FÉLAG íslenskra bifreiðaeigenda hleypir af stokkunum nýrri þjónustu fyrir félagsmenn sína í næstu viku, FÍB-aðstoð. Árni Sigfússon, formaður FÍB, segir að þjónustan felist í því að félagsmönnum verður veitt aðstoð ef eitthvað bjátar á í borgarumferðinni þeim að kostnaðarlausu. Til þess að veita þjónustuna hefur félagið tekið upp samstarf við þrjú af stærstu bifreiðaumboðum landsins, þ.e. P.
Ný þjónusta FÍB við félagsmenn

FÍB-aðstoð og

farsímar boðnir

með afslætti

FÉLAG íslenskra bifreiðaeigenda hleypir af stokkunum nýrri þjónustu fyrir félagsmenn sína í næstu viku, FÍB-aðstoð. Árni Sigfússon, formaður FÍB, segir að þjónustan felist í því að félagsmönnum verður veitt aðstoð ef eitthvað bjátar á í borgarumferðinni þeim að kostnaðarlausu. Til þess að veita þjónustuna hefur félagið tekið upp samstarf við þrjú af stærstu bifreiðaumboðum landsins, þ.e. P. Samúelsson, Heklu og Ingvar Helgason, sem útvega bíla. Þeir verða málaðir í skærgulum lit með merki FÍB. Símanúmer þjónustunnar verður 5-112-112. Fyrst um sinn verða bílarnir þrír. Jafnframt hefur FÍB samið við Póst og síma hf. um magnkaup á GSM- og NMT-símum sem félagsmenn eiga kost á að kaupa á 30­50% afslætti.

Ekkert afnotagjald fyrstu fjóra mánuðina

Félagsmenn í FÍB eru um 18 þúsund. Félagið hefur veitt vegaþjónustu um margra ára skeið fyrir félaga á ferðalögum úti á þjóðvegum landsins en það er nýlunda hér á landi að bjóða aðstoð innan höfuðborgarsvæðisins. Þjónusta af þessu tagi er hins vegar alþekkt í flestum Evrópulöndum.

Þjónustan felur m.a. í sér straumgjöf til bíla sem verða rafmagnslausir í umferðinni, aðstoð við allar minniháttar bilanir og margvíslega aðra aðstoð. Þá er samstarf milli dráttarbílafyrirtækisins Króks og FÍB um aðstoð við félagsmenn ef alvarlegri bilanir koma upp.

Árni sagði að gerð hefði verið markaðsrannsókn áður en félagið ákvað að hleypa þjónustunni af stokkunum. Kom þar í ljós að margir töldu erfitt að nýta sér þjónustuna því bilanir í bílum kæmu oft upp þar sem langt væri í næsta síma. Leiddi það til þess að FÍB tók upp viðræður við Póst og síma um sölu á GSM- og NMT-símum til félagsmanna. Félagsmönnum býðst því bílsími á hagstæðum greiðslukjörum og miklum afslætti vegna magninnkaupa. Mánaðarlegar greiðslur af GSM-síma verða frá 1.500 krónum á mánuði og frá 1.900 krónum á mánuði af NMT- síma. Fyrstu fjórir mánuðir afnotagjaldsins verða innifaldir í verði.

Morgunblaðið/Júlíus FÍB-AÐSTOÐ verður veitt á skærgulum bílum sem verða væntanlega áberandi í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu.