ÞESS verður minnst sunnudaginn 12. október kl. 14 við fjölskylduguðsþjónustu að 40 ár eru liðin síðan að safnaðarheimili Óháða safnaðarins var vígt. Verður kvenfélag Óháða safnaðarins með kaffisölu að lokinni messu.
40 ára vígsluafmæli safnaðarheimilis Óháða safnaðarins

ÞESS verður minnst sunnudaginn 12. október kl. 14 við fjölskylduguðsþjónustu að 40 ár eru liðin síðan að safnaðarheimili Óháða safnaðarins var vígt. Verður kvenfélag Óháða safnaðarins með kaffisölu að lokinni messu.

"Safnaðarheimilið Kirkjubær var vígt 13. október árið 1957 þegar hornsteinn kirkjunnar var lagður af Gunnari Thoroddsen þáverandi borgarstjóra. Er Kirkjubær á tveimur hæðum þar sem rúmast 110 manns við borð. Hefur kvenfélagið á margvíslegan hátt styrkt starf safnaðarins og búið félagsheimilið þeim tækjum sem til þarf nú síðast með loftræstikerfi í eldhúsið. Er þessi kaffisala á kirkjudeginum á morgun til fjáröflunar fyrir kvenfélagið, segir í fréttatilkynningu frá söfnuðinum.

Guðsþjónustur eru í kirkju Óháða safnaðarins við Háteigsveg annan og fjórða sunnudag mánaðarins kl. 14 og er barnastarfið á sama tíma.

Í fjölskylduguðsþjónustunni á morgun mun John Speight einsöngvari syngja við undirleik Péturs Máté en síðan streyma menn til safnaðarheimilisins til að smakka á rjómatertunum og öðru randabrauði sem bíður í röðum eftir að hverfa ofan í maga þeirra sem mæta til kirkju, segir ennfremur í tilkynningu.