að vinna núna í nýja vinnusalnum sínum enda hafi hann núna fyrst haft tækifæri á að gefa sig allan í listina og þróa sig. Hann segist hafa unnið að því nú að færa saman óhlutbundnu myndlistina, sem hann hafi áður byggt mest á lit með fegurð að markmiði og stóru öflugu svarthvítu "fígúratívu" myndirnar sem hafi mest byggst á formi og teikningu. Verk hans nú séu því summa þessara tveggja þátta sem hann hafi leitast við að sameina.
Hann segir að myndir hans nú séu annars vegar stórar svarthvítar myndir þar sem spuni eigi sér stað. Þetta séu fantasíur þar sem hann byrji á einum stað í fletinum en haldi síðan áfram þar til flöturinn er fylltur. Formin þrói sig sjálf og hann vinni hratt og ómeðvitað um hvað hann sé í raun að vinna. Við þetta komi fram ýmis form sem hann ýti síðan undir þegar hann sér að þau hafa myndast. Hins vegar sé hann með myndir sem eru smágerðar, mjög litríkar og "fígúratívar". Þannig séu litmyndir hans nú mun "fígúratívari" en áður.
Þá segist hann hafa unnið með ljósmyndir og teikningar saman. Þetta séu sjálfsmyndir þar sem hann hleypi smá "húmör" inn í myndirnar. Þessar myndir byggist á að þenja og teygja andlitið sem mest hann geti og fá fram sem flest svipbrigði.
"Litlu myndirnar eru hálfgerð sjálfspíningarhvöt. Þær eru 15×30 cm á stærð en í þær fara um það bil 50 vinnustundir. Þegar ég vinn að þessum myndum er dagurinn þannig að ég sit við þar til hendur og augu segja stopp," segir Bjarni.
Hann segist telja að æskan og sá ævintýraheimur sem hún var í Eyjum hafi mótað hann mikið og það komi nú fram í verkum hans. "Að alast upp sem krakki í Eyjum var og er ævintýraheimur og nú eru að koma fram í verkum mínum ýmsar furðu- og ævintýraverur sem eiga rót sína í barnæskunni. Hér fór maður á Náttúrugripasafnið og kynntist í raun ævintýrum náttúrunnar og bryggjan var ævintýraheimur út af fyrir sig í barnshuganum. Þetta er nú að koma fram sem einhvers konar lífverur í bæði stórum og smáum myndum. Barnið í mér fær að njóta sín og ímyndunaraflið líka um leið. Ég held því að ég sé nú einlægari í list minni en áður," segir Bjarni.
Hann segir að einn þáttur mynda sinna sé afþreying. "Mér finnst ég ekki ná tilætluðum árangri í mynd ef ekki er afþreying í áhorfun á myndina. Stóru myndirnar eru stútfullar af alls konar verum og ég tel þær ekki hafa tekist nema áhorfandinn geti setið við, horft á hana og séð sífellt einhverjar kynjaverur. Myndirnar eiga að vera lítið ævintýr þar sem áhorfandinn fær samsvörun við barnið í sjálfum sér. Það er nefnilega stórt element við alla sköpun að finna barnið í sjálfum sér," sagði Bjarni.
Bjarni segir að árs leyfið sem hann fékk hjá lögreglunni hafi nú verið stytt þannig að hann verði að snúa aftur til starfa í lögreglunni í nóvember ætli hann sér að halda starfinu þar. "Ég get ekki sleppt starfinu. Það er lítið öryggi í listinni og nú er ég kominn með konu og barn er í vændum þannig að ég get ekki áfram helgað mig listinni eingöngu. Þetta hálfa ár sem ég hef getað sinnt þessu alfarið hefur komið sér vel fyrir mig og hlutir hafa þróast hjá mér. Það var nauðsynlegt fyrir mig að helga mig listinni nú þar sem mér fannst ég hafa staðnað þar sem ég hafði aldrei tíma til að hugsa alfarið um listina. Þetta ráðrúm sem ég hef fengið nú hefur hrist upp í mér og ég mun örugglega halda áfram að mála meðfram störfum mínum í lögreglunni á næstunni," sagði Bjarni Ólafur.
Morgunblaðið/Sigurgeir LISTAMAÐURINN og lög regluþjónninn, Bjarni Ólafur Magnússon, við vinnu á einu verka sinna úr seríunni "Hug fang".
MYNDIRNAR í seríunni "Sviplingar" eru aðeins 7.5 sinnum 7.5 cm. að stærð og voru þessar myndir teknar með macro-ljósmyndalinsu.
HÉR má sjá eitt verkanna úr seríunni "Húmur".
LJÓSORMUR heitir þetta verk, en í því liggur um 50 klukkustunda vinna.
TVÖ verk úr seríunni "Ljós- verur".