Fimm fyrirspurn-
ir um stóriðju-
framkvæmdir
HJÖRLEIFUR Guttormsson alþingismaður hefur beint fimm fyrirspurnum til iðnaðarráðherra varðandi orkustefnu ríkisstjórnarinnar
og ýmsar stóriðjuframkvæmdir sem verið hafa í umræðunni.
Varðandi viðræður við Norsk- Hydro um álbræðslu á Íslandi vill þingmaðurinn fá upplýsingar um ráðgert framhald viðræðna, hugmyndir um staðsetningu álbræðslu, raforkuþörf, orkuframkvæmdir, fjárfestingakostnað, byggingartíma, eignaraðild og fleira.
Þá spyr hann um stöðu viðræðna við Atlantsál-samsteypuna vegna álbræðslu á Keilisnesi. Hvaða breytingar hafi orðið á stöðu málsins frá 1992, hvort viðræður við Norsk- Hydro hafi áhrif á viðræður við Atlantsál, hvort skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hafi verið lögð fram eða sótt um starfsleyfi og hver sé bókfærður kostnaður ríkisins og Landsvirkjunar vegna undirbúnings málsins.
Kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði
Varðandi athuganir á byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði fýsir Hjörleif Guttormsson að vita hver staða málsins sé og hvort undanfarið hafi átt sér stað viðræður við erlenda aðila um málið. Einnig hvort ríkisstjórnin sé reiðubúin að taka frumkvæði í málinu með innlendri fjármögnun ef hagkvæmt þyki eins og gert var ráð fyrir er lög voru sett um verksmiðjuna árið 1982.
Hjörleifur spyr einnig um stöðu viðræðna um lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlands eða meginlands Evrópu; um rekstrar- og kostnaðarþætti málsins, flutningsgetu og áætlaðan stofn- og rekstrarkostnað. Hve mikla orku sé um að ræða, og til hvaða virkjana hafi verið horft. Einnig um forsendur varðandi fjármögnun, afhendingu og orkuverð varðandi samninga um slíka orkusölu og hverjir hafi umsjón með málinu og hvaða áfangar séu framundan í viðræðum um það.
Olíuhreinsistöð
Loks vill Hjörleifur Guttormsson að iðnaðarráðherra svari því með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hafi að undanförnu fjallað um byggingu stórrar olíuhreinsunarstöðvar hérlendis. Hvaða erlendir aðilar hafi komið að málinu og hverjar séu tæknilegar og viðskiptalegar forsendur þess. Jafnframt hvort fyrir liggi úttekt á áhættuþáttum varðandi mengunarhættu, hvert ráðgert sé að framhald málsins verði og hvað liggi fyrir um hugsanlega staðsetningu slíkrar olíuhreinsistöðvar hérlendis.