BORUN eftir heitu vatni á svokölluðum Brimnesborgum í Árskógsshreppi hófst sl. laugardag. Starfsmenn Jarðborana hf. nota borinn Ými til verksins og eru þeir komnir niður á um 190 metra dýpi. Um er að ræða borun á könnunarholu en verði árangur af þeirri vinnu góður getur hún nýst sem virkjunarhola.
Árskógshreppur
Borað eftir heitu vatniBORUN eftir heitu vatni á svokölluðum Brimnesborgum í Árskógsshreppi hófst sl. laugardag. Starfsmenn Jarðborana hf. nota borinn Ými til verksins og eru þeir komnir niður á um 190 metra dýpi.
Um er að ræða borun á könnunarholu en verði árangur af þeirri vinnu góður getur hún nýst sem virkjunarhola. Kristján Snorrason, oddviti Árskógshrepps, sagði ekkert hafa komið á óvart "en við vonumst til að koma niður á vatn á 350400 metra dýpi."
Álitlegur staður
Á síðasta ári voru boraðar 12 grunnar holur á svæðinu og einnig nokkrar í sumar til að staðsetja þá holu sem verið er að bora. Brimnesborgir eru mitt á milli þéttbýlisstaðanna Hauganess og Árskógssands og staðurinn því mjög álitlegur finnist þar vatn.
Sveinbjörn Þórisson, borstjóri á Ými, sagði verkið hafa gengið vel og hann gerir ráð fyrir að hlutirnir fari að skýrast um miðja næstu viku, komi ekkert upp á. Á fimmtudag var holan fóðruð með stálrörum og steypu.
Morgunblaðið/Kristján KRISTJÁN Snorrason, oddviti Árskógshrepps, var sjálfur við vinnu á borstaðnum og rafsauð rörin saman sem notuð voru til að fóðra holuna, ásamt Benedikt Ketilbjarnarsyni, starfsmanni Jarðborana.