LEIGUBÍLSTJÓRINN Jerry Fletcher (Mel Gibson) lifir í ótta við fortíð sem hann getur með engu móti munað eftir. Á meðan hann eyðir deginum í að keyra leigubíl sinn í stórborginni New York veltir hann ýmsu fyrir sér og trúir hann því að spillingu sé að finna alls staðar í þjóðfélaginu.
KVIKMYNDIR/ Sambíóin sýna spennutryllinn Conspiracy Theory með þeim Mel Gibson og Juliu Roberts í aðalhlutverkum. Í myndinni þurfa þau skötuhjúin að fletta ofan miklum spillingarvef um samsæri á æðstu stöðum í stjórnkerfi Bandaríkjanna

Spilling

í hverju skúmaskoti

Frumsýning

LEIGUBÍLSTJÓRINN Jerry Fletcher (Mel Gibson) lifir í ótta við fortíð sem hann getur með engu móti munað eftir. Á meðan hann eyðir deginum í að keyra leigubíl sinn í stórborginni New York veltir hann ýmsu fyrir sér og trúir hann því að spillingu sé að finna alls staðar í þjóðfélaginu. Jerry hefur fastmótaðar skoðanir á öllu sem nöfnum tjáir að nefna, en innra með honum bærast þokukenndar minningar sem þó eru raunverulegar og vægast sagt ógnvekjandi. Hann veit hins vegar ekki hvort um er að ræða ímyndun eða raunveruleika og enginn nennir að hlusta á þessi vandamál hans. Hugsanir hans skarast þó við raunveruleikann þegar hann kynnist lögfæðingnum Alice Sutton (Julia Roberts). Faðir hennar féll fyrir morðingja hendi nokkrum árum áður og öll málsmeðferðin í kjölfarið var hin dularfyllsta. Alice hefur einsett sér að leysa þetta mál og komast að sannleikanum á bakvið morðið og við þá iðju sína verður Jerry á vegi hennar og saman takast þau á við að leysa þá gátu sem þau standa frammi fyrir í sameiningu.

Leikstjóri Conspiracy Theory er Richard Donner, sem gert hefur marga spennumyndina í gegnum tíðina. Meðal þeirra eru The Omen, Maverick, Assassins, og Lethal Weapon myndirnar þrjár. Framleiðandi myndarinnar er Joel Silver, en Mel Gibson hefur áður unnið með þeim félögum við gerð Leathal Weapon myndanna. Joel Silver er einhver happasælasti kvikmyndaframleiðandinn nú til dags, en tekjur af myndunum sem hann hefur framleitt eru orðnar sem svarar til 150 milljarða íslenskra króna. Á síðasta ári stóð hann á bak við myndina Executive Decision með þeim Kurt Russell og Steven Seagal í aðalhlutverkum og var það ellefta mynd framleiðandans sem skilaði meiru en 100 milljónum bandaríkjadala í tekjur. Fyrirtæki Silvers lauk nýlega við að framleiða myndina Father's Day með Robin Williams og Billy Crystal í aðalhlutverkum og um þessar mundir er verið að ljúka við gerð myndarinnar Midnight in the Garden of Good and Evil sem Clint Eastwood leikstýrir.

Gibson er fæddur í Bandaríkjunum en hann flutti til Ástralíu með foreldrum sínum og 11 systkinum þegar hann var 12 ára gamall. Fyrsta myndin sem vakti á honum athygli var Tim frá árinu 1979 en í henni lék hann vangefinn strák og hreppti ástralska Óskarinn fyrir. Það sama ár lék hann í fyrstu Mad Max-myndinni og endurtók leikinn tveimur árum seinna. Eftir að hafa leikið í Gallipoli og The Year of Living Dangerously flutti Gibson til Bandaríkjanna en þar hafði hann vakið áhuga frammámanna í kvikmyndaiðnaðinum. Leikur hans í myndum á borð við Lethal Weapon, Bird on a Wire, Air America tryggði honum vinsældir vestan hafs, reyndar um heim allan, og athygli vakti frammistaða hans í hlutverki Hamlets í mynd Franco Zefferellis. Flestir þekkja framhaldið en hápunkturinn á ferli Gibsons hingað til er Braveheart sem krækti í fimm helstu óskarsverðlaunin, og hlaut Gibson verðlaunin sem besti leikstjórinn. Síðasta myndin sem kappinn lék í var svo Ransom sem var ein af vinsælustu myndunum sem gerðar voru á síðasta ári.

Julia Roberts prýðir hvíta tjaldið um þessar mundir í myndinni My Best Friend's Wedding, en þar áður lék hún á móti Liam Neeson í Michael Collins. Julia aldist upp við leiklist í barnæsku því foreldrar hennar ráku leikhúsverkstæði þar sem fjölskyldan bjó í borginni Smyrnu í Georgíufylki. Eric bróðir Juliu hjálpaði henni til að fá fyrsta kvikmyndahlutverkið, en þá hafði hann getið sér þokkalegt orð sem leikari. Hún vakti þó ekki athygli fyrr en hún lék í myndinni Steel Magnolias, en fyrir það hlutverk var hún tilnefnd til óskarsverðlauna. Heimsfrægðin var svo handan við hornið því næsta hlutverk hennar var í kvikmyndinni Pretty Woman þar sem hún lék á móti Richard Gere og var hún þá aftur tilnefnd til óskarsverðlaunanna. Hlutverkið gerði hana að einni eftirsóttustu leikkonunni í Hollywood á níunda áratugnum. Eftir að hafa leikið í nokkrum myndum sem sumar þóttu ágætar en aðrar slæmar dró Julia sig í hlé um nokkurt skeið en hún var orðin þreytt á því að vera stöðugt undir smásjá fjölmiðlanna og almennings. Hún kom svo aftur fram á sjónarsviðið 1992 þegar hún lék í myndinni Pelican Brief og síðan hefur hún átt ágæta spretti.

LEIGUBÍLSTJÓRINN Jerry Fletcher (Mel Gibson) heldur að spillingu og samsæri sé að finna alls staðar í þjóðfélaginu.

ALICE (Julia Roberts) ráðfærir sig við Dr. Jonas (Patrick Stewart), sem er geðlæknir sem starfar fyrir ríkisstjórnina.

ÞAU Jerry og Alice reyna í sameiningu að fletta ofan af spillingunni sem þau verða vör við í stjórnkerfinu.

INNRA með Jerry bærast þokukenndar minningar sem þó eru raunverulegar og vægast sagt ógnvekjandi.