ADAM ZAGAJEWSKI
PÓSTKORT
SKRIFAÐ Á KVÖLDI Á HEIMILISFANGIÐ SKYNSEMIN
Hví varparðu skugga með
ljósi þínu á syfjaða lundi veruleikans?
Líkastur næturverði með vasaljós og hund
sleginn ótta gengurðu
ógirta skrúðgarða, greinarnar
snerta
vanga þína. Æ þú ómissandi litla ljós,
hví hylurðu myrkrið, hví brenna
náttfiðrildin, ekkjurnar ungu, í köldum logum
þínum og verða hamslausar?
Adam Zagajewski fæddist 1945 í Lwow í Póllandi. Bærinn var innlimaður í Sovétríkin eftir heimsstríðið síðara. Höfundurinn telst til hefðbundinna en nýjungagjarnra ljóðskálda. Hann býr í París.
ORHAN VELI
INNANHÚSS
Það besta er glugginn
Í stað fjögurra veggja
sér maður fugla fljúga hjá
Orhan Veli var tyrkneskt skáld, f. 1904 í Istanbul, d. 1950. Var meðal fyrstu nýjungamanna í ljóðlist þarlendra, sparsamur.
BEI DAO
VILLTUR
Ég elti hljóðpípu dúfunnar
og leitaði þín
hár skógur skyggði á himin
túnfífill villtur á stígnum
leiddi mig að blýgráu vatni
í hæglátri svífandi spegilmynd
fann ég augu þín ómælanlega djúp.
Bei Dao er kínverskt skáld, sagður hafa endurnýjað kínverska ljóðlist eftir 1949. Hann er innan við fimmtugt og eftir hann liggja sex ljóðabækur.
Þýðandinn er leikari og hefur starfað jöfnum höndum á Íslandi og í Noregi.