Hjúkrunarheimili
rís í Hveragerði
Hveragerði - Framkvæmdir við nýbyggingu hjúkrunarheimilis við
Dvalarheimilið Ás í Hveragerði eru nú vel á veg komnar. Búið er að steypa neðri hæð hússins og uppsteypa á veggjum efri hæðar er langt komin. Verktaki í þessum hluta framkvæmdarinnar er Byggðasel, Hveragerði. Við bygginguna vinna nú um 16 manns, og hefur verkið gengið vel. Áætluð verklok þessa áfanga eru 1. desember en þá á byggingin að vera fokheld, fullbúin að utan og lóðin grófjöfnuð.
Að sögn Gísla Páls Pálssonar, framkvæmdastjóra Dvalarheimilisins Áss, hefur byggingin stækkað um 200 fm frá því sem fyrst var áætlað en heildargólfflötur verður 1.700 fm. Í nýju byggingunni verður pláss fyrir 26 manns á hjúkrunardeild en einnig verður í byggingunni skrifstofuaðstaða og þjónusturými er nýtast mun öllum heimilismönnum á Dvalarheimilinu Ási. Aðspurður sagðist Gísli búast við því að um 25 ný störf myndu skapast við hjúkrunarheimilið er það tekur til starfa. Áætlaður byggingarkostnaður þess er 230 milljónir króna.
Morgunblaðið/Aldís Hafsteinsdóttir FRAMKVÆMDIR við hjúkrunarheimili í Hveragerði ganga vel.