"Ekki fara!"
Í ÁLFTANESSKÓLA í Bessastaðahreppi hafa 14 af 17 kennurum
sagt upp störfum. Þeirra á meðal eru þær Sigríður Hulda Sveinsdóttir og Þorgerður Guðfinnsdóttir, sem báðar kenna 10 ára bekk, en af þeim þremur sem ekki sögðu upp eru tveir leiðbeinendur sem ekki voru búnir að skrifa undir ráðningarsamning og einn nýráðinn kennari.
"Ég segi upp vegna langvarandi óánægju með kjör og þeirrar staðreyndar að til þess að vera kennari þarf maður eiginlega að hafa aðra fyrirvinnu á heimilinu og það er lítillækkandi þegar maður er búinn að leggja á sig háskólanám. Þar að auki sýnist manni að óskaplega lítið hafi gerst í samningamálunum og það litla sem boðið hefur verið upp á er á þeim nótum að það er bókstaflega móðgun. Það er í rauninni ekki launahækkun heldur einhverjar tilfærslur eins og í síðustu samningum og við ætlum ekki að láta bjóða okkur það aftur," segir Þorgerður.
Á að setja kennara í glerbúr?
Sigríður Hulda tekur í sama streng og bætir við að hún sé afar ósátt við að þurfa alltaf að vera að afsaka það að hún sé kennari. Þá sé neikvæð umræða í þjóðfélaginu og ranghugmyndir meðal almennings um að kennarar séu alltaf í fríi mjög þreytandi.
Þær tala um ófullnægjandi vinnuaðstöðu í skólunum, sem geri að kennarar neyðist enn frekar til að taka vinnuna með sér heim. "Hvað varðar þennan svokallaða sýnileika vinnunnar sem formanni samninganefndar hefur verið svo tíðrætt um, þá mætti kannski spyrja hvort rétt væri að setja okkur í glerbúr fyrir utan skólann svo að það sæist örugglega að við værum að vinna," segir Þorgerður. "Það er mjög þreytandi að fá það í hausinn að maður geri ekki neitt, sé alltaf í fríi og vinni ekki vinnuna sína."
Fögur orð um yfirfærsluna
Báðar tala þær um að kennarar hafi bundið miklar vonir við yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna. "Menn höfðu svo mörg og fögur orð um þessa breytingu og kennarar sáu fram á betri tíð og betri samningsstöðu," segir Þorgerður. Sigríður Hulda segir að sér þyki jákvætt að margir sveitarstjórnarmenn hafi að undanförnu lýst stuðningi við kröfur kennara. Þeir séu hins vegar í erfiðri stöðu, þar sem yfirfærslan hafi reynst þyngri í vöfum en ráð var fyrir gert.
Þorgerður tekur fram að kennurunum sem nú hafa sagt upp hafi öllum líkað vel að vinna í Álftanesskóla. "Þetta beinist ekki gegn honum eða þessu sveitarfélagi sérstaklega, heldur er þetta bara almenn óánægja með hvernig málin hafa þróast. Þetta er mjög alvarleg ákvörðun og það er ekki með glöðu geði að maður segir upp en það er bara ekki hægt að láta bjóða sér þetta lengur," segir hún.
"Það sagði einn nemandi við mig um daginn: "Þorgerður, þú ert búin að kenna mér frá því ég var sex ára, ekki fara!" Það er ekki laust við að maður fái svolítinn sting í hjartað."
Morgunblaðið/Ásdís SIGRÍÐUR Hulda Sveinsdóttir og Þorgerður Guðfinnsdóttir, kennarar í Álftanesskóla.