Selja lífrænt rækt-
aðar matvörur
YGGDRASILL er lítil búð sem kúrir
við Kárastíg. Þetta er ein af þessum litlu búðum þar sem kaupmaðurinn gefur sér tíma til að spjalla við viðskiptavinina um daginn og veginn. Það er engin biðröð við kassann og tal viðskiptavinarins og kaupmannsins berst að ofnæmi. Matvörurnar sem seldar eru í Yggdrasil eru allar lífrænt ræktaðar og því leggja margir leið sína þangað sem eru með ofnæmi af einhverjum toga.
Hófu reksturinn í kjallaranum
"Við bjuggum í Svíþjóð og þegar við komum heim fannst okkur úrvalið afskaplega takmarkað af lífrænt ræktuðum vörum. Við stofnuðum því fyrirtæki og byrjuðum að selja nauðsynjar í kjallaraherbergi heima hjá okkur í Kópavogi," segir Rúnar Sigurkarlsson, en hann og eiginkona hans Hildur Guðmundsdóttir reka saman verslunina og hafa gert öll árin.
"Smám saman bættum við inn í nýjum vöruflokkum og svo opnuðum við búðina við Kárastíg árið 1988." Til að byrja með var hún bara opin þrjá daga í viku en núna eru þau með opið alla virka daga frá 12-18 og á laugardögum frá 11-1.
"Þetta hefur verið að smákoma. Við finnum fyrir vaxandi áhuga á lífrænt ræktuðum vörum. Það eru ekki bara þeir sem eru með ofnæmi sem kaupa hjá okkur heldur er sá hópur enn stærri sem er að velta fyrir sér hvað hann setur ofan í sig.
Epli borðuð með hýðinu
Rúnar og Hildur hófu innflutning á lífrænt ræktuðum ávöxtum fyrir um einu ári og þau segja að hann gangi betur en þau bjuggust við. "Auðvitað er þetta dýrara en að kaupa ávexti í stórmarkaði en fólk getur líka verið óhrætt við að borða hýðið af eplunum eða nota börkinn í uppskriftir. Engum eiturefnum hefur verið sprautað á ávextina sem við erum að selja."
Það eru ekki bara epli og appelsínur sem eru á boðstólum heldur líka melónur, bananar, sítrónur og perur. Þá flytja þau líka inn ferskan engifer, lauk og hvítlauk. En hvað með grænmeti?
"Við fáum mikið frá íslenskum bændum og seljum mest frá Hæðarenda, Neðri Hálsi í Kjós, Akri í Laugarási, Vallanesi á Egilsstöðum og Skaftholti.
Margir íslenskir bændur eru að rækta lífrænt og við höfum sem betur fer getað keypt mestallt grænmeti af þeim."
Meira að segja súkkulaði
Hildur og Rúnar segja að nú orðið fáist næstum allt lífrænt ræktað. Þarna má líka í hillunum sjá salsasósur, kartöfluflögur, hrökkbrauð, kex, sælgæti eins og súkkulaði, krydd, korn, hrísgrjón, sultur og marmelaði, tómatsósur og sinnep og svo framvegis. Svo rek ég augun í hamingjuegg !
Hvernig eru hamingjuegg frábrugðin venjulegum eggjum?
"Jú sérðu til hænurnar fá að ganga lausar", segir Hildur.
"Þær eru að vísu ekki á 100% lífrænu fóðri en eru þó á mun betra fóðri en tíðkast að gefa hænsnum.
Það er mikils virði að dýrunum líði vel."
Í þessu kemur inn um dyrnar sending af volgum, nýbökuðum brauðum. "Öll brauðin okkar eru bökuð í Björnsbakaríi í Grímsbæ og þetta eru allt súrdeigsbrauð sem eru gerlaus og að sjálfsögðu er hráefnið í þeim lífrænt ræktað. Um sjö mismunandi tegundir er að ræða."
Það er athyglisvert að flestar vörur eru með einhverjum stimplum, demeter stendur á mörgum pakkningum, eco eða önnur álíka merki. Hvað tákna þau?
"Þegar vara er vottuð sem lífrænt ræktuð þýðir það að eftirlitsaðili staðfestir að ekki hafi verið notaður tilbúinn áburður og engin eiturefni. Sumar gæðamerkingarnar eru alþjóðlegar aðrar tengdar ákveðnum löndum. Nokkrar vörutegundir hafa alþjóðlegan vörustimpil og stimpil frá viðkomandi landi. Síðan eru mismunandi strangar reglur bak við gæðamerkingar. Demeter stimpillinn er sá strangasti sem hægt er að fá og mikið af þeim vörum sem við seljum hafa þennan stimpil.
Við höfum lagt áherslu á að vita um uppruna allra okkar vara og hafa þær stimplaðar þannig að viðskiptavinir okkar gangi að því sem vísu að vörunni sé hægt að treysta.
En er þessi vara ekki miklu dýrari en það sem býðst í stórmörkuðum?
"Það er mismunandi eftir vörutegundum. Dæmi eru um vörur sem eru ódýrari en flestar lífrænar vörur eru dýrari en venjulegar vörur sem seldar eru í stórmörkuðum. Við lítum svo á að með því að nota lífrænt ræktaðar vörur sé neytandinn ekki einungis að borða holla matvöru heldur einnig að leggja sitt af mörkum til umhverfisverndar," segir Hildur.
Morgunblaðið/Halldór
HILDUR Guðmundsdóttir er annar eiganda Yggdrasils
LÍFRÆNT ræktaðir ávextir hafa fengist hjá þeim í um ár.